Albaninn Angjelin Sterkaj, sem skaut samlanda sinn, Armando Bequirai, til bana þann 13. febrúar síðastliðinn við Rauðagerði í Reykjavík, kom fyrst hingað til lands árið 2014.
Við komu sína til landsins sótti Angjelin um alþjóðlega vernd, en beiðni hans var hafnað af Útlendingastofnun.
Þá sótti hann um atvinnu- og dvalarleyfi, en framvísaði í umsókninni fölsuðu sakavottorði, samkvæmt heimildum DV. En Angjelin er ákærður fyrir vopnað rán í Albaníu.
Málið var tilkynnt til lögreglu, en ekkert var aðhafst í málinu þar sem skjalafals er brotaflokkur sem talinn er minniháttar og sætir því ekki forgangi lögreglu.
Sjá einnig: Þetta er maðurinn sem hefur játað á sig morðið í Rauðagerði
Umsókn Angjelin lá lengi óafgreidd, en af óútskýrðum ástæðum var umsókn hans um atvinnu- og dvalarleyfi skyndilega samþykkt.
Albönsk yfirvöld óskuðu eftir því að Angjelin yrði framseldur til Albaníu árið 2017, en þeirri beiðni höfnuðu íslensk yfirvöld vegna þess að ekki er í gildi framsalssamningur milli þjóðanna.
Í lok síðasta sumars sagði Mannlíf frá grófum hópslagsmálum sem áttu sér stað í miðborg Reykjavíkur, þar sem maður endaði á sjúkrahúsi eftir að hnífur rauf slagæð í handlegg hans. Fórnarlambið sagðist hafa verið að varnast því að hnífurinn færi í höfuð sitt, með fyrrgreindum afleiðingum.
Angjelin Sterkaj var einn af þátttakendum slagsmálanna og svaraði hann fyrir þau í fjölmiðlum.
En hví Angjelin Sterkaj fékk landvistarleyfi er enn á huldu.
Getgátur eru um að sex ára gamall sonur hans, sem Angjelin á með íslenskri konu, gæti verið ástæða þess en í 3. mgr. 102. gr. laganna segir: „Brottvísun skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.“