Reynir Bergmann eigandi Park And Fly hvetur fólk til að sýna stuðning sinn við heilbrigðisstarfsfólk og Landspítalann í verki, en ekki einungis sýna þakklæti sitt með orðum.
Reynir býður nú til sölu 10 þúsund eintök af böngsum sem hengja má í glugga heimila, bíla og fyrirtækja í landinu. Bangsinn kostar 1.990 krónur og rennur allur ágóði til styrktar LSH. Allir starfsmenn Park And Fly gefa vinnu sína sem snýr að verkefninu.
„Nú hefur eftirspurn eftir þjónustu okkar hrunið vegna ástandsins í þjóðfélaginu. Því höfum við hjá Park And Fly ákveðið að snúa vörn í sókn og nota krafta okkar og mátt til að styðja við bakið á þeim sem standa í framlínunni í baráttunni við Covid19,“ segir Reynir í færslu á Facebook.
Eftir að hafa rætt við og fengið leyfi hjá LSH voru bangsarnir framleiddir og eru þeir til sölu á parkandfly.is, en þar er einnig bangasöluteljari.
50 heppnir kaupendur/styrkjendur munu auk þess fá bangsa sem innihalda alþrif, bón og bílastæði hjá Reyni og fyrirtæki hans þegar tök verða á vegna faraldursins.
„Saman stöndum við. Saman sigrum við!,“ segir Reynir.