Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Rofin hraðainnsigli og drukkið rafskútufólk: 149 slasaðir eftir glæfraakstur á rafskútum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Glæfraakstur, akstur undir áhrifum áfengis og vímuefna, ójafnt yfirborð gagnstíga og jafnvægisskortur ökumanna á rafskútum hérlendis er vaxandi áhyggjuefni sérfræðinga. Nýútkomin skýrsla VSÓ ráðgjafar, Rafskútur og umferðaröryggi, hlaut styrk frá Reykjavíkurborg og rannsóknarsjóði Vegagerðarinar leiðir í ljós að 149 ökumenn þurftu að leita aðhlynningar á bráðamóttöku Landsspítalans sumarið 2020.

Um 45 prósent þeirra sem leituðu á bráðamóttöku síðasta sumar voru undir 18 ára aldri en tæplega tvö þúsund rafskútur eru til útleigu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þá hafa rafskútur einnig dreift sér um landið, til bæja á landsbyggðinni að því sem kemur fram í samantekt skýrslunnar og hefur rafskútum í einkaeigu fjölgað talsvert en tölfræðin sýnir að rafskútur er að finna á um 12% reykvískra heimila í dag. Orðrétt kemur þá fram í skýrslu VSÓ að „rafskútunotendur kjósi að ferðast á hjólareinum og – stígum og orsök marga slysa á rafskútum megi rekja til yfirborðs sem ýti undir mikilvægi uppbyggingu innviða fyrir rafskútur í sveitarfélögum.“

Dauðans þörf 

Á einföldu máli merkja þessi orð aukna þörf á gerð hjólastíga eins og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar ásamt því sem bæta þarf yfirborð gangstétta. Þá er staðreyndin einnig sú að óheimilt er, samkvæmt íslenskri umferðarlöggjöf, að aka rafskútum á umferðargötum en Herdís Stoorgard, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri hjá Miðstöð slysavarna barna er gagnrýnin á almennt viðhald gangstíga hérlendis. „Göngustígar og gangstéttar hér á landi eru flestar skakkar og skældar,“ segir Herdís. „Ökumenn á rafskútum geta hafnað á tröppum eða ójöfnum á gangstíg; fólk kastast af rafhlaupahjólinu, slasast jafnvel illa í andliti og fær slæmt höfuðhögg.“ Þá segir Herdís íslenskar reglur um notkun rafhlaupahjóla byggja á undanþágu frá samevrópskri umferðarlöggjöf. „Víðsvegar um Evrópu er tvöfalda reiðhjólastíga að finna um allar borgir og þar er skilgreint hvar má aka á rafskútum og rafmagnshjólum. Slík vélknúin farartæki þurfa og eiga að halda sig á hraðari helmingnum á hjólastígnum. Þetta er vel skilgreint meðal nágrannaþjóða okkar en hér á Íslandi er þetta eitt kraðak.“

Áfengis- og vímefnaneysla

Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn umferðardeildar Lögreglunnar tekur undir orð slysavarnafulltrúans en segir ekki nóg að setja reglur og skerpa á öryggisstöðlum, fylgja þurfi settum reglum. „Það er vont að alhæfa, en þó ökumenn rafhjóla sjái vel til hægri og vinstri er ekki þar með sagt að ökumenn bifreiða sjái rafhjólin á ferð. Þar sem gönguleiðir þvera vegi eða akstursleiðir geta orðið slys.“ Þá segir Guðbrandur  áfengis- og vímuefnaneyslu ökumanna rafhlaupahjóla einnig valda að ófáum slysum. „Já, þetta er líka fíkniefna- og áfengisakstur að nóttu og um helgar. Fólk fer sér hreinlega bara að voða,“ segir lögregluþjónninn en orðin þau tekur Herdís undir og segir: „Það er talsverður fjöldi fullorðinna sem ekur á rafskútum undir áhrifum áfengis; fólk er jafnvel ölvað eða undir öðrum áhrifum og það hefur vissulega áhrif á aksturshæfni.“ Hvað má bæta og hvernig má hægja á slysatíðni vegna rafskútna? „Okkar er bara að framfylgja lögum og reglum eins og kostur er,“ svarar Guðbrandur. „En það er því miður of algengt að hraðainnsigli séu rofin og þannig fari ökumenn miklu geystar en 25 km hámarkshraði segir til um. Þá er ekki skylda að nota öryggishjálm nema upp að 16 ára aldri á hlaupahjóli og reiðhjóli. Þeir sem eiga rafskútu ættu þó að fjárfesta í góðum öryggishjálmi fyrir ferðamátann. Um það eru svo skiptar skoðanir og misjafnt meðal fólks, heyrist mér á hjólahópum og hjólafólki.“

- Auglýsing -

Hraðainnsigli rofin

Notkun öryggishjálma er samkvæmt Guðbrandi leyfisskyld hjá leiguskútum í eigu Reykjavíkurborgar en annað gildir um rafskútur í einkaeigu. Rofin hraðainnsigli á rafskútum eru þó öllu meira áhyggjuefni en löglegur hámarkshraði hérlendis er 25 km/klst. „Rafhjólin eru mörg hver framleidd til að ná 50 til 60 kílómetra hraða en samkvæmt okkar upplýsingum er því miður mjög einfalt að rjúfa innsiglin,“ útskýrir Guðbrandur. „Við höfum fengið ófáar kvartanir frá ökumönnum sem segjast hafa ekið á hámarkshraða en sjá rafskútur þjóta hjá í umferðinni. Það eitt segir að búið er að eiga við innsiglin sjálf, því samkvæmt lögum má ekki fara svona hratt.“ Samkvæmt skilgreiningu íslenskra umferðarlaga flokkast rafskútur sem reiðhjól. „Annað lítið vélknúið ökutæki sem ekki telst til léttbifhjóls og er hannað til aksturs á hraða 6 til 25 km/klst,“ hermir í íslenskri umferðarlöggjöf og segir Guðbrandur stundum snúið viðureignar, þar sem innfluttar rafskútur beri allar innsigli. „Ef innsigla þarf rafskútu, þá er tækið í mínum huga hannað til hraðari aksturs en innsiglið heimilar, en hérlendis hefur alltaf verið leyfilegt að innsigla rafskútur og þar með eru þær orðnar löglegar.“ Þessa skilgreiningu segist Guðbrandur efins um. „Ef innsigla þarf rafskútu í þessum tilgangi, passar slíkt ekki við ákvæði umferðarlaga. Skilgreining á rafskútu fellur undir vélknúin hlaupahjól, eða tvíhjóla ökutæki á einum öxli. Slíkum ökutækjum má ekki aka á akbraut.“

Það eru einmitt rofin hraðainnsigli sem að sögn slysavarnafulltrúa og umferðardeild lögreglu valda slysahættu í umferðinni. „Rafhlaupahjólin fara um gangstéttar og þar getum við tekið marktækt dæmi; þú mátt aka á 25 km/klst á leiguhjóli en sjálft rafhlaupahjólið er mjög þungt,“ segir Herdís og tekur í sama streng og Guðbrandur. „Þegar farþegi bætist svo við ökumann rafhlaupahjóls, þá ertu að margfalda þennan sama hraða, þann efnismassa sem lendir á gangandi vegfaranda, fullorðnum eða barni. Þetta er margra tonna aflþungi.“

- Auglýsing -

Rafskútur frábær ferðamáti

Hugmyndafræðin sem býr að baki leigu á rafskútum er að geta hoppað á og af eftir hentugleika og þannig má sjá rafskútur víða á gangstéttum um alla höfuðborg Íslands þessa dagana. „En ökumenn eru jafnvel á göngu í bænum og eru ekki alltaf með góðan öryggishjálm í hliðartöskunni. Það er stór hluti vandans og jafnvel slysahættu,“ svarar Herdís og ber slysavarnafulltrúanum saman við varðstjóra umferðardeildar lögreglu. „Rafskútur eru flottir fararskjótar og ferðamátinn er frábær,“ segir Herdís. „Því miður hafa þær fengið á sig misjafnt orð rétt eins og var um trampólínin hér um árið, þar sem tækin eru ranglega notuð og slysatíðni þar af leiðandi alltof há.“

Framtíðin

Íslenskar kannanir sýna að um 44% hafa prófað rafskútur en 12% þeirra sem nota rafskútur reglulega vilja aka rafskútum á umferðargötum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst eða lægri, sem þó er ekki heimilt. Rafskútur eru hvorki skráningar- né skoðunarskyldar hér á landi en Guðbrandur segir eftirlitið erfitt í löggæslulegum skilningi þeirra orða. Umferðardeild lögreglu virðist almennt á litið hlynnt fararskjótanum en brýnir rétta meðför og viðeigandi öryggisbúnað. „Við munum aldrei komast yfir allt og lögreglan getur ekki verið alls staðar og allra síst með svona hjól,“ segir Guðbrandur að lokum. „Við þurfum að meta hagsmuni að hverju sinni, oft eru börn á rafskútum og geta orðið óttaslegin við afskipti lögreglu. Þó eru rafskútur framtíðin, þessi litlu raftæki sem eru þægileg og góð til brúks ef farið er rétt með og vel gengið um en rafskútur geta þó verið stórhættulegar ef rangt er farið með.“

Skýrslu um notkun á rafskútum má lesa HÉR

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -