Vefmiðillinn Kjarninn greinir frá því að rekstrartap Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar, DV og tengdra miðla, var 688,7 milljónir króna í fyrra, en árið áður var rekstrartap félagsins 197,3 milljónir króna; því nemur sameiginlegt rekstrartap þess á tveimur árum 886 milljónum króna.
Þá segir einnig að þegar vaxtagjöldum vegna lána sem Torg hefur þurft að borga af og gengismun er bætt við kemur í ljós að tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta var 750 milljónir króna á síðasta ári.
Komið hefur fram að áður í Fréttablaðinu að Torg hefði tapað um 600 milljónum króna á árinu 2020. Fyrirtækið/félagið Torg er í eigu tveggja félaga; HFB-77 ehf og Hofgarða ehf. Eigandi Hofgarða ehf er fjárfestirinn Helgi Magnússon; hann á 82 prósent í Hofgörðum ehf. Að auki er Helgi stjórnarformaður Torgs, en aðrir eigendur þess eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, Jón G. Þórisson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.
Þessi hópur manna keypti Torg fyrir tveimur árum og var kaupverðið trúnaðarmál; en í ársreikningi HFB-77 ehf. fyrir árið 2019 má sjá að það félag keypti hlutabréf fyrir 592,5 milljónir króna á því ári. Torg var og er eina þekkta eign félagsins.
Bent er á að hlutafé í Torgi var aukið um 600 milljónir króna í lok síðasta árs og að skuldir við tengdan aðila voru auk þess 440 milljónir króna um áramót – en voru engar í byrjun árs 2020. Samanlagt jukust skuldir við tengda aðila, eigendur Torgs, og hlutafé um rúman milljarð króna á síðasta ári.
Í fyrra var gengið frá kaupum á DV og tengdum miðlum frá Frjálsri fjölmiðlun; félags sem er skráð í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, en var alla tíð fjármagnað með vaxtalausum lánum frá fjárfestingafélagi Björgólfs Thors Björgólfssonar.
Þá er vert að geta þess að frá því að Frjáls fjölmiðlun eignaðist miðlanna síðla árs 2017 og þangað til að þeir voru seldir til Torgs í apríl 2020 tapaði útgáfufélagið 745 milljónum króna.
En Torg greiddi samt sem áður 300 milljónir króna fyrir miðlanna – en samkvæmt ársreikningi voru 100 milljónir króna greiddar með fjármunum úr rekstrinum og 200 milljónir króna með nýjum langtímalánum; Frjáls fjölmiðlun virðist hafa lánað að minnsta kosti 150 milljónir króna af þeirri upphæð í formi seljendaláns, en eina fastafjármunaeign þess félags er skuldabréf upp á þá tölu sem varð til í fyrra.
Eins og staðan er í dag þá er flaggskipið í útgáfu Torgs Fréttablaðið, en útgáfudögum þess var fækkað úr sex í fimm á viku í fyrra.
Lestur Fréttablaðsins, sem er frídreift í áttatíu þúsund eintökum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri, mældist 31 prósent í síðasta mánuði og hefur lesturinn dalað jafnt og þétt undanfarin ár; en í apríl 2007 var hann 65,2 prósent og hélst yfir 50 prósent þangað til í desember 2015. Síðla sumars 2018 fór lesturinn svo undir 40 prósent í fyrsta sinn og stefnir nú undir 30 prósent á næstu mánuðum, en frá byrjun árs 2018 hefur lestur Fréttablaðsins aukist á milli mánaða í 6 skipti en dalað 39 sinnum.