Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag klukkan 11.30. Þar verða aðgerðir í efnahagsmálum vegna útbreiðslu COVID-19 kynntar.
Mannlíf greindi frá því um helgina að ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands væru að setja saman stóran aðgerðapakka til að styrkja hagkerfið vegna þeirra áhrifa sem kórónaveiran er að valda í íslensku efnahagslífi. Sú vinna mun vera á lokametrunum.
Samkvæmt tilkynningu munu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynna aðgerðirnar á fundinum.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er verið að undirbúa lækkun vaxta og skoða hvort minnka eigi bindiskyldu og létta á eiginfjárkröfu á hendur bönkunum, til að gera þeim kleift að lána til fyrirtækja og tryggja lausafé.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét í vikunni í veðri vaka að bankinn myndi bregðast við aðstæðunum. Aðgerðirnar sem í undirbúningi eru snúa líka að ríkisfjármálum.
Sjá einnig: Stór aðgerðapakki stjórnvalda vegna COVID-19 á lokametrunum