Dómstóll í Stokkhólmi hefur fundið bandaríska rapparann A$AP sekan um líkamsárás. Hann sleppur þó við að dúsa í steininum.
Mál rapparans vakti heimsathygli, ekki síst fyrir þær sakir að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, beitti sér mjög í málinu og hringdi í forsætisráðherra Svíþjóðar til að þrýsta á um að A$AP yrði látinn laus úr gæsluvarðhaldi. Ráðherrann, Stefan Löfven, vildi ekki verða við þeirri beiðni enda slík afskipti af dómskerfinu í hæsta máta óeðlileg.
A$AP og tveir aðrir úr fylgdarliði hans sættu ákæru fyrir að hafa gengið í skrokk á karlmanni eftir tónleika í Stokkhólmi þann 30. júní. Atvikið náðist á myndband en þar sást einnig að sá sem fyrir árásinni varð hafði ögrað tónlistarmanninum áður. Dómstóllinn féllst þó ekki á röksemdafærslu þremenningana um að um sjálfsvörn hafi verið að ræða, enda barsmíðarnar sem þeir beittu langt umfram það sem eðlilegt getur talist.
Dómarinn dæmdi A$AP, sem heitir réttu nafni Rakim Mayers, í tveggja ára fangelsi og er dómurinn að fullu skilorðsbundinn. Þeir þurfa einnig að greiða þolanda árásarinnar miskabætur og punga út fyrir málskostnaði. A$AP var látinn laus úr gæsluvarðhaldi 2. ágúst og fór hann rakleiðis úr landi.