Fyrrverandi hnefaleikakappinn Mike Tyson eignaðist tvo tígrisdýraunga árið 1995 og dýrin hafði hann innan girðingar úti í garði hjá sér. Tyson rifjaði nýverið upp þegar annað tígrisdýrið réðst á konu sem kom óboðin inn á á lóð hans.
Tyson rifjaði atvikið upp í spjallþættinum Fat Joe Show. Þáttastjórnandinn greindi frá því að hann hefði heyrt söguna þannig að eitt dýrið hefði sloppið yfir girðinguna og bitið nágranna Tyson.
Tyson leiðrétti þetta. Hann greindi frá því að hið rétta væri að konan hefði verið óboðinn gestur á lóð hans og hún hefði sjálf klifrað yfir girðinguna með það að markmiði að „leika við tígrisdýrin”.
„Tígrisdýrið þekkti konuna ekki þannig að þetta var slæmt slys,“ sagði Tyson. Hann segir konuna farið í mál við hann en að málið hafi verið látið niður falla þegar í ljós kom að það var hún sem stökk yfir girðinguna í leyfisleysi.
„Þegar ég sá hvað tígrisdýrið hafði gert við hana…ég átti mikinn pening á þessum tíma þannig að ég gaf henni 250.000 dollara, eða hvað sem það var,“ útskýrði Tyson. Hann sagði konuna hafa verið afar illa farna eftir slysið.
Eins og áður sagði eignaðist Tyson tígrisdýraunga árið 1995. Hann viðurkenndi að hann hafi verið vitlaus á þeim tíma og viti núna að það er engin leið að temja tígrisdýr og hugsa um þau eins og hefðbundin gæludýr. „Þau geta drepið þig óvart,“ sagði hann.