Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Rannveig Erlingsdóttir: Moli hefur jákvæð áhrif á fólk með heilabilun

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er eitthvað við þessa tengingu við hundinn sem veitir öryggi, ró og vellíðan. Þetta er eitthvað sem gleður og gleðin gerir öllum gott,“ segir Rannveig Erlingsdóttir sjúkraliði. Hún vinnur í Maríuhúsi sem er dagdeild fyrir fólk með heilabilun. Þangað kemur fólk í dagvist og er hún með svissneska Schäfer-hundinn sinn Mola með sér í vinnuna til að skjólstæðingarnir geti talað við hann, klappað honum og notið samvista við hann.

Rannveig Erlingsdóttir

Moli fylgir þeim og leggst við fætur þeirra eða heldur sig nálægt þeim

Skjólstæðingarnir vinna að ýmsum verkefnum yfir daginn svo sem að teikna, mála, púsla og Moli fylgir þeim og leggst við fætur þeirra eða heldur sig nálægt þeim. „Það er bara þessi nærvera; hún er oft alveg nóg. Það er eitthvað sem bæði dýr og einnig börn hafa með sinni himnesku ró og sinni gæsku; þótt fólk sé með heilabilun þá er skynjunin sú sama: Dýrin eru góð og litlu börnin eru góð og fólki líður vel innan um þau. Þetta gleður. Ef einhverjum líður illa þennan daginn þá getur það breytt miklu að setjast niður hjá hundinum og tala við hann eða segja ekki neitt; bara klappa honum og fylgjast með honum.“

 

Rannveig Erlingsdóttir

Rannveig segir að þessi Schäfer-tegund hafi reynst mjög vel og séu hundarnir fjölskylduvænir. „Moli er bara svo ósköp rólegur og þægilegur í umgengni. Hann hefur alltaf verið rólegur. Þegar ég fór að vinna á heimilinu frétti ég að fyrrverandi starfsmaður hafi mætt með hundinn sinn í vinnuna og var mælt með að ég myndi mæta með Mola í vinnuna. Ég hugsaði auðvitað með mér hvað fólki fyndist um þetta og sérstaklega fólk sem er ekki vant að vera með hunda inni á heimilum, eða svona stóra hunda, og hvernig því myndi lítast á hann.“ Rannveig velti þessu fyrir sér í þó nokkurn tíma og ákvað svo að mæta með Mola í vinnuna og segir hún að þetta hafi gengið upp frá fyrsta degi. „Það hefur aldrei verið neitt vandamál.“

- Auglýsing -

Rannveig Erlingsdóttir

 

Vellíðanin

- Auglýsing -

Rannveig segir að núverandi starf sé ein mest gefandi vinna sem hún hefur verið í. „Það er mjög gefandi fyrir mig sjálfa að geta farið í vinnuna með hundinn sem ég treysti og sem mér þykir ofboðslega vænt um og sjá að hann gefur mikið af sér og er hjálpartæki. Maður getur talað endalaust um dýr og maður er alltaf að finna einhverjar aðferðir til að fólki líði vel, að það hafi gaman af því að vera hjá okkur og að það sé að fá það sem það á að fá út úr deginum sem á að vera dægrastytting, örvun, viðhalda færni og vellíðan. Þó svo að vellíðanin standi yfir í stutta stund og viðkomandi fer síðan heim og man kannski ekkert eftir því að hafa hitt mig eða hundinn þá er það enn þá með vellíðunartilfinninguna þó að minningin sé farin.

Rannveig Erlingsdóttir

Að koma með ferfætling með sér sem þarf ekki að gera neitt annað en að vera bara sætur og láta klappa sér.

Við tengjumst fólkinu okkar sem við vinnum með og finnum til með því ef því líður illa; það er hrætt, lítið í sér og óöruggt af því að það finnur færnina dvína þó það geti jafnvel ekki komið því í orð. Það er þessi blessaði ótti sem er verstur og þess vegna kemur stundum reiðin fram. Við verðum stundum öll reið ef við erum óörugg. Þá er það mjög jákvætt að geta aukið á það sem maður er að gefa af sér með því að koma með ferfætling með sér sem þarf ekki að gera neitt annað en að vera bara sætur og láta klappa sér.“

Rannveig Erlingsdóttir

Tala við Mola

Ferfætti hnoðrinn er vinsæll á heimilinu og leggst hann oft við fætur skjólstæðinganna.

„Fólkið man ekki endilega eftir Mola dag frá degi en þeir sem kannast við hann í þessu umhverfi eru farnir að þekkja hann og vita að hann er góður. Fólk með heilabilun hættir stundum að tjá sig að fyrra bragði, og geta ástæður verið margvíslegar, en það er öðruvísi að setjast til dæmis hjá hundinum og getur orðið til þess að þau tjá sig við hann. Þá er það komið með smátengingu; öðruvísi tengingu en við okkur sem vinnum þarna.“

Það er líka gott að gefa fólkinu smáhlutverk

Rannveig segir að Moli hafi verið þjálfaður í að ganga án þess að vera með ól þannig að hann myndi aldrei strjúka. „Það skiptir engu máli hvar hann er; hann fer ekki frá okkur. Það er líka gott að gefa fólkinu smáhlutverk: Að hleypa honum út fyrir og jafnvel fara með hann í göngutúr. Það er alltaf þessi tenging sem dýrin gefa og maður sér hvað það gleður fólkið þegar hann labbar út að bílunum þegar það er að koma inn á morgnana, sum þeirra tala við hann og klappa honum, spyrja til dæmis hvort það sé ekki ég sem eigi hann, hvað hann heiti og hvað hann sé gamall. Það halda margir að hann sé eldri en hann er af því að hann er svo rólegur; hann hefur, blessaði karlinn, þetta virðulega, rólega fas en er samt þetta ungur enn þá,“ segir Rannveig en Moli er fjögurra og hálfs árs.

Rannveig Erlingsdóttir

Moli étur ekki hvað sem er en hann er með fæðuofnæmi. Rannveig segir að Schäfer-hundar séu gjarnan viðkvæmir í meltingarfærum og var tekið blóð úr Mola þegar hann var hvolpur og það sent í rannsókn til Bandaríkjanna svo Rannveig og eiginmaður hennar vissu fyrir víst hvað hann mætti ekki borða. Og það er passað upp á að Moli sé ekki í matsalnum í Maríuhúsi á matmálstímum.

„Hann veit þegar matarbjallan hringir að hann á að fara inn í bílskúr sem gengið er í inn af eldhúsinu. Þar getur hann lagt sig og þar hefur hann sinn matar- og vatnsdall. Að matartíma loknum fylgir hann fólkinu niður í aðalsetustofu, fer í bælið sitt undir stiganum og leggur sig þar.“

Rannveig Erlingsdóttir

Moli og Monza

Rannveig er frá Vopnafirði og bjó í sveit þar og hefur átt og umgengist fjölda dýra í gegnum tíðina og það sama er að segja um eiginmanninn, Þóri, sem er úr borginni en var mikið í sveit sem barn. Þau rugluðu saman reitum fyrir 14 árum síðan og áttu fyrir börn úr fyrri samböndum. Eiginmaður hennar hafði á sínum tíma átt belgískan Schäfer-hund þegar hann bjó erlendis. Það var svo fyrir jólin fyrir nokkrum árum sem hún ákvað að gefa eiginmanninum hvolp í jólagjöf. Svissneskan Schäfer. Í jólapakkanum var mynd af hvolpi úr sama goti þar sem hvolparnir voru ekki orðnir nógu gamlir til að fara frá móður sinni og stuttu síðar fóru hjónin að skoða hvolpana til að velja. Rannveig segir að eiginmaður sinn og Moli hafi reyndar valið hvorn annan.

Ef ég hefði ekki haft hundinn þá held ég að andlega hliðin hefði ekkert verið rosalega brött.

Þórir fór í mjaðmaliðsaðgerð stuttu eftir að Moli kom inn í líf þeirra og hafði hann félagsskap af hvolpinum þar sem hann var mikið heima næstu mánuði. „Ég þurfti síðan sjálf að fara í veikindaleyfi fyrir rúmu ári og vera heima í þó nokkuð langan tíma,“ segir Rannveig en hún er að bíða eftir að fara í liðskipti á hné, „og ef ég hefði ekki haft hundinn þá held ég að andlega hliðin hefði ekkert verið rosalega brött. Þótt það sé engin önnur mannvera heima þá er samveran og félagsskapurinn með dýrunum svo gefandi.“

Rannveig Erlingsdóttir

Meira á eftir um hitt dýrið á heimilinu; læðuna Monzu.

Rannveig segir að Moli gefi sér ótrúlega mikla gleði. „Það veitir mér gleði að eiga svona góðan, fallegan hund og hana Monzu okkar; að hafa tækifæri til að hugsa vel um gæludýrin og geta gefið þeim allt sem maður vill gefa þeim: Gott að borða, nægan tíma og sjá að þeim líður vel. Dýrin eru eins og börnin okkar. Við hlúum að þeim, tölum við þau og kyssum þau góða nótt. Moli sefur í bæli við hliðina á rúminu okkar því honum og okkur finnst nálægðin notaleg. Þetta er eitthvað sem eykur gleðiefni í heilanum og allt sem gerir það gerir manni gott.“

Gulur bolti er uppáhaldsleikfang Mola. „Það er ekkert annað sem kemst að en gulu boltarnir. Þeim er skipt reglulega út þegar þeir eru orðnir eins og druslur. Það er hægt að elta boltana endalaust.“

Þótt þau leiki sér ekki saman þá bera þau umhyggju fyrir hvort öðru.

Aftur að kettinum. Læðunni.

„Monza er átta ára skógarköttur sem kom til okkar þegar hún var tveggja ára. Moli ber virðingu fyrir henni. Ef hún liggur einhvers staðar og hann ætlar að leggjast nálægt henni þá veit hann að það á að vera visst pláss á milli. Hún sýnir það með því að hreyfa skottið ef hann liggur of nálægt. Þá stendur hann upp og færir sig. Þótt þau leiki sér ekki saman þá bera þau umhyggju fyrir hvort öðru. Það kom einhvern tímann fyrir að ég sneri mér snöggt við og steig ofan á loppu á Mola og hann náttúrlega bara hljóðaði greyið og ég klappaði honum og bað hann afsökunar. Kötturinn kom um leið til að athuga hvað hafði gerst. Hún þefaði af trýninu á honum sem er þeirra á milli „það er allt í lagi“ og svo fór hún. Það var ekkert meira en það. Þau hafa félagsskapinn og nálægðina við hvort annað þó þau séu ekki leikfélagar.“

Rannveig Erlingsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -