Ýmislegt misgáfulegt hefur maður gert á djamminu um ævina en ein helgi ber af þegar kemur að heimskupörum, Verslunarmannahelgin.
Sumarið 2004 sirka, skrapp ég á Akureyri um Verslunarmannahelgina en þá hét hátíðin sennilega Halló Akureyri!. Mig minnir að fyrstu kvöldin hafi bara verið skemmtileg en á sunnudeginum fæ ég óvænt símtal. Tobbi, vinur minn sem fluttur var til Berlínar var óvænt mættur á Egilsstaði. Ég brunaði austur og var kominn í pottinn heima hjá foreldrum Tobba um kvöldið.
Við Tobbi spjölluðum um lífið og tilveruna, þýskar leðurbuxur og tilgang lífsins og drukkum guðaveigar, bjór. Við höfðum ákveðið að fara ekki á ballið á Neistaflugi í Neskaupsstað. En þegar líða tók á kvöldið og áfengið farið að streyma um æðarnar í stað blóðs, fór okkur vinunum að langa svolítið á ball. Um miðnætti hringdum við í Björn, pabba Tobba sem átti það til að vinna fram á nótt á arkitektastofunni sem hann van hjá. Björn harðneitaði að keyra okkur á Norðfjörð enda klukkan orðin allt of margt.
Við ákváðum því að húkka okkur far. Þá tók um eina og hálfa klukkustund að keyra frá Egilsstöðum til Norðfjarðar, yfir Fagradalinn og svo yfir einn hæsta fjallveg landsins, í gegnum Oddskarðsgöngin gömlu. Við tókum með okkur nesti, rest af Passoa sem blandað var við flatt Sprite.
Eftir eina og hálfa klukkustund var áfengið búið og hvorugur bílanna sem við sáum á leiðinni stoppuðu fyrir okkur. Pabbi Tobba hringdi og spurði hvar við værum. „Við erum bara að húkka far á Fagradalnum,“ sagði Tobbi þvoglumæltur. Pabbi Tobba andvarpaði en sagði svo „ég skal þá skutla ykkur.“
Eftir fimm mínútna akstur á hinum fagra dal bað ég Björn vinsamlegast að stoppa bílinn. Þegar ég kom út hlýddi ég líkama mínum sem vildi endilega losa mig við eitrið sem ég hafði innbyrt í formi drykkja. Ferðalagið hélt áfram. Í fimm mínútur í viðbót. Þá bað Tobbi um að fá gubbustopp. Eftir að hann kom aftur inn í bílinn náðum við að halda í okkur í um það bil fimm mínútur í viðbót en báðum þá báðir um stopp. Við gubbuðum í kross. Þegar við komum aftur inn í bílinn leit Björn í baksýnisspegilinn og í fljótandi augu okkar. „Þið eruð ekkert að fara á ballið er það?“
„Nei,“ sögðum við í kór og játuðum okkur sigraða. Bílnum var snúið við.
Fannst þér þessi saga góð? Þú getur hlustað á hana og fleiri líkar í Mannlífshlaðvarpinu HEIMSKast. Einnig má finna hlaðvarpið á Spotify.