Mikill erill var hjá lögreglunni í nótt en í allt sinnti hún einum 109 málum, frá því klukkan 17 um eftirmiðdegi til klukkan 5 í morgun.
Alls eru það sjö aðilar sem nú eru vistaðir í fangaklefa eftir næturbröltið.
Útkall barst í gærkvöld vegna líkamsárásar á veitingahúsi gegn fjórum mönnum; meintir gerendur voru farnir af vettvangi er lögreglu bar að garði.
Einn aðili er vistaður í fangageymslu í Kópavogi; vegna gruns um líkamsárás gegn öðrum aðila í nótt.
Þónokkur mál komu upp vegna ölvunar fólks; miðsvæðis og víðar; og nokkrir aðilar voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Einn aðili var tekinn höndum vegna óspekta á almannafæri í miðbænum. Við leitina á aðilanum fundust fíkniefni á honum; var hann vistaður í fangaklefa þar til hann yrði viðræðuhæfur.
Ölvaður ökumaður olli tjóni á umferðarmannvirki í Vesturbænum og var hann fluttur á lögreglustöð og þar dregið úr honum blóð og í kjölfarið vistaður í fangaklefa.