Í gær greindust sex með kórónuveiruna, þar af tveir á landamærunum og voru hinir fjórir allir í sóttkví.
Vísbendingar eru um að búið sé að ná tökum á stöðunni samkvæmt Rögnvaldi Ólafssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóns almannavarna. Hann segir þó of snemmt að fullyrða um slíkt.
„Þetta eru enn sem komið er jákvæðar fréttir. Fjöldinn er auðvitað ekki jákvæður en að það skuli allir vera í sóttkví eru jákvæð skilaboð. Það er mögulega vísbending um að búið sé að ná utan um þetta en það er enn of snemmt að segja til um hvað þetta þýðir fyrir lengri tíma, en sannarlega jákvætt,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Vísi.
Segir hann að þau smit sem greindust í gær hafi öll verið á höfuðborgarsvæðinu.
Sjá einnig: Starfsmaður ferðaþjónustu COVID smitaður við gosstöðvarnar
Talað hefur verið um smithættu á gossvæðunum í Geldingadal nú á síðustu dögum vegna hópmyndanna og sameiginlegra snertiflata þar. Segist Rögnvaldur sjálfur hafa farið í vettvangsferð að gosinu í gær og að þar hafi verið töluvert af fólki og margir í hópum. Hann segir fólk þó virðast vera meðvitað um að halda fjarlægð, þar sem bil var á milli hópa sem sátu í brekkunni við gosstöðvarnar.