Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Ragnar um ritstjóra Fréttablaðsins: „Þarf ekki að koma neinum á óvart að hann ráðist að minni persónu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR segir að það hefði komið á óvart ef Davíð Stefansson ritstjóri Fréttablaðsins hefði ekki gagnrýnt sig í nýlegum leiðara, með hliðsjón af sögu Davíðs og Helga Magnússonar, eins eigenda blaðsins.

Það hefur gustað hressilega um Ragnar Þór Ingólfsson síðan hann tók við embætti formanns VR fyrir tveimur árum. Hann hefur verið kallaður öllum illum nöfnum, ásakaður um einræðistilburði og ofstæki og að setja persónuleg markmið ofar hagsmunum félagsmanna. Síðasta dæmið um þetta er leiðari nýráðins ritstjóra Fréttablaðsins, Davíðs Stefánssonar, þann 1. júlí síðastliðinn þar sem ráðist er harkalega að Ragnari fyrir þá ákvörðun fulltrúaráðs VR að skipta út öllum fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna í kjölfar þeirrar ákvörðunar stjórnar lífeyrissjóðsins að hækka breytilega vexti. Ragnar svaraði þessum ásökunum í langri færslu á Facebook þar sem hann sagði meðal annars að með þessum leiðara hefði Davíð stimplað sig rækilega inn sem lobbíista sem allir sjá í gegnum. Hvað á hann við með þeim orðum?

„Davíð var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins eftir að Helgi Magnússon fjárfestir keypti helmingshlut í blaðinu,“ segir Ragnar og heldur áfram. „Helgi er fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einn af þeim sem stóð fyrir því að sjóðurinn lagði háar upphæðir í Silicor Materials í gegnum félagið Sunnuvelli sem áðurnefndur Davíð Stefánsson stýrði. Stefnan var að reisa kísilverksmiðju í Hvalfirði sem svo aldrei varð og milljarðar hafa tapast án þess að skóflu væri stungið í jörðu. Þetta er eitt óteljandi dæma um skaðvænleg áhrif ítaka atvinnurekanda í lífeyrissjóðunum og það eru þau ítök sem Davíð og fleiri lobbíistar atvinnurekanda eru ráðnir til að standa vörð um. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hann ráðist að minni persónu til að gera baráttu VR fyrir því að losa um þessi ítök tortryggilega. Það hefði komið meira á óvart ef hann hefði ekki gert það.“

„Þetta er eitt óteljandi dæma um skaðvænleg áhrif ítaka atvinnurekanda í lífeyrissjóðunum og það eru þau ítök sem Davíð og fleiri lobbíistar atvinnurekanda eru ráðnir til að standa vörð um.“

Út í hött að tala um strengjabrúður
Davíð er ekki sá eini sem hefur gagnrýnt þá ákvörðun fulltrúaráðs VR að skipta fulltrúum í stjórn LIVE út. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir ákvörðun VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna vera grafalvarlegt mál. Fjármálaeftirlitið hljóti að kanna lögmæti inngrips VR. Þá segir Helgi Vífill Júlíusson, blaðamaður Markaðarins, það hættulegt að Ragnar Þór og samstarfsmenn hans geti skipt út hálfri stjórn lífeyrissjóðs þegar þeim hentar. Hvernig þykir Ragnari að sitja undir þessum fullyrðingum?

„Þessar fullyrðingar eru auðvitað af sama toga og leiðari Davíðs,“ segir Ragnar. „Ítökum atvinnurekanda í stjórn lífeyrissjóðsins er ógnað og þá stökkva lobbíistar þeirra til varnar. Þetta er ekki svaravert, það er ekkert í lögum sem bannar fulltrúaráðinu að afturkalla umboð fulltrúanna í stjórn lífeyrissjóðsins og lög og reglur VR styðja fullkomlega við okkur í þessu máli, að halda því fram að tuttugu af þeim tuttugu og fjórum fulltrúum sem mættu á fund fulltrúaráðsins þar sem þessi ákvörðun var tekin séu strengjabrúður mínar er auðvitað gjörsamlega út í hött. Það sér hvert mannsbarn. Þetta eru varnarbrögð þess sem telur sér ógnað.“

„Þetta bitnar auðvitað á fjölskyldunni“
Það hlýtur samt að vera erfitt að sitja undir þessum árásum, hefur þetta ekki gengið nærri þér?
„Ég tek þetta ekki persónulega, fjarri því,“ segir Ragnar. „Ég vissi það þegar ég gaf kost á mér í þetta starf að því fylgdi mikið áreiti og alls konar persónulegar svívirðingar. Ég hefði ekki tekið þennan slag ef ég hefði ekki treyst mér til að taka því. En þetta reynir vissulega stundum á, ég neita því ekki. Aðallega það að áreitið tekur aldrei enda. Maður er í vinnunni allan sólarhringinn. Ég er kannski í helgarferð í sumarbústað með fjölskyldunni þegar eitthvert mál sem fjölmiðlar hafa áhuga á kemur upp og það endar með því að ég er í símanum að svara spurningum blaðamanna meirihluta ferðarinnar. Og ef ég er ekki í símanum er ég að hugsa um eitthvað sem þarf að takast á við og ekki almennilega til staðar fyrir börnin mín þótt ég sé á staðnum. Það þykir mér leiðinlegt.“

„Ég vissi það þegar ég gaf kost á mér í þetta starf að því fylgdi mikið áreiti og alls konar persónulegar svívirðingar. Ég hefði ekki tekið þennan slag ef ég hefði ekki treyst mér til að taka því.“

Ragnar er kvæntur Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur og fimm barna faðir. Hefur þetta áreiti ekkert bitnað á fjölskyldunni? Hafa börnin til dæmis orðið fyrir áreiti vegna framgöngu föður þeirra?
„Þetta bitnar auðvitað á fjölskyldunni á þann hátt sem ég lýsti hér að framan,“ segir Ragnar. „Ég er lítið til staðar. En þau hafa ekki orðið fyrir neinu aðkasti, síður en svo. Við finnum miklu meira fyrir því að fólk er ánægt með það sem við í VR erum að gera og þakklátt fyrir það að við tökum slaginn. Það er mikill meðbyr með starfi okkar og ég finn fyrir gríðarlega jákvæðum straumum frá félagsmönnum í VR og öðrum launþegum. Það gerir þetta allt saman þess virði að standa í því.“

- Auglýsing -

Ragnar Þór eru í ítarlegu viðtali hér.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -