Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, fékk Covid-19 í mars í fyrra og þjáist enn af brengluðu bragðskyni vegna sjúkdómsins. Hann getur til að mynda ekki borðað eggjahvítur og poppkorn. Það sem verra er þá finnur hann ekki lengur mun á góðu og vondu kaffi.
Í einlægu helgarviðtali Mannlífs ræðir Róbert meðal annars um það þegar hann smitaðist. „Við Brynhildur vorum með skíðaferð í nágrenni Mývatns helgina áður en fyrstu fjöldatakmarkanir tóku gildi. Við tókum þá ákvörðun að 25 manna ferð til Mývatns stæði og fólk skyldi hafa sóttvarnaráðstafnir í huga. Þetta var löngu áður en fólk var orðið meðvitað um tveggja metra regluna og hvað það skiptir miklu máli að vera með grímu. Það kom upp smit á hótelinu sem við gistum á og af 24 í hópnum þá smituðust 19. Það var alveg ótrúlegt hvað þetta fór hratt yfir allan hópinn,“ segir Róbert.
Brynhildur smitaðist líka og segir Róbert að einkenni sín hafi verið minni en hennar. „Ég slapp vel. Ég missti strax bragð- og þefskyn. Ég var með netta hálsbólgu, höfuðverk og beinverki og var smáslenaður á 8. eða 9. degi. Ég var með mild einkenni og fékk ekki mikinn hita.
Þetta hópsmit vakti hneykslun og var eiginlega fyrsta dæmið um smitskömm á landinu. Það var sérstakt að upplifa það því ekkert okkar fór á svig við reglur. Þær höfðu verið boðaðar en höfðu ekki tekið gildi. Þegar ég lít til baka þá held ég að maður hafi ekki gert sér grein fyrir hættunni á þessum tíma; verið einum of saklaus og einfaldur. Ég var tiltölulega nýbúinn með Vasa-skíðagönguna í Svíþjóð þar sem hátt í 20 þúsund manns kepptu á gönguskíðum í einum hnapp og þótti ekki tiltökumál. Síðar hefur svo komið í ljós að Svíar tóku þetta ekki sömu tökum og aðrir.
Sjá einnig: Róbert stóð frammi fyrir dauðanum en fer nú fram fyrir VG: „Ég bað til guðs; ekki núna!“
Róbert segir að það sé sérstök lífsreynsla að hafa fengið Covid. „Það er ekki þægileg reynsla að vera með sjúkdóm sem við vitum eiginlega ekkert um og maður veit að fullt af fólki deyr úr þessum út um allan heim. Þannig að það er ekki þægileg tilfinning.
Síðan hefur það verið að mörgu leyti gagnlegt fyrir mig í starfi að geta til dæmis alltaf mætt í vinnuna af því að ég er með mótefni. Ég passa mig samt á að sótthreinsa af því að ég gæti samt borið snertismit á milli.“