Föstudagur 17. janúar, 2025
1.1 C
Reykjavik

„Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dóttir Halldóru Baldursdóttur var kynferðislega misnotuð á barnsaldri. Meintur gerandi, lögreglumaður, starfar enn innan lögreglunnar þrátt fyrir að hafa verið kærður fyrir brot gegn þremur stúlkum.

Mæðgurnar Halldóra og Helga.

Árið 2011 sagði stúlkan frá brotinu sem átti sér stað fjórum árum áður. Málið var kært og síðan fellt niður en meintur gerandi var háttsettur lögreglumaður. Í viðtali við Mannlíf segist Halldóra vilja umbylta handónýtu kerfi sem hún segir hafa brugðist dóttur sinni.

„Það sem mér hefur þótt ólíðandi er að við höfum verið sett í þá stöðu að ef við þyrftum á aðstoð lögreglu að halda þá gætum við átt von á að maðurinn sem við kærðum fyrir að brjóta kynferðislega á dóttur minni kæmi á vettvang. Núna hefur sú martröð ræst.“

Þannig byrjar Halldóra frásögn sína en tveimur vikum kom upp atvik á heimili Halldóru sem varð til þess að hún þurfti að óska eftir aðstoð lögreglu. Kallaður var út rannsóknarlögreglumaður á bakvakt til að taka skýrslu. „Ég spurði fyrir rælni hvað sá maður héti og þá kom í ljós að þetta var umræddur maður. Ég sagði að þessi maður væri alls ekki velkominn í mín hús og útskýrði ástæðuna fyrir lögreglunni. Eftir skraf og ráðagerðir var hann sendur heim og kallað eftir rannsóknarlögreglumanni úr Reykjavík, sem reyndist okkur afar vel. En eftir situr að hinn mætti á svæðið.“

Afdrifarík sumarbústaðaferð
Árið 2007 var dóttur Halldóru, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, móður hennar og stjúpföður. „Ég hafði alltaf verið treg til að leyfa henni að gista annars staðar en lét undan þarna, þrátt fyrir að þekkja foreldrana lítið sem ekkert. Maðurinn væri jú varðstjóri hjá lögreglunni og því hlyti þetta að vera öruggt. Sonur minn var veikur og var langdvölum á sjúkrahúsi á þessum tíma. Helga var mikið með mér þar og skiljanlega stundum leið sem var meginástæða þess að ég leyfði henni að fara,“ segir Halldóra.

„Að fá ekki viðurkenningu fyrir dómi var annað áfall að takast á við. Afleiðingarnar sem það hafði í för með sér voru erfiðar. Helga upplifði það eins og henni væri ekki trúað.“

Í kjölfar þessarar ferðar urðu breytingar á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. „Hún varð verulega kvíðin. Hún gat til dæmis ekki gengið ein heim úr skólanum án þess að vera með mig í símanum. Ef hún sá mann bíða í strætóskýli varð hún að vera með mig í símanum á leiðinni heim. Helga hætti að umgangast umrædda skólasystur eftir þessa ferð. Ég man ekki hversu oft hún kom á stökki inn til mín á nóttunni þegar hana var að dreyma illa. Hún varð hrædd við karlmenn. Ég hafði meira að segja samband við barnavernd og sagðist gruna að eitthvað hefði komið fyrir dóttur mína. Ráðin sem ég fékk voru ekki þau sem ég myndi gefa foreldrum með svipaðar áhyggjur. Mér var ráðlagt að þrýsta ekki á hana, ekki spyrja hana heldur leyfa henni að koma fram með þetta sjálfri og það var það sem ég gerði. Í dag myndi ég segja við foreldrið að fá sér góðan sálfræðing til að setjast niður með barninu til að spyrja það út í líðan þess.“

Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. „Skólastjórinn hringdi og ég heyrði strax á raddblænum að fundurinn snérist ekki um skróp eða heimavinnu. Á fundinum voru auk okkar umsjónarkennari Helgu og fulltrúi frá barnavernd. Þarna var mér tilkynnt hvað hafði gerst. Dóttir mín hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður. Vinkonan hvatti Helgu til að segja frá og saman fóru þær til umsjónarkennarans. Heimurinn hrundi. En á þessari stundu féllu öll púslin saman varðandi líf okkar síðustu ár á undan.“

- Auglýsing -
Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja.

Þrjár kærur fyrir barnaníð
Halldóra er ánægð með viðbrögð skólans og barnaverndar. Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst.

„Fram að þessum tíma taldi ég mig búa við réttarríki sem stendur með börnum. Það var mikill skellur að upplifa að svo er ekki því um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður. Að fá ekki viðurkenningu fyrir dómi var annað áfall að takast á við. Afleiðingarnar sem það hafði í för með sér voru erfiðar. Helga upplifði það eins og henni væri ekki trúað. Andlegri heilsu hennar hrakaði og reiði bættist við kvíðann og þunglyndið. Ég fór að ofvernda hana því mér fannst ég hafa brugðist sem móðir og samviskubitið var mikið. Mér fannst ég þurfa að gæta hennar og sýndi henni ekki það traust sem hún þurfti á að halda á unglingsárunum. Að auki hélt maðurinn sínu starfi í lögreglunni og það í okkar sveitarfélagi þannig að við vorum í þeirri stöðu að geta ekki leitað til lögreglunnar án þess að eiga á hættu að hann kæmi á staðinn. Maðurinn var ekki leystur frá störfum meðan á rannsókn stóð,“ segir Halldóra og gerir hlé á máli sínu. „Til samanburðar má nefna að lögreglumaður sem grunaður var um að misfara með óskilamuni hjá lögreglunni var sendur í leyfi meðan á rannsókn hans máls stóð, málið var síðan fellt niður en hann fékk starfslokasamning í kjölfarið. Lögreglumaðurinn sem braut gegn dóttur minni hafði á þessum tíma verið kærður fyrir brot gegn annarri stúlku og nokkru síðar á þriðju stúlkunni en hann starfaði áfram á meðan á öllum þessum rannsóknum stóð og hélt starfinu eftir að málin voru felld niður. Þegar málið kom upp sendi ég póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera. Mér datt nú stundum í hug lagið góða „Ekki benda á mig“ þegar ég var í samskiptum við þá. Það þarf virkilega að skoða hvernig lögreglan tekur á kynferðisbrotamálum ef sakborningurinn er lögreglumaður,“ segir hún og bætir við: „Eftir að hafa leitað mér upplýsinga á Netinu sá ég að umræddur lögreglumaður fékk áður dóm fyrir brot í opinberu starfi árið 2005, af hverju fékk hann að halda starfinu í kjölfarið?“

Mannlíf hefur undir höndum fjölmörg gögn sem tengjast málinu. Lögfræðingur sem Mannlíf ræddi við segir að út frá þessum gögnum megi gera ýmsar athugasemdir við rannsókn lögreglu á málinu.

Brotalamir á rannsókn
Halldóra hefur mikið út á rannsókn málsins að setja og í vetur skrifaði hún bréf til nefndar um eftirlit með lögreglu þar sem hún óskar eftir því að málsmeðferðin verði skoðuð og gripið til viðeigandi ráðstafana. „Þegar málið kom upp í vetur með barnaverndarstarfsmanninn sem kærður hafði verið fyrir barnaníð, og lögreglan ekki staðið sig í að tilkynna málin áfram þannig að maðurinn starfaði með börnum, þá hugsaði ég bara; það hefur ekkert breyst. Við hristum af þeim skömmina og reisum upp æru þeirra. Það er alltaf slegin skjaldborg um brotamennina því það væri svo rosalegt ef þeir yrðu dæmdir og látnir axla einhverja ábyrgð því þeir segjast ekki hafa gert þetta,“ segir hún.

- Auglýsing -

„Rannsóknin á máli dóttur minnar var illa unnin og ýmis lögvarin réttindi hennar voru brotin við málsmeðferðina. Eins og ég sagði áðan þá er dóttir mín ein þriggja stúlkna sem kærði lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot en þær voru allar skólasystur. Málin voru ekki rannsökuð saman sem hefði styrkt staðfastan framburð stúlknanna og málin í heild. Fram kemur í rannsóknargögnum að maðurinn saki stelpurnar um samsæri gegn sér. Ekkert var gert til að hrekja slíkt. Aðra stúlkuna þekki ég ekki en hin hafði verið vinkona Helgu. Með því að skoða Facebook-samskipti þeirra var augljóst að þær höfðu ekki verið í neinum samskiptum fyrr en eftir að málið kom upp.

„Við hristum af þeim skömmina og reisum upp æru þeirra. Það er alltaf slegin skjaldborg um brotamennina því það væri svo rosalegt ef þeir yrðu dæmdir og látnir axla einhverja ábyrgð því þeir segjast ekki hafa gert þetta.“

Við rannsókn málsins var mikið lagt upp úr nákvæmri tímasetningu sumarbústaðaferðarinnar og ég lagði fram símagögn sem sýndu símtöl milli mín og síma þeirra fyrir umrædda helgi. Ég mundi að Helga hafði hringt úr síma foreldra skólasystur sinnar þegar hún bað um að fá að fara í ferðina. Samskipti voru ekki við þau hvorki fyrr né síðar og því var tímasetningin nokkuð nákvæm. Mér fannst nákvæm tímasetning ekki skipta öllu máli, heldur að þessi atburður gerðist. Sakborningur lagði hins vegar fram ósannreynt vinnuvottorð sem niðurfelling málsins byggði meðal annars á. Excel-skjal sem sýndi að hann hefði verið í vinnunni á þessum tíma. Excel-skjal sem hann sendir lögfræðingi sínum sem áframsendir það. Ég meina, í hvaða bananalýðveldi heldur slíkt skjal fyrir dómi? Hver sem er getur farið inn í vinnustundir og breytt stimpilklukkunni eftir á. Ekkert annað var skoðað til að sjá hvort lögreglumaðurinn hefði í raun verið í vinnunni umrædda helgi.“

Klám haft fyrir börnunum
Brotið átti sér stað í sumarbústað foreldra sakborningsins. „Þegar lögreglan fór á vettvang til að rannsaka bústaðinn var eigendum ekki gert viðvart heldur fór sakborningur sjálfur á vettvang með rannsakendum. Mér þótti þetta óeðlilegt og spyr mig hvort þetta sé viðtekin venja í sakamálum, að taka sakborninga með sér á vettvang,“ segir Halldóra.

„Í umræddri sumarbústaðaferð voru einnig vinahjón sakbornings og eiginkona hans. Skýrslutaka yfir vinahjónunum tók aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu mannsins sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði – minnislausra vitna. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Dómgreindarleysi fullorðinna í þessari bústaðaferð var því bersýnilega algjört og ekkert vafamál er að slíkt er klárt brot á lögum. Lögreglan gerði enga rannsókn á þeirri hlið málsins. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð þó að þekkt sé að menn sem níðast á börnum aðhafist eitthvað ólöglegt á Netinu. Þó það sannaði ekki verknaðinn hefði það stutt málið ef eitthvað hefði fundist.

„Dóttir mín er ein þriggja stúlkna sem kærði lögreglumanninn fyrir kynferðisbrot en þær voru allar skólasystur. Málin voru ekki rannsökuð saman sem hefði styrkt staðfastan framburð stúlknanna og málin í heild.“

Fengnir voru lögreglumenn úr öðru bæjarfélagi til að rannsaka málið. Sakborningurinn tók virkan þátt í starfsemi Landsambands lögreglumanna á þessum tíma og það gerðu einnig rannsakendur málsins, eftir því sem ég best veit. Annar lögreglumaður sem ég ræddi eitt sinn við sagði mér að sakborningur og rannsakendur hefðu verið saman á einhverri ráðstefnu úti á landi á rannsóknartímabilinu. Mjög smart. Rannsóknin er því aldrei hlutlaus að mínu mati og tel ég hafið yfir allan vafa að hagsmunir barnsins hafi ekki verið í fyrirrúmi.

Fyrir liggja skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi, sálfræðingum sem sérhæfa sig í áföllum barna og læknum sem staðfesta að Helga varð fyrir miklum skaða í þessari sumarbústaðaferð. Mér finnst óskiljanlegt að þessar skýrslur hafi ekkert vægi haft þegar tekin var ákvörðum um framhald málsins.

Réttarkerfið er handónýtt þegar kemur að börnum. Það stíga endalaust upp tröll sem segja að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Þá spyr ég: Hvað þarf til að sanna sekt? Ég er með barn sem búið er að segja frá í Barnahúsi. Hún er trúverðug, hún hefur öll einkenni þess að hafa orðið fyrir broti. Hvað þarf meira?“

Helga hefur glímt við afleiðingar brotsins frá því 2007.

Reyndi sjálfsvíg
Síðustu ellefu ár hafa verið erfið fyrir bæði Helgu og Halldóru móður hennar. Helga flosnaði upp úr framhaldsskóla og Halldóra var óvinnufær um tíma vegna bæði andlegra og líkamlegra einkenna. Báðar hafa þær sótt hjálp til sérfræðinga. Að auki hefur málið tekið mikið á bræður Helgu. „Fyrstu fjögur árin eftir brotið var Helga að burðast ein með afleiðingarnar og þá byrjaði að hún að þróa með sér þunglyndi og kvíða. Sá tími var skemmandi. Eftir að málið var fellt niður tók við enn verri tími og Helga átti erfið unglingsár. Hún leiddist um tíma í óreglu og ég var á vaktinni allar helgar að leita hana uppi og sækja hana. Annan í jólum 2014, tveimur árum eftir að málinu er vísað frá, reyndi hún að svipta sig lífi. Í kjölfarið fékk hún neyðarinnlögn á BUGL. Helga var áður glaðlyndur krakki og mikið fjör í henni. Frá því að brotið var gegn henni árið 2007 hefur hún verið að glíma við afleiðingarnar.“

Helga eignaðist barn í september í fyrra þá tvítug að aldri og búa þær mæðgur hjá Halldóru. „Það hefur þroskað hana mikið að eignast barn. Hún sýnir ábyrgð og stendur sig vel. Hún er sterkur karakter og getur gert allt sem hún vill, þarf bara að hafa trú á því sjálf,“ segir Halldóra og Helga sem er sest hjá okkur samsinnir því. „Núna langar mig meira að fara í nám, ég stefni að háskólabrú og svo jafnvel að námi í lögfræði. Ég er orðin virkari eftir að dóttir mín fæddist en áður hafði ég litla löngun til að gera nokkuð og hætti í framhaldsskóla eftir aðeins hálft ár. Núna langar mig að byggja upp gott líf fyrir okkur mæðgurnar. Þetta mál hefur tekið mikinn toll og mig langar að mín reynsla geti hjálpað einhverjum. Kynferðisbrotamál eru algengari en fólk heldur, flestar vinkonur mínar hafa lent í einhverju,“ segir Helga.

Þurfum að bylta kerfinu
Nú eru fimm ár síðan málið var látið niður falla og í vor sat Halldóra vinnustofu í vinnunni sinni sem haldin var í kjölfar metoo-byltingarinnar. „Þar hélt lögreglu- og sérsveitarmaður erindi og talaði meðal annars um að það þyrfti kjark og þor til að gera breytingar. Ég fann hvernig ég byrjaði að hitna, mér varð flökurt og var við það að fara að gráta. Ég varð fjúkandi reið; þú hefur ekki kjark og þor til að taka á þessum málum innan þíns vinnustaðar. Ég skrifaði helling um mál dóttur minnar á blað, fór með til hans í kaffipásunni og bað hann um að lesa það eftir vinnustofuna. Ég áttaði mig svo á því að hann átti enga sök á reiði minni. Ég skrifaði honum því afsökunarbeiðni á Facebook og tók hann mér mjög vel og þykir mér vænt um viðbrögð hans. Þarna rann upp fyrir mér að ég er enn á þessum stað, ég er brjáluð út í lögregluna. Ég hélt að ég væri komin lengra í sjálfsvinnunni,“ segir Halldóra.

„Við viljum skila skömminni til kerfisins sem brást dóttur minni. Ég vil sjá kerfið breytast, að við förum að hugsa kynferðisbrot gagnvart börnum upp á nýtt. Við erum alltaf að taka við fórnarlömbunum og setja plástur á sárin í staðinn fyrir að fókusera á brotamennina. Hvernig komum við í veg fyrir að menn brjóti á börnum árum og jafnvel áratugum saman?

Dæmdir barnaníðingar eiga að vera undir eftirliti, fá þá aðstoð sem þeir þurfa og það á ekki að gera þeim kleift að vinna með börnum. Við þurfum líka að gera eitthvað í því að fá þessa menn dæmda, að það þurfi ekki að menn séu hreinlega staðnir að verki til að til þess komi. Það á ekki að vera nóg að menn bara þræti fyrir verknaðinn og séu þar með lausir allra mála. Ég vil að skýrsla frá Barnahúsi verði sönnunargagn líkt og áverkavottorð frá lækni. Ég vil líka að lögreglan setji sér svolítinn „standard“ – að það sé ekki ásættanlegt að starfandi lögreglumaður fái á sig þrjár kærur fyrir barnaníð og starfi áfram. Því miður, hann verður bara að vinna við eitthvað annað. Ég spyr mig, ef gerandinn í máli dóttur minnar hefði verið annar, hefði rannsóknin verið öðruvísi?“ spyr Halldóra.

„Skýrslutaka yfir vinahjónunum tók aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu mannsins sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði – minnislausra vitna.“

Helga eignaðist dóttur síðasta haust. „Núna langar mig að byggja upp gott líf fyrir okkur mæðgurnar. Þetta mál hefur tekið mikinn toll og mig langar að mín reynsla geti hjálpa einhverjum,“ segir Helga.

„Við þurfum að bylta þessu kerfi og við þurfum fleiri sterka einstaklinga eins og Berg Þór Ingólfsson sem hefur sýnt ótrúlegt þrek til að berjast fyrir breytingum. Við foreldrarnir erum oft bara svo buguð og ekki í standi til að berjast fyrir svo ná megi fram bótum á handónýtu kerfi. Einnig þarf að vera einhver sem bendir fólki á hvernig það á að bregðast við þegar það lendir í svona, hvert það á að leita – fáðu þér harðan lögfræðing, passaðu þig á þessu og hinu. Maður er svo varnarlaus og brotinn. Það vantar eitthvað sem tekur foreldra í fangið og leiðir þá áfram. Við eigum að gæta hagsmuna barnanna, það er skylda okkar samkvæmt lögum. En kerfið stendur ekki með okkur. Ofbeldismaðurinn er oftast látinn njóta vafans í stað barnanna, eins og sýndi sig best í samskiptum við ríkislögreglustjóra sem virti málið að vettugi og lét eins og sér kæmi þetta ekki við. Til að taka allan vafa af hverjum bar að taka á málinu var leitað til umboðsmanns Alþingis og í svari hans kom það skýrt fram að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á að veita mönnum lausn frá embætti. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gerði heldur ekki neitt og lét viðkomandi lögreglumann vera á vakt meðal annars í okkar hverfi, eins og við höfum nú fengið að kynnast. En málið sjálft fékk aldrei heiðarlega og hlutlausa rannsókn – og réttlætinu því ekki fullnægt. Við þurfum rétta fólkið á þing sem hefur kjark og þor til að taka á þessum málum og gera nauðsynlegar breytingar. Þær verða aldrei vinsælar. Við viljum ekki að önnur lítil börn þurfi að ganga í gegnum svona ósanngirni og að hlutunum sé klúðrað,“ segir Halldóra að lokum.

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -