Leikkonan Hera Hilmarsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Hera Hilmar, er í viðtali við vefsíðuna Daily Actor í tengslum við kvikmyndina An Ordinary Man, þar sem Hera leikur á móti Sir Ben Kingsley.
Í viðtalinu er Hera spurð út í verstu áheyrnarprufu sem hún hafi farið í á ferlinum og það stendur ekki á svörum hjá leikkonunni.
„Ó, Guð, versta áheyrnarprufan. Hún var fyrir nokkrum árum og það var ein af mínum fyrstu áheyrnarprufum. Þetta var enskur leikstjóri af gamla skólanum og ég held að hann hafi verið svo forviða yfir því að íslensk stúlka væri í prufu fyrir hlutverk Englendings að hann gerði lítið úr enska hreimnum mínum,“ segir Hera og heldur áfram.
„Þetta var fullkomlega óþarft að sumu leyti. Stundum gerir maður eitthvað sem maður er ekkert sérstaklega góður í en ég var ekkert ofboðslega léleg þannig að þetta var algjör óþarfi.“
Hún bætir jafnframt við að hún hafi ekki passað í hlutverkið sem hún var að falast eftir en að framkoma leikstjórans hafi ekki þurft að vera með þessum hætti. „Þetta er í eina skiptið sem ég hef upplifað eitthvað svona.“