Einn þriggja skipstjóra Herjólfs var nýlega áminntur fyrir að sigla skipinu án réttinda og að sögn Harðar Orrar Grettissonar, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf., lækkaður í tign. Í fyrra var sami skipstjóri áminntur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart tveimur starfsstúlkum um borð.
Rúv greindi frá því um daginn að skipstjóri Herjólfs hefði verið áminntur og lækkaður í tign fyrir að hafa siglt skipinu réttindalaus í 10 daga yfir hátíðirnar. Stjórn Herjólfs ohf. hefur ákveðið að gefa skiptstjóranum annan sjens þó svo að stjórnin líti málið alvarlegum augum.
Mannlíf hefur eftir áreiðanlegum heimildum frá nokkrum áttum, að sami skipstjóri hafi í fyrra verið áminntur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart tveimur starfsstúlkum um borð í Herjólfi. Ku hann hafa króað aðra stúlkuna af og „verið með einhverjar lýsingar og kennsluaðferðir á kynlífsathöfnum“, líkt og því var lýst fyrir blaðamanni Mannlífs.
Heimildir Mannlífs herma að skipstjórinn sé undir sérstökum verndarvæng stjórnarformanns Herjólfs, Arnars Péturssonar, og að hin meinta lækkun tignar á skipstjóranum sé þannig úr garði gerð að titillinn „yfirskipstjóri“ hafi verið búinn til fyrir hann árið 2020 og að nú sé einungis búið að stroka út „yfir“ og hann sé því enn skipstjóri. Ekki hlaut hann aðra refsingu en áminningu fyrir meinta áreitni gagnvart stúlkunum, samkvæmt heimildum Mannlífs. Þess má geta að Arnar Pétursson er þjálfari handboltalandsliðs kvenna.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er kergja í mörgum í Eyjum vegna málsins en ári áður hafði annar skipstjóri orðið uppvís að óeðlilegum smáskilaboðasendingum á unga starfsstúlku um borð og var sá skipstjóri raunverulega lækkaður í tign, niður í stýrimann, en afar erfitt er að vinna sig upp aftur eftir að hafa verið lækkaður í tign.
Hvorki náðist í Hörð Orra Grettisson, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf., né Arnar Pétursson, stjórnarformann sama fyrirtækis, í síma, við vinnslu fréttarinnar en skriflegt svar barst frá Herði Orra sem bar fyrir sig trúnaði.
„Allar upplýsingar um starfsfólk eru meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við ákvæði laga og reglna á sviði persónuverndar. Herjólfur ohf. leggur áherslu á að tryggja að meðferð persónuupplýsinga sé í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Ég hef ekki og mun ekki verða við neinum beiðnum um upplýsingar um mitt starfsfólk.“
UPPFÆRT: Tölvupóstur barst Mannlífi frá Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. þar sem hann neitar því að skipstjórinn hafi áður verið áminntur í starfi sem er þvert á heimildir Mannlífs um málið.
„Eins og fram kom í fyrri pósti mínum eru allar upplýsingar um starfsfólk meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við ákvæði laga og reglna á sviði persónuverndar.
Eftir samræður við starfsmanninn sem um ræðir tel ég mér þó heimilt og skylt að upplýsa að hann hefur aldrei áður verið áminntur í starfi. Ég bið ykkur því um að leiðrétta og draga til baka frétt sem birtist á vef ykkar þann 26. janúar kl. 12:39 og ber yfirskriftina „Réttindalaus skipstjóri áminntur fyrir kynferðislega áreitni gagnvart stúlkum í áhöfn Herjólfs.
Ég mun ekki tjá mig frekar um þetta mál.“
Mannlíf hefur sent Herði nýjan tölvupóst og spurt hvort skipstjórinn hafi þá fengið tiltal, ef ekki formlega áminningu, vegna áreitni gagnvart starfsstúlkum Herjólfs.