Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Ritskoðuð í Íran en sýnir nú á Listahátíð í Reykjavík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef fengið sterk viðbrögð frá áhorfendum þar sem ég hef sýnt verkið hingað til, en ég hef þegar sýnt yfir 30 sýningar í ólíkum löndum. Það er ótrúlega gaman og mikill heiður að vera boðið að sýna á Listahátíð í Reykjavík. Ég tel að verkið eigi ekki síður erindi til Íslendinga frekar en annarra. Viðfangsefnið snertir okkur öll og ég hlakka til þess að heyra viðbrögðin hér,“ segir dansarinn og danshöfunurinn Bára Sigfúsdóttir. Hún sýnir verkið The Lover á Listahátíð í Reykjavík dagana 7. og 8. júní í Tjarnarbíói.

„The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun. Verkið er hugleiðing um samband mannsins og náttúrunnar, hvernig manneskjan býr í náttúrunni og hvernig náttúran býr í mannskepnunni. Hvernig maðurinn og jörðin bæði skapa og eyða,“ segir Bára, sem raðar í kringum sig fagmönnum til að gera sýninguna sem áhrifamesta.

„Ég er ein á sviðinu ásamt mikilfenglegri sviðsmynd sem að umbreytist á táknrænan hátt á meðan á verkinu stendur. Sviðsmyndin er unnin af franska ljósmyndaranum Noémie Goudal og belgíska arkitektnum Jeroen Verrecht/ 88888. Tónlistin er samin af íslenska tónlistarmanninum Borko.“

Hlaut Circuit X verðlaunin

The Lover var upphaflega frumsýnt á fimmtíu ára afmælishátíð Beursschouwburg leikhússins í Brussel á PERFORMATIK tvíæringnum í mars árið 2015. Í framhaldinu hefur Bára flakkað um heiminn og sýnt verkið til að mynda í Hollandi, Tékklandi, Danmörku og Belgíu, en Bára hefur verið búsett í síðastnefnda landinu síðustu tíu árin. Þá hlaut The Lover Circuit X verðlaunin í Belgíu og Hollandi árið 2015 og var tilnefnt til hinna virtu Roel Vernier verðlauna fyrir sviðslistir í Belgíu. Bára er glöð með þessar góðu viðtökur.

„Það er mjög gaman þegar að gengur vel því þá gefast fleiri tækifæri til þess að sýna verkið. Circuit X verðlaunin veittu sýningunni til dæmis tækifæri á því að ferðast mikið í Belgíu og Hollandi. Maður veit aldrei hvernig mun ganga þegar að maður byrjar að vinna að nýju verkefni, enda held ég að velgengni ætti ekkert endilega að vera markmið í sjálfu sér þó að auðvitað vilji maður vinna hlutina vel. Mikilvægast er að finna hugmyndinni þann farveg sem að hún krefst. Við sköpun The Lover þá gekk það farsællega, en auðvitað liggur samt sem áður margra mánaða vinna að baki í sköpunarferlinu,“ segir Bára.

Þurfti að breyta nafninu á The Lover

Þessi hæfileikaríki dansari hefur verið viðloðinn írönsku danssenuna síðan árið 2014 og hefur meðal annars sýnt The Lover í Íran.

- Auglýsing -

„Mér var upphaflega boðið að sýna verk á „underground“ samtímadanshátíð í Tehran sumarið 2014. Í þeirri ferð kynntist ég bæði yndislegu og áhugaverðu fólki sem er ástæðan fyrir því að ég varð síðar meir hluti af danssenunni þar,“ segir Bára en danssenan í Íran er mjög frábrugðin því sem við Íslendingar eigum að venjast.

Bára ásamt dönsurunum Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi í Íran.

„Danslist í Íran hefur verið opinberlega bönnuð síðan 1979 þegar íranska byltingin átti sér stað. Danslistamenn þar tala reyndar oftast um að vinna með „hreyfingar“ frekar en „dans“, sem ég hef sjálf byrjað að gera í auknum mæli því þegar maður talar um dans þá hefur fólk oft takmarkaðar hugmyndir um hvað maður sé að vinna við. Dans getur verið svo rosalega margt og listformið er mjög fjölbreytilegt. Dans í Íran fer yfirleitt fram fyrir huldum dyrum. Þegar maður vill sýna opinberlega þá þurfa verk að ganga í gegnum ritskoðun,“ segir hún. En hefur hún sjálf lent í ritskoðun á sínum verkum?

„Ég hef þrisvar sýnt opinberlega, og meðal þeirra verka er The Lover, en þá þurfti ég til dæmis að breyta titlinum á verkinu í Náttúra.“

Bára er nýkomin heim frá Íran þar sem hún frumsýndi tvö ný verk og segir lærdómsríkt að hafa kynnst menningu og listum í landinu.

- Auglýsing -

„Það er oftast uppselt á bæði dans- og leiklistarsýningar í Tehran og færri sem komast að en vilja. Listasenan sem slík er mjög áhugaverð og fer vaxandi. Í fyrra vann ég verk með tveimur írönskum dönsurum, Masoumeh Jalalieh og Alireza Mirmohammadi. Við ákváðum meðal annars að rannsaka hreyfiefni líkamans innan ríkjandi ritskoðunar og úr varð áhugavert vinnuferli sem við lærðum öll mikið af. Við vorum einmitt að frumsýna það verk í Íran í Tehran og Sari núna í Maí. Það gekk vel og við fengum góð viðbrögð hjá áhorfendum. Fréttir í fjölmiðlum um aðra heimshluta, og í rauninni alls staðar, eru einungis brot af þeim raunveruleika sem á sér stað. Ég tel mikilvægt að vera meðvituð um hversu mikið við erum öll lituð af eigin forsendum og væntinum. Það hefur verið lærdómsríkt að fá snefilþef af því hvernig það er að koma frá landi sem er stöðugt málað sem framandi í okkar Vestur-Evrópsku menningu. Ekkert er einungis svart og hvítt.“

Einbeitir sér að vinnu á listamannalaunum

Eins og áður segir hefur Bára verið búsett í Belgíu í áratug og unnið sem dansari og danshöfundur. Hún unir sér vel þar og segir starfsumhverfi fyrir dansara betra þar en á Íslandi.

„Sviðslistasenan í Belgíu er spennandi og fjölbreytileg. Þar eru mörg leikhús og listamennirnir sem starfa þar koma alls staðar að úr heiminum. Ég hef hlotið listamannalaun þar til lengri tíma, en slíkt fyrirkomulag er til dæmis ekki í boði á Íslandi. Í Belgíu fæ ég einnig greidd laun fyrir þá daga mánaðarins sem að ég er ekki þegar á launum í vinnustofum, eða við sýningar. Það er gríðarlega mikil vinna og langur tími sem fer í hugmyndavinnu, umsóknarferli og svo allt skipulagið í kringum bæði vinnustofur og sýningar. Listamannalaunin gera mér kleift að einbeita mér 100% að minni vinnu og koma mun meiru í verk en annars væri mögulegt,“ segir hún og bætir við að hún sjái ekki fyrir sér að flytja aftur til Íslands í bráð.

The Lover er sjónrænt verk þar sem hreyfingar, ljósmyndir, lýsing og tónlist tvinnast saman í heildræna upplifun.

„Í augnablikinu kemur það ekki til greina. Það er dýrt að búa á Íslandi í dag og ég veit hreinlega ekki hvernig ég ætti að fara að því að starfa við það sem ég geri ásamt því að ná endum saman í hverjum mánuði. En það er aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég held tengingunni við landið í gegnum fjölskyldu, vini, fréttir, listir og hlaðvörp. Ég elska að hlusta á íslenskt útvarp í eldhúsinu mínu úti í Brussel, en þættirnir Í ljósi sögunnar, Segðu mér og Aðförin eru í miklu uppáhaldi.“

Draumurinn að minnka vistsporið

Bára hefur afrekað margt á ferlinum þannig að það liggur beinast við að spyrja hver draumurinn sé í dag. Það stendur ekki á svörunum hjá okkar konu.

„Draumurinn minn í dag er að vinna meira staðbundið og minnka vistsporið mitt. Ég hef helgað þetta ár í rannsóknarvinnu fyrir ný verkefni, þó ég haldi einnig áfram að sýna eldri verk. Því fylgir ábyrgð að ferðast. Ég vil í rauninni ferðast minna og frekar dveljast lengur þangað sem ég fer, til dæmis með því að reyna að samtvinna sýningar með vinnustofum, kennslu og/eða fyrirlestrum. Ég er meðvituð um að annað sé ekki sjálfbært til framtíðar í stærra samhengi þar sem loftslagsbreytingar í heiminum eru staðreynd sem við þurfum að takast á við í sameiningu.“

Aðalmynd / Jolien Naeyaert
Mynd úr The Lover / Leif Firnhaber
Mynd frá Íran / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -