Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Rétturinn til varna toppar réttinn til nafnleyndar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helga Vala Helgadóttir, alþingis- og lögmaður, vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Atla Rafns Sigurðarsonar gegn Borgarleikhúsinu og Kristínu Eysteinsdóttur, en segir rétt þess sem ásakaður er um brot vera eina af grunnstoðum réttarríkisins. Komi slíkar ásakanir fram nafnlaust sé ekki hægt að vinna málið í eðlilegum farvegi og þar með sé brotið á rétti meints geranda.

„Það þarf auðvitað að fara að settum reglum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og alþingismaður, spurð hvernig yfirmenn eigi að bregðast við ásökunum á hendur starfsmanna. „Ef margir koma og kvarta yfir ákveðnum starfsmanni, eða jafnvel þótt það sé bara einn aðili sem kvartar, þá á vinnuveitandinn að bregðast strax við og skoða hvað er hæft í ásökunum, hvað hefur gerst og hvernig. Það er rík skylda vinnuveitenda að rannsaka málið í þaula og sú skylda er studd bæði með lögum og reglugerðum.“

Hvernig á vinnuveitandinn að rannsaka málið? „Í þessari rannsókn felst auðvitað að tala við meintan geranda eða gerendur og kanna hvort eitthvað sé hæft í þessum ásökunum,“ útskýrir Helga Vala. „Ef um er að ræða saknæmt athæfi ætti vinnuveitandi, að mínu mati, að ráðleggja þeim starfsmanni sem kvartar að tala við lögreglu því það er auðvitað þar sem mál eiga að fá umfjöllun ef um er að ræða gróf brot, kynferðislega áreitni eða kynferðisbrot. Ef um er að ræða einelti eða ósiðsamlega hegðun sem ekki er það gróf að geta flokkast undir hegningarlagabrot fer rannsóknin fram innan vinnustaðarins. Þá verður vinnuveitandi að skoða málið frá öllum hliðum og til þess að meintur gerandi geti skýrt sína hlið verður hann/hún auðvitað að fá að vita málsatvik og hverjir eru meintir þolendur.“

Eiga meintir þolendur sem sagt ekki rétt á nafnleynd? „Ef þú berð einhvern sökum verður þessi einhver eða einhverjir að eiga möguleika á að svara fyrir þær sakir,“ segir Helga Vala. „Þú getur ekki svarað fyrir sakirnar nema fá að vita málsatvik, hvar hlutirnir eiga að hafa gerst og hvernig. Það er ekki hægt að verja sig gegn einhverju óskilgreindu.“

„Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið.“

Ekki hægt að kæra fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju

Helga Vala hefur starfað sem réttargæslumaður brotaþola, gekk vaktir á Neyðarmóttöku um nokkurra ára skeið og segist fyrst og fremst vera talsmaður brotaþola í sinni lögmennsku. Það breytir ekki því að fyrir henni er augljóst að fara verður eftir reglum réttarríkisins.

„Við búum við ákveðið réttarríki,“ segir hún. „Og ef einstaklingur er borinn sökum eru það hans grundvallarmannréttindi að eiga þess kost að verja sig. Ef hann veit ekki hvaða sökum hann er borinn hvernig á hann þá að geta varið sig? Sá réttur toppar að mínu mati rétt ásakanda til nafnleyndar. Ég hef farið í útköll á Neyðarmóttöku þar sem einstaklingur leitaði þangað eftir að brotið var á honum en viðkomandi vildi ekki fara með málið lengra af ýmsum ástæðum. Það er auðvitað ekki sanngjarnt að brotaþoli geti ekki leitað réttar síns en við getum ekki lagt fram kæru á hendur einhverjum fyrir brot gegn ónafngreindri manneskju á ótilgreindum stað. Það er bara ekki hægt, alveg sama hversu ósanngjarnt manni finnst það.“

- Auglýsing -

En ef margir starfsmenn kvarta undan sama samstarfsmanninum og vilja ekki vinna með honum, hvað er hægt að gera? „Það er mjög flókið,“ segir Helga Vala. „Þess vegna þarf að skoða það vel. Ástæðan getur verið sú að hópurinn beiti einhvern einstakling einelti eða vilji bara losna við viðkomandi og því þarf að setja fram „konkret“ dæmi, það þurfa að vera málefnalegar ástæður fyrir kvörtuninni til að vinnuveitandinn geti metið það. Vinnuveitandi þarf að tryggja aðbúnað fólks og öryggi á vinnustað, en það breytir því ekki að ef þetta beinist gegn einhverjum einum þarf að skoða hverja ásökun fyrir sig án tillits til hinna. Sem dæmi má nefna mál þar sem þrír aðilar báru einn og sama einstaklinginn sökum um kynferðisbrot og því má segja að það hafi verið  yfirgnæfandi líkur á að viðkomandi væri síbrotamaður. Samt sem áður má ekki nota eitt mál til þess að byggja undir annað, það er óheimilt í sakamálarétti. Í því voru tvær af kærunum felldar niður á rannsóknarstigi en eitt mál fór fyrir dóm og þótt allir teldu yfirgnæfandi líkur á sök var hann á endanum sýknaður í héraði meðal annars vegna þess að ekki mátti benda á líkur á síbrotum. Sumir vilja meina að þetta sýni að réttarkerfið sé gerendavænt og það er svo sannarlega margt sem má laga hvað varðar brotaþola í kerfinu. Mér finnst það mjög mikilvægt að staða brotaþola sé endurskoðuð, miskabætur hækkaðar verulega og að réttarkerfið sendi brotaþolum ótvíræða viðurkenningu á alvarleika kynferðisbrota.“

Að segja frá hefur fælingarmátt

Nú hefur mikið verið talað um þær breytingar sem hafi orðið á rétti þolenda til að segja frá í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar, en hefur þá sem sagt í rauninni ekkert breyst? „Réttur þolanda til að segja frá er ótvíræður,“ segir Helga Vala ákveðin. „Og það sem #metoo gerði var í rauninni að opna augu okkar allra fyrir því hvað þetta er  stórt vandamál. Það er alls staðar, það beinist af fyllstu hörku gegn þeim sem veikast standa, til dæmis erlendum og fötluðum konum, en það er líka til staðar í efri lögum samfélagsins og snertir öll hólf þess. Þar var lögð áhersla á að nafngreina ekki meinta gerendur til þess einmitt að sýna fram á hversu útbreitt þetta vandamál er, ekki endilega á nafnleynd meintra þolenda. En þar var heldur ekki verið að fara með mál fyrir dóm eða krefjast afsagna, þannig að sú barátta var annars eðlis. Það sem má hins vegar ekki gerast núna í kjölfar þessa alls er að það komi bakslag, að það verði allt brjálað ef þú segir frá. Til þess var þessi barátta ekki háð. Það mun fæla þolendur frá því að segja frá og þá erum við komin í algjört öngstræti með þetta allt saman.

- Auglýsing -

Þessi barátta hefur skilað ákveðnum árangri í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Það hefur nefnilega mikinn fælingarmátt ef gerendur geta  átt von á að ógeðsleg hegðun þeirra verði komin á forsíður blaðanna á morgun, burtséð frá því hvort vænta megi dóms fyrir athæfið eða ekki. Neyðarmóttakan varð vör við merkjanlega fækkun á kynferðisbrotamálum eftir #metoo-byltinguna þannig að hún hafði greinilega áhrif.“

Þá komum við aftur að þessu með nafnleynd meintra þolenda. Margir brotaþolar eru hræddir við meintan geranda og vilja ekki að hann viti að þeir hafi sagt frá, er þá engin leið fyrir þá þolendur að fá neina úrlausn í réttarkerfinu? „Ekki með nafnleysi, nei,“ segir Helga Vala. „Því miður þá er það ekki hægt, þú getur ekki kært nafnlaust vegna þess að rétturinn til að taka til varna er jafnríkur og rétturinn til þess að kæra. Ég undirstrika að ég skil það mjög vel að brotaþolar vilji vera nafnlausir en það má samt ekki taka þann rétt af einstaklingi sem borinn er þungum sökum að verja sig, sama hversu ógeðslegt manni kann að þykja brotið. Við verðum að gæta að réttindum allra og ef þú berð einhvern sökum verðurðu að vera tilbúinn til að standa fyrir máli þínu. Þú getur ekki krafist þess að einhver sé rekinn úr vinnu án þess að hann fái að vita um hvað málið snýst. Við verðum að hafa eitthvert kerfi á „galskapnum“. Annars endum við bara í einhverju Villtavestursástandi sem kemur engum til góða, ekki heldur brotaþolum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -