Covid-smit á Hlíf á Ísafirði þykir ráðgáta og enn er óljóst hvort aldraður íbúi þar sé smitaður. Konan á níræðisaldri var send í sína þriðju skimun í gær og beðið er niðurstöðunnar. Í fyrstu skimun reyndist konan jákvæð en í þeirri næstu neikvæð. Reiði ríkir meðal íbúa og aðstandanda vegna verulega íþyngjandi hömlum sem settar hafa verið á hina öldruðu íbúa.
„Þetta er hið dularfyllsta mál og ég skil vel óánægju og reiði fólks varðandi þessar íþyngjandi hömlur,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Hann segir hádegisfund framundan þar sem hinar mótsagnakenndu niðurstöður verða ræddar og hvort gerðar verði breytingar á þeim hömlum sem íbúum hafa verið settar.
Síðasliðinn laugardag greindist kona á níræðisaldri með Covid. Líkt og Mannlíf greindi frá voru 19 íbúar Hlífar á Vestfjörðum skipaðir í sóttkví eftir að smitið greindist meðal íbúanna og aðrir íbúar Hlífar beðnir um að fara að öllu með gát. Um er að ræða þjónustuíbúðir fyrir aldraða á Ísafirði. Alls hafa ríflega 130 einstaklingar verið skimaðir vegna Covid-19 á Hlíf til að leita uppruna smitsins, þar á meðal allir gestir fermingarveislu sem konan fór í. Uppruni hins mögulega smits er enn á huldu en vonir standa til að nú í hádeginu liggi staðfesting smitsins fyrir.
Aðspurður segir Gylfi það vissulega vont að geta ekki treyst prófunum betur og þurfa að ráðast strax í íþyngjandi aðgerðir án fullkominnar vissu um smit. „Prófin eru ekki já eða nei próf. Við vitum að fyrsta prófið var jákvætt og nú þurfum við það þriðja til að staðfesta málið.