Lögregla rannsakar hnífstunguárás sem átti sér stað í almenningsgarði í Reading á Englandi í gærkvöldi sem hryðjuverk. Þrír létust í árásinni. Þrír til viðbótar særðust alvarlega í árásinni sem átti sér stað um klukkan 19:00 að staðartíma.
Árásarmaðurinn er 25 ára karlmaður, talinn vera frá Líbýu samkvæmt heimildum BBC.
Lögreglan í Thames Valley sagði í yfirlýsingu fyrr í dag að árásin væri rannsökuð sem hryðjuverk. Yfirlögreglumaðurinn John Campbell sagði árásir af þessu tagi vera afar sjaldgæfar.
Í frétt BBC segir að Priti Patel innanríkisráðherra Bretlands og Boris Johnson forsætisráðherra muni eiga fundi með lögregluyfirvöldum í dag vegna málsins.