„Þar var kona sem var algjörlega með þetta á hreinu, kenndi krökkunum sem voru með henni í lærihóp og bara með „kveikt á perunni”. Svo kom að prófinu eftir að hafa verið í þessum áfanga í nokkrar vikur og konan féll. Hún hafði verið heima með veik börn og var sjálf veik í prófinu. Í staðinn fyrir að kennarinn segði henni að þreyta prófið aftur, þar sem manneskjan var nú með háar einkunnir í öllum verkefnunum, þá benti hann henni á að hætta í náminu, hún væri ekki gerð fyrir þetta nám og ætti ekki að hlaða upp námslánum ef þetta byrjaði svona. Konan hætti…“
Þetta skrifar Rakel Björt nokkur í pistli sem birtist á vefnum Medium. Fyrirsögn pistilsins er „Nei, ég gefst ekki fokking upp”. Þar lýsir hún því mikla mótlæti sem konur þurfa enn að þola á Íslandi innan tölvubransans. Rakel Björt útskrifuð úr tölvunarfræði og með góða vinnu í þeim geira í dag. Leiðin þangað hefur þó hvergi nærri verið áfallalaus. Pistil hennar má lesa í heild sinni hér en hún segir markmið pistilsins að hvetja aðra til að gefast ekki upp.
Ráðlagt að fara í snyrtifræði
Rakel byrjar á því að fara yfir hvernig henni var ávallt ráðlagt gegn því að fara í krefandi nám. „Þegar tíminn kom að velja sér menntaskóla og hvaða braut, þá var mér sterklega ráðlagt að velja auðvelda braut þar sem ég ætti erfitt með nám, þrátt fyrir mikla þrautseigju og dugnað. Ég hélt nú ekki, ég hef alltaf haft svo óbilandi trú á mér að komast í gegnum það erfiða að það var enginn að fara að segja mér að fara auðveldu leiðina. Ég valdi náttúrufræðibraut. Ég gerði í því þegar kom að valáföngum að velja mér efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði, enda gekk mér best þar,“ skrifar Rakel og heldur áfram:
„Nú var komið að því að velja framhaldsnám og var mér þá ráðlagt aftur að fara auðveldu leiðina — að fara í snyrtifræði. Það mætti ætla að þetta hafi verið öfug sálfræði en svo var ekki. Fólkið sem var í kringum mig hafði bara ekki meiri trú á mér en þetta og vildi ekki sjá mig ströggla. Ég ákvað að halda áfram á raungreinabrautinni og valdi mér lífeindafræði. Mér gekk vel í því námi en það heillaði mig ekki nóg, bæði það að það voru fáar kennslustundir og efnið höfðaði ekki til mín.“
Verður semí allt í lagi í öllu
Hún ákvað svo að skipta um stefnu og lagði sig alla fram við að læra ljósmyndun. „Þegar ég var að ljúka náminu var haldin lokasýning. Blóð, sviti og tár fóru í þessa sýningu, nokkur break-down og vá hvað ég var glöð með útkomuna. Mér fannst ég finna svo sterklega fyrir því hversu langt ég hefði náð, bæði í ljósmyndun og var á góðum stað í lífinu. Þarna vorum við nemendurnir, kvöldinu fyrir opnun að setja upp myndirnar okkar og dást að útkomunni þegar kennari kemur til mín, horfir á myndirnar mínar og segir:
„Rakel… þú ert svona manneskja sem verður semí allt í lagi í öllu, en aldrei ótrúlega góð í einhverju einu.”
Þetta sló mig algjörlega útaf laginu og ég varð ofboðslega reið að kennarinn leyfði sér að tala svona við nemanda sinn,“ lýsir Rakel.
„Jæja, ætli það ekki“
Eftir þetta ákvað Rakel að sækja um nám í tölvunarfræði. „Því miður var ég einum degi of sein að sækja um námið og mér sagt að ég mætti hafa aftur samband þegar skólinn væri að hefjast. Þegar það voru nokkrir dagar í að skólinn myndi byrja og enginn hafði svarað tölvupóstunum mínum þá dreif ég mig niðrí háskóla. Þar var ég beðin um að útskýra af hverju ég ætti að fá að fara inn í þetta nám. Ha? Þurfa allir að útskýra af hverju þeir vilja fara í nám í háskólanum? Eftir á að hyggja þá hefði ég átt að taka allt annan pól í þetta en ég gerði, en ég útskýrði hvað ég væri hörkudugleg og þrátt fyrir að hafa ekki verið að stunda háskólanám síðan ég var í lífeindafræðinni hefði ég stofnað gallerý og stúdíó sem væri enn starfrækt. Eftir munnræpuna sagði konan sem tók á móti mér „Jæja, ætli það ekki“,“ segir Rakel.
Í þessu námi varð hún vitni af atvikinu sem fyrr var lýst þar sem móður var nánast bolað úr námi. „Námið var erfitt, mér fannst ekki nógu mikið forritað og námið of fræðilegt. En á þessum árum missti ég húsnæðið mitt í tvígang. Ég hélt vinnunni minni og vann fyrir og eftir skóla, gisti á sófum hjá vinum, bjó svo í litlu herbergi hjá konu sem svo síðar henti mér út daginn fyrir lokaprófin á fyrsta árinu. En ekki leið á löngu að ég komst inn í 20 fermetra innréttaðan bílskúr. Loks komst ég inn á stúdentagarðana og gat sinnt náminu mínu eftir bestu getu,“ segir Rakel.
Ekki hlustað því hún var kvenmaður
Eftir að hún útskrifaðist fékk Rakel vinnu hjá Advania. Þar varð hún fyrir því að talað var niður til hennar eða gert lítið úr henni. Sjaldnast var það þó samstarfsfólki hennar að kenna. „Útskrift átti sér stað, ég fékk vinnu hjá Advania þar sem mér var sagt í atvinnuviðtalinu að fyrst ég væri að koma frá HÍ gerðu þau sér grein fyrir því að forritunarreynslan væri minni. Það róaði mig fyrst um sinn en ég fékk slæma tilfinningu eins og námið mitt hefði verið einskis virði. Þarna vann ég í allskonar verkefnum með yndislegu samstarfsfólki sem kenndi mér allt sem ég vildi læra,“ lýsir Rakel.
Það var þegar hún var send út sem verktaki sem hún varð fyrir mismunun. „Ekki leið á löngu þar til ég var send út sem verktaki til annarra fyrirtækja og þurfti því að sjá um kúnnasambönd ein og setja upp heilu vefina, verandi eini forritarinn í hópnum. Ég lærði mikið bæði forritunarlega séð og í lífinu. Svo lenti ég hjá fyrirtæki sem var að koma út nýjum vef sem varð til þess að ég hætti og langaði að hætta í forritun. Framkoma fólks á vinnustaðnum var furðuleg. Það var ekki hlustað á mig þegar ég var að tímameta vinnuna mína og það var alls ekki hlustað á mig á mikilvægum fundum. Mér leið ekki vel og ekki fékk ég að fara úr þessu verkefni. Til að toppa allt var mér heldur ekki boðið á félagslega viðburði eins og drykki og spjall eftir vinnu, þó svo öðrum utanaðkomandi verktökum væri það,“ lýsir hún.
Síðar kom í ljós að þetta var vegna kyns hennar. „Ég ákvað því að segja upp og koma mér úr þessum aðstæðum. Á meðan uppsagnarfresturinn var að líða þá var annar forritari frá Advania sendur inn í verkefnið til að leysa mig af og honum blöskraði framkoman við mig. Þá fyrst uppgötvaði ég að það var verið að koma fram við mig eins og kvenmann í forritun. Það var ekki hlustað á mig því ég var kvenmaður.“
Brotnaði niður á hverjum degi
Eftir þetta fékk hún starf hjá Kolibri. „Mér var boðið starf og ég var í sjöunda himni. Ég byrjaði sem eini forritarinn í teymi en hafði samt aðgang að öðrum til að leita til. Í stuttu máli var ég í bullinu. Allt sem ég reyndi og gerði var bara skelfilegt og mér fannst ég ekki hafa auga fyrir animation eða hvað væri flott á vef. Eftir að hafa verið nokkrar vikur í vinnunni var ég pöruð með nýjum senior framendaforritara í mjög erfiðu og krefjandi vefverkefni. Þarna var ég viss um að það myndi komast upp um mig og ég kveið því verulega. Þessi nýji forritari byrjaði ekki á að setja upp tölvuna sína og koma sér fyrir heldur byrjaði hann á að para með mér, horfði á React kóðann minn, kímdi og sagði: „Ég skil, þú kannt ekki React”. Ég sökk inn í mig,“ skrifar Rakel.
Hún segist hafa brotnað niður á hverjum degi eftir vinnu. „Næstu vikur voru þær erfiðustu í mínum ferli. Á hverjum degi var parað og á hverjum degi brotnaði ég niður eftir vinnu. Ég fann samt fyrir framförum hjá mér en öll kóðarýni frá honum endaði á því að ég þurfti að endurskrifa meirihlutann af kóðanum. Hann kom alltaf hreinn og beinn að borðinu og útskýrði alltaf fyrir mér af hverju ég þyrfti að laga kóðann og hvernig mætti gera hann enn betri. Svo kom að fyrsta rýnisfundinum og ég stressaðist upp og þornaði upp í munninum og gat varla talað. Það var eins og ég væri ekkert undirbúin. Ég gat komið frá mér hverju ég væri búin að vinna í en gat ekki gefið meira af mér. Þegar við vorum í lyftunni á leiðinni af fundinum segir hann við mig glottandi: „Þú veist þú þarft að undirbúa þig fyrir svona fundi”. Ég var svo andlega búin á þessum tíma.
Þakklát í dag
Hún segist þó þakklát þessum samstarfsmanni. „Þegar ég var búin að vera í 3 mánuði fékk ég stöðuviðtal og þá átti að fara yfir hvernig ég væri búin að standa mig. Það rigndi yfir mig hrósi og ég var svo hissa því ég hélt að þetta væri búið spil. Þá fékk ég að heyra af framförum mínum, hvað ég væri jákvæð gagnvart gagnrýni, hvað það væri frábært hvað ég væri að leggja mig fram, sýndi þrautseigju og væri góður teymismeðlimur. Svo kom: „Þú þarft kannski aðeins að undirbúa þig betur fyrir rýnisfundina, en það er eina athugasemdin sem mér hefur borist um þig sem var ekki jákvæð”. Þetta var allt þess virði. Ég var með þessum forritara í ár og aldrei fór kóðinn minn hiklaust í gegn, það var alltaf gagnrýnt. Þá meina ég rýnt til gagns.“
Hún segist að lokum þakklát fyrir núverandi vinnustað sem hafi eflt sjálfstraust hennar. „Ég er enn að ströggla með hvernig ég ber í mig að í verkefnum og finnst eins og ég megi ekki láta persónuleikann minn skína því þá sé ég ekki tekin alvarlega. Að ég megi ekki gantast og vera ég 100%. Þetta er klárlega eitthvað sem ég þarf að vinna mig í gegnum og hafa meiri trú á því hvað ég er búin að stíga hratt upp forritunarstigann á stuttum tíma. Kolibri er nú þannig vinnustaður að við erum hvött til þess að mæta við sjálf í vinnuna og það sé ekkert í okkar lífi eða persónuleika sem á ekki heima á vinnustaðnum eða í okkar vinnu. Ég hef sterkari rödd núna og miklu sterkara sjálfstraust.“