Síðast en ekki síst
Eftir / Elísabetu Ýri Atladóttur
Þingmaður hefur lýst því hvernig honum finnst fáránlegt að vændiskaup séu ólögleg, að það ætti ekki að nefna gerendur þótt vændi er skilgreint í lögum sem ofbeldi. Sami maður segir að þolendur skuli fylgja lagabókstafnum þegar þær vilja komast burt frá ofbeldismönnum, að það ætti að fangelsa þær fyrir að verja börn sín gegn ofbeldismönnum.
Ráðherrar forðuðu stórum fjárhæðum í kringum bankahrun en erfiðlega hefur gengið að greina frá því þegar það virðist koma nýtt lögbann um leið og umræðan verður óþægileg fyrir elítuna. Dómsmálaráðherra sagði það ómögulegt að „sníða hjúskaparlög að fáum“ þegar þolendur heimilisofbeldis vildu leiðir til að geta skilið við ofbeldismenn sem neituðu þeim um skilnað bara til að halda stjórn.
Siðleysi og vanvirðing gagnvart þeim sem þurfa vernd laganna er heill hafsjór, frá þeim sömu og setja lögin. Þetta sem ég nefndi er lítið brot af öllu sem hefur gengið á seinustu ár. Íslenska réttarkerfið nötraði og skalf þegar Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp þann dóm að skipan Landsréttardómara væri ólögmæt. Réttarkerfið virðist einstaklega brothætt. En kerfið hefur lengi verið brothætt, það getum við þakkað fólkinu með löggjafarvald sem fer á svig við lög og kemst upp með það. Þingmenn sem brjóta lög fá bara uppreist æru og mæta á þing nokkrum árum seinna ef þeir brjóta af sér.
Réttarkerfi byggist ekki einungis á þeim lögum sem eru sett, heldur einnig fordæmunum. Lengi hafa fordæmin verið á þá leið að ákveðin elíta er ósnertanleg, þau sem setja lögin þurfa oft ekki að lúta þessum sömu lögum. Og þegar eitthvert efra dómsvald segir að gjörðir þeirra séu ólögmætar er hægt að slá það út af borðinu með þeim útskýringum að útlenskir dómstólar eigi ekki að hafa nein völd á Íslandi.
Að fylgja lögum og reglum hefur hingað til bara verið fyrir þau valdalausu. Valdaelítan vill ekki að það breytist. Breytum því.