Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Reikningsdæmi sem gengur ekki upp

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 26. tölublaði Mannlífs

Í vikunni var sagt frá því að FESK, nýstofnað félag svínabænda, eggjabænda og kjúklingabænda, hefði ráðið talsmann og að hlutverk hans væri að stuðla að upplýstri og ábyrgri umræðu um landbúnað á Íslandi. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að í nútímasamfélagi sé „offramboð af upplýsingum og því miður séu upplýsingarnar oft harðsoðnar, stuttar og klipptar úr samhengi“ og að hart sé sótt að íslenskum landbúnaði þessa dagana.

Ég get tekið undir að hart sé sótt að ákveðnum hluta bændastéttarinnar, þá á heimsvísu og ekki að tilefnislausu.

Undanfarin ár og mánuði hefur samfélag grænkera og grænmetisæta stækkað ört og orðið háværara. Með auknu upplýsingaflæði og tilkomu samfélagsmiðla verður auðveldara að taka upplýstar ákvarðanir og einmitt þess vegna hefur margt fólk valið að draga úr kjötáti eða hætta því alveg. Jafnvel hætt að neyta allra dýraafurða.

Ýmsar ástæður geta legið að baki því að einstaklingur velur að hætta kjötáti. Það getur til dæmis verið vegna dýraverndunarsjónarmiða, umhverfissjónarmiða eða af heilsufarslegum ástæðum.

Hvað dýraverndunarsjónarmiðin varðar þá verður sífellt erfiðara fyrir dýravini, vegna þessa aukna upplýsingaflæðis sem talsmaður FESK kýs að kalla „offramboð af upplýsingum“, að loka augunum fyrir þeim viðbjóði sem fer gjarnan fram í kringum verksmiðjuframleitt kjöt. Til að mynda rataði norski þátturinn Brennpunkt nýverið í fréttir á Íslandi þegar grísaiðnaðurinn í Noregi var tekinn fyrir. Þar var ógeðfelld meðferð á svínum í tíu svínabúum í Noregi afhjúpuð.

„Það verður sífellt erfiðara fyrir dýravini, vegna þessa aukna upplýsingaflæðis sem talsmaður FESK kýs að kalla „offramboð af upplýsingum“, að loka augunum fyrir þeim viðbjóði sem fer gjarnan fram í kringum verksmiðjuframleitt kjöt.“

Margir þeirra sem hafa tekið ákvörðum um að draga úr eða hætta kjötneyslu gera það einmitt af þessari ástæðu – vegna þess að reglulega eru sagðar fréttir af þeirri viðbjóðslegu meðferð sem dýr þurfa að sæta áður en þeim er slátrað og þau sett í vakúmpakkningar.

- Auglýsing -

Og þá að umhverfissjónarmiðum. Því meiri áhyggjur sem fólk hefur af hlýnun jarðar þeim mun minna neytir það af rauðu kjöti. Þetta eru niðurstöður umhverfiskönnunar MMR sem gerð var í maí. Þær niðurstöður þurfa ekki að koma á óvart í ljósi þess að margir sérfræðingar á sviði loftslagsmála hafa undanfarið minnt fólk á að eitt mesta framlag sem einstaklingur getur lagt til loftslagsmála sé að hætta kjötáti.

Margir neytendur hafa þess vegna tekið ákvörðun um að styðja ekki iðnað sem hefur skaðleg áhrif á umhverfið og kjósa frekar umhverfisvænna mataræði.

Ýmis verkefni, rannsóknir og mælingar sem varpa ljósi á skaðleg áhrif kjötframleiðslu á umhverfið hafa upp á síðkastið vakið athygli fólks.

- Auglýsing -

Sem dæmi má nefna að það vakti eftirtekt þegar verkfræðistofan Efla hóf fyrr á þessu ári að mæla kolefnisspor þess matar sem boðið er upp á í mötuneyti Eflu. Verkefnið varpaði ljósi á hversu miklu umhverfisvænna grænmetisfæði er ef miðað er við kjöt. Verkefnið breytti meira að segja kokki mötuneytisins, áður grjótharðri kjötætu, í grænkera. Svo afgerandi voru niðurstöður mælingarinnar.

Það er víst vonlaust að ætla sér aldrei að stíga feilspor í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en það er svo sannarlega hægt að leggja sitt af mörkum með smávægilegum lífsstílsbreytingum. Að segjast vera umhverfissinni en ætla samt að háma í sig kjöt í öll mál er nefnilega reikningsdæmi sem ekki gengur upp.

Það er bara óskandi að þessar upplýsingar séu nógu linsoðnar fyrir talsmann FESK.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -