Fimmtudagur 23. janúar, 2025
-0.9 C
Reykjavik

Refurinn Ottó slapp úr loðdýrabúi: „Hann er ljúfur, forvitinn og félagslyndur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkrir meðlimir úr Samtökum grænkera á Íslandi eru um þessar mundir staddir í Finnlandi. Valgerður Árnadóttir, varaformaður samtakanna, er ein þeirra. Í heimsókn sinni til Finnlands heimsótti hópurinn dýraathvarfið Eläinsuojelukeskus Tuulispää og þar kynntust þau refnum Ottó.

 

„Samtök grænkera á Íslandi, í Finnlandi og Eistlandi fengu samstarfsstyrk frá Norrænu ráðherranefndinni og við erum núna í Finnlandi að kynna okkur starfssemi samtakanna hér og á leið til Eistlands í sama tilgangi á morgun,“ segir Valgerður.

Spurð út í dýraathvarfið sem hópurinn heimsótti í gær segir Valgerður: „Eläinsuojelukeskus Tuulispää dýraathvarfið er það þekktasta og stærsta í Finnlandi og hýsir um 70 dýr, aðallega húsdýr en einnig refi og minnka sem sloppið hafa frá loðdýrabúum.“

Hún segir refinn Ottó hafa hitt hana í hjartastað. „Ottó er silfurrefur eða svokallaður Blue fox og fannst árið 2015 í nágrenni við loðdýrabú hér í Finnlandi. Það er augljóst að hann hefur sloppið frá loðdýrabúi vegna þess að refir eins og hann finnast ekki villtir í náttúrunni. Þessa tegund er bæði búið að rækta þannig þeir hafa óeðlilega mikinn feld miðað við stærð og fætur þeirra verða vanskapaðir eftir að hafa alist upp í stálgrindarbúri,“ útskýrir Valgerður.

„Nýlega þurfti að svæfa félaga hans sem einnig bjó í athvarfinu vegna þess að fætur hans gáfu sig enda veikburða eftir vistina í búrinu, fæturnir þoldu ekki þunga búksins. Ottó er því eini refurinn í athvarfinu eins og er. En hann er ljúfur, forvitinn og félagslyndur, leikur sér við fólk og eltir það þó hann vilji ekki mikið klapp.“

Ottó fannst árið 2015 í nágrenni við loðdýrabú í Finnlandi. Hann býr núna í dýra athvarfinu Eläinsuojelukeskus Tuulispää.

Ef Ottó hefði ekki sloppið úr loðdýrabúinu á sínum tíma væri feldur hans ef til vill orðinn að loðskrauti á úlpuhettu í dag.

- Auglýsing -

„Ég held að fólk sé almennt aftengt við vörur sem það kaupir í verslunum, hvort sem það er í kjötborðinu eða í fataversluninni. Það hugsar ekki út í það að loðkraginn á úlpunni eða pelsinn var eitt sinn lifandi dýr með vitund og þarfir á við hunda og ketti. Fólki býður við hundaáti og reiðist þegar það heyrir af illri meðferð gæludýra en tengir ekki sömu tilfinningar við litlu bræður hundanna sem enn eru fastir í litlum stálbúrum um allan heim. Ég trúi ekki að fólk sé í eðli sínu vont og að því sé sama, ég held að það sé í alvöru ekki að tengja. Enda er þetta nákvæmlega það viðhorf sem bransinn berst við að viðhalda.“

„Það hugsar ekki út í það að loðkraginn á úlpunni eða pelsinn var eitt sinn lifandi dýr með vitund og þarfir á við hunda og ketti.“

Valgerður tekur þó fram að mörg stærstu og vinsælustu tískuhús heims hafa sagt skilið við loðfeldinn og veiti vonandi hönnuðum og fyrirtækjum víða um heim innblástur til að gera slíkt hið sama.

Ottó er ræktaður þannig að hann hefur óeðlilega mikinn feld.

„Notkun loðfelda er sem betur fer á undanhaldi hjá stærstu tískuhúsum heims, Armani, Gucci, Michael Kors, Hugo Boss og fleiri hafa gefið út að þau muni aldrei aftur nota ekta loðfeld. Sama á við um flest útivistarmerki, sem dæmi má nefna Patagonia, North Face og Fjällräven. Þess vegna skýtur það skökku við að íslenskir fataframleiðendur á borð við 66°Norður og Cintamani séu enn að nota loðfeldi. Það er bara alls ekki í tísku heldur einhver furðuleg gamaldags stefna eigenda þessarra fyrirtækja,“ segir Valgerður sem þekkir bransann vel en hún vann hjá 66°Norður sem innkaupastjóri.

- Auglýsing -

„Þá sá um að versla hráefni í framleiðsluna. Ég veit fyrir víst að gerviloðið seldist jafn vel ef ekki betur en dýraloðkragar og að hönnunardeild fyrirtækisins vildi ásamt fleirum innan fyrirtækisins stefna í þá átt að hætta að nota loðfeldi. Þrátt fyrir þetta ákvað stjórn fyrirtækisins að bæta í loðfeldanotkun frekar en að draga úr henni á þeim forsendum að það vildi vera þekkt „lúxus” vörumerki.“

Valgerði þykir þetta sorgleg staðreynd. „Þetta er sorglegt þar sem 66°Norður er að gera góða hluti á mörgum sviðum, kaupir umhverfisvottuð gæðaefni og fleira. Ég er viss um að túristarnir kaupi ekki minna af hinum útivistarmerkjunum sem ég nefndi. Þetta er spurning um að fyrirtæki sýni ábyrgð og hafi einhverjar siðferðislegar viðmiðunarreglur.“

Valgerður tekur fram að hún hafi hingað til hikað við að tjá sig um loðfeldinn sem 66°Norður notar mikið. „Mér þykir vænt um fyrrum samstarfsfélaga mína og veit að þau eru mörg hver ósammála þessari stefnu rétt eins og ég. En þegar ég hitti Ottó þá brast stíflan, ég hugsaði bara: ef ég segi ekki frá honum, frá örlögum milljóna bræðra hans og systra um allan heim sem ekki sluppu úr klóm loðdýrabænda, hver gerir það þá?“

Að lokum bendir Valgerður áhugasömum á skýrslu frá samtökunum Animalia og Noah þar sem svokölluð „velferðarbú“ eru afhjúpuð.

„Finnland er afkastamest í loðfeldaframleiðslu í Evrópu og notar það í markaðssetningu að vera með einhverskonar dýravelferðarvottanir á borð við þær sem fyrirtækið Saga furs nota. 66°Norður versla einmitt við Saga furs. Það er þó löngu búið að afhjúpa þessi svokölluðu „velferðarbú“ Saga furs. Í skýrslunni má meðal annars sjá myndir sem sýna að alls ekki er verið að huga að velferð dýranna heldur er þetta vel markaðssett lygi til að sannfæra kaupendur um að dýrin í loðdýraiðnaðinum á Norðurlöndum hafi það betra en dýr í iðnaðinum annars staðar í heiminum.“

Umrædda skýrslu má sjá hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -