Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir í Grindavík: „Er ekki örugglega að fara að gjósa fyrir kvöldmat?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég náði klukkutíma svefni aðfaranótt mánudags; sú nótt var afleit. Hún var sú versta,“ segir Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir, íbúi í Grindavík, um áhrif jarðskjálftanna. „Þetta er óþægileg upplifun; þetta var stöðugur hristingur og við finnum náttúrlega fyrir öllum skjálftum sem eru yfir tveir á Richter af því að upptökin eru svo nálægt okkur. Þetta kvöld og þessa nótt voru endalausir skjálftar og flestir á milli þrír og rúmlega fjórir á Richter að stærð.

Mér finnst óhuggulegt að vakna við harðan skjálfta. Mér finnst best að vera á vappinu; vera bara á hreyfingu sjálf af því að þá finn ég ekki eins mikið fyrir þessu. Eina nóttina í fyrra held ég að ég hafði náð um 9000 skrefum; þá var ég bara á ferðinni á meðan allir strákarnir mínir og maðurinn minn sváfu. Þeir veltu sér bara á hliðina þegar skalf og náðu að sofna aftur.“

Ragnheiður, eiginmaður hennar og yngsti sonur þeirra voru í heita og kalda pottinum í sundlauginni í Grindavík þegar stóri skjálftinn reið yfir á sunnudaginn. „Við vissum bara ekki hvaðan á okkur stóð veðrið; við héldum að kaldi potturinn myndi fara á hliðina og sundlaugin breyttist í öldulaug. Svo tæmdust báðir heitu pottarnir á augabragði. Svo kom í ljós að vatnslagnir og tengingar höfðu gefið sig í skjálftanum og pottarnir tæmdu sig beint í kjallarann og kom slökkviliðið til að tæma hann.“

Versta tilfinningin tengist því hvað getur gerst.

Jú, jörð hefur skolfið mikið undanfarin misseri á svæðinu. „Við erum náttúrlega orðin þokkalega vön hérna í Grindavík. En versta tilfinningin tengist því hvað getur gerst. Það er alltaf verið að segja manni að húsin séu vel byggð og maður veit það alveg en versta tilfinningin er þegar hugurinn ber mann aðeins lengra heldur en maður á að fara með hann. Það er kannski erfiðast í þessu.“

Ragnheiður segir að mesta óvissan hvað sig varðar tengist yngsta syni hennar sem er 14 ára. „Hann er ekki með bílpróf og mér finnst það vera óþægilegt en þegar ég fór í vinnuna í morgun hugsaði ég með mér hvað myndi gerast ef það kæmi stór skjálfti og fara að gjósa og það þyrfti að rýma og hann væri einn heima.“

Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir

- Auglýsing -

Einhvern krúttlegan stað

Ragnheiður segir að þegar byrjaði að gjósa við Fagradalsfjall í fyrra eftir langt skjálftatímabil þá hafi þau verið svo fegin að vera laus við þessa jarðskjálfta og hún viðurkennir að hún hafi verið svolítið smeyk við þá. „Ég horfið á gosið út um eldhúsgluggann hjá mér; ég horfði á gosið þegar ég var að vaska upp og mér fannst það vera pínu óþægilega nálægt en núna þegar jarðskjálftarnir eru byrjaðir aftur þá hugsar maður að nú megi fara að gjósa. Það er lausnin fyrir okkur. Þetta voru hjá mér þrjár svefnlausar vikur í fyrra áður en byrjaði að gjósa; ég var orðin rangeygð af svefnleysi. Ég var orðin langþreytt og núna hugsar maður „fínt, er ekki örugglega að fara að gjósa fyrir kvöldmat?“ Við viljum einhvern krúttlegan stað eins og hitt gosið var á. En við megun ekki fara með hugann of langt af því að ef það myndi gjósa á bak við Þorbjörn þá værum við náttúrlega ekki í góðum málum.“

Ragnheiður segir að þrátt fyrir allt séu Grindvíkingar tiltölulega rólegir. „Hér hafa allar eignir selst. Það er ótrúlegt; við héldum nefnilega þegar byrjaði að gjósa í fyrra að við yrðum í verðlausum eignum og að enginn myndi vilja vera hér en raunin varð önnur. Það seljast öll hús og það virðist ekki vera neinn bilbugur í fólki að koma hingað og vera hérna.“

Þá fer maður kannski að spá í að það væri kannski betra að vera einhvers staðar annars staðar.

- Auglýsing -

Ragnheiður fæddist og ólst upp í Grindavík. „Það hefur aldrei hvarflað að mér að flytja héðan en þegar maður les það sem haft er eftir vísindamönnum að við séum að fara inn í eitthvað svakalegt tímabil, jafnvel tugi ára, þar sem þetta verður svona þá fer maður kannski að spá í að það væri kannski betra að vera einhvers staðar annars staðar.“

 

Síminn, fötin og bensínið

Ragnheiður er spurð hvað hún hafi lært af því að upplifa þessa skjálfta undanfarin misseri og svo gosið við Fagradalsfjall.

„Maður þarf að taka svolítið til í hausnum. Þegar maður var orðinn svona svefnlaus í fyrra og úrvinda af þreytu þá fór maður að hugsa kolvitlaust og mikla allt fyrir sér og maður hafði sig ekki í neitt. Maður þorði ekki að fara út úr bænum ef eitthvað myndi gerast og synirnir væru heima. Þetta voru alls konar hugsanir. Maður þarf samt að reyna að hafa þetta sem eðlilegast þó þetta sé á bak við eyrað en það sækja að manni hugsanir sem maður er pínu smeykur við. En aðalatriðið er að halda haus og reyna að hafa þetta sem eðlilegast. Í fyrra svaf ég alltaf með símann inni hjá mér sem ég gerði annars aldrei, var með föt við rúmið mitt og passaði alltaf upp á að það væri nóg bensín á bílnum. Ég er ekki farin að gera þetta aftur en ég mun alltaf passa upp á að það sé nóg bensín á bílnum þannig að ég geti komist í burtu en öðru er ég tiltölulega róleg yfir; ef ég kæmist með fjölskylduna mína þá væri mér nokkuð sama um restina.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -