Lögreglan átti fremur náðuga nótt. Þó var nokkuð um ölvun og þrír fengu gistingu í fangaklefum lögreglunnar og svara til saka með nýjum degi.
Hæst bar eftir nóttina að bifreiðum var reykspólað í úthverfi Reykjavíkur. Þá var einnig tilkynnt um aðfinnsluvert háttarlag í Kópavogi þar sem einnig var reykspólað með tilheyrandi gauragangi. Þeir hurfu á braut í báðum tilvikum áður en lögreglan kom á vettvang.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í Mosfellsbæ. Ökumaður er grunaður um háskaakstur og að miða ökuhraða ekki við aðstæður. Ekki urðu slys á fólki.
Búðaþjófur gerði sig heimakominn í verslun í miðborginni þar sem hann ruplaði og rændi. Hann lagði á flótta en var handtekinn síðar um kvöldið.