Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Regína Ásvaldsdóttir, nýráðinn bæjarstjóri í Mosfellsbæ: Vil frekar horfa fram á veginn en til baka

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég mun leggja áherslu á að vinna vel með nýkjörnum bæjarfulltrúum og því góða starfsfólki sem vinnur í Mosfellsbæ. Þjónusta við bæjarbúa er mikilvægasta verkefnið að mínu mati, samskipti og ekki síst samráð við hagsmunaaðila í einstaka málaflokkum. Mosfellsbær hefur orð á sér fyrir að vera mjög fjölskylduvænn bær og það er mikilvægt að þær áherslur haldi sér. Það geta komið miklir vaxtarverkir samfara stækkun bæjarins og er að mörgu að huga í því sambandi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir sem hefur verið ráðin bæjarstjóri Mosfellsbæjar og er áætlað að hún taki við í byrjun september.

Regína var um árabil bæjarstjóri Akraneskaupstaðar en hefur undanfarin ár verið sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Regína Ásvaldsdóttir
Mynd frá bæjarstjóratímanum á Akranesi. Með Höllu Bergþóru Björnsdóttur, þáverandi sýslumanni og núverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, við vígslu á Akratorgi 17. júní 2014.

„Eitt af stærri verkefnunum mínum á Akranesi tengdist sementsreitnum en það þurfti að semja um eignarhald á reitnum við bæði banka og fyrirtæki til að hefja skipulagsvinnu og niðurrif á mannvirkjum. Önnur verkefni tengdust stefnumótun í atvinnumálum, uppbyggingu gamla miðbæjarins, skipulag á Breiðinni, sem er vitasvæði á Akranesi, og einnig Guðlaugu sem er heit laug á Langasandi og mjög vinsæl. Ég var svo heppin að starfa með flottum einstaklingum í bæjarstjórn og það var yfirleitt gott samstarf á milli meiri- og minnihluta sem skiptir miklu máli.

Covid hafði mikil áhrif á velferðarsvið.

Á velferðarsviði hefur verið mikil uppbygging á síðustu árum, meðal annars í búsetu fyrir fatlað fólk og einnig fyrir heimilislaust fólk. Ég tók þátt í mjög öflugri stefnumótun á sviði þjónustumála en sviðið er á fleygiferð inn í nútímann með stafrænni umbreytingu og hefur verið í forystu þar um hjá borginni. Covid hafði mikil áhrif á velferðarsvið en við erum að reka um 116 starfseiningar og þar af eru um 70 sólarhringsstofnanir sem þurftu að vera starfandi allan tímann þrátt fyrir veikindi starfsmanna. Það tókst að sinna íbúum og verja þá að miklu leyti fyrir smitum vegna útsjónarsemi og metnaði hjá stjórnendum og starfsmönnum sviðsins sem lögðu ómælda vinnu á sig til að allt gengi upp. Mér finnst ég aldrei geta fullþakkað þessum hvunndagshetjum nógsamlega fyrir þrekvirkið. Ég þrífst í krefjandi og skemmtilegum verkefnum og ég vil frekar horfa fram á veginn en til baka.“

Regína Ásvaldsdóttir
Frá undirritun samnings um geðheilsuteymi í Reykjavík með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi heilbrigðisráðherra, og Óskari Reykdalssyni.

 

Mikilvægt að grípa strax inn í

- Auglýsing -

Regína er gift Birgi Pálssyni, tölvunarfræðingi og deildarstjóra hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Ég á tvær dætur af fyrra hjónabandi, Ernu Maríu og Ýr, og Birgir á eina dóttur, Auði Kolbrá. Við höfum verið gift í 20 ár og elskum að ferðast og spila golf og gera alls konar skemmtilega hluti. Ég fæ líka mikla næringu úr því að ganga á fjöll og var að koma úr frábærri ferð til Cornwall á Suðvestur Englandi með systrum mínum, eldri dóttur minni og systurdætrum í dásamlegu umhverfi og góðu veðri.“

Regína Ásvaldsdóttir
Hjónin Regína og Birgir Pálsson.

Því miður hefur þróunin verið í þessa átt hér á landi.

Regína er spurð um lífsreynslu sem hefur mótað hana. „Það er mjög margt sem mótar mann í gegnum lífsleiðina en ekkert eitt sem stendur upp úr. Ég lærði snemma að vinna og bjarga mér sjálf og er af þessari kynslóð sem setur vinnuna svolítið í forgang í lífinu. Í velferðarmálunum þarftu oft að horfast í augu við einstaklinga sem eru á sínum versta stað í lífinu og þurfa að reiða sig á kerfið. Mér finnst mjög mikilvægt að bregðast ekki því trausti sem og að vera til staðar og aðstoða við að finna lausnir. Ég hef verið í mörgum krefjandi störfum í gegnum tíðina en það er ennþá ekkert sem jafnast á við fyrsta árið mitt sem félagsráðgjafi á barnaverndarskrifstofu Oslóarborgar. Það var mikil neysla á hörðum efnum í gangi á þessum árum og hrikalega erfiðar aðstæður sem sum börn komu úr. Því miður hefur þróunin verið í þessa átt hér á landi og gríðarlega mikilvægt að grípa strax inn í þessi mál og reyna að aðstoða börnin og fjölskyldurnar. Ég hugsa oft um hvað það eru mikil forréttindi að vera heilbrigður og hafa tækifæri til náms og starfa og við sem samfélag megum aldrei gleyma þeim sem þurfa stuðning í sínu daglega lífi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -