Sunnudagur 29. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

„Rökrétt að Guðrún Hafsteinsdóttir leysi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur af hólmi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafur Arnarson segir í pistli á Hringbraut að „vart verður við margvíslegan skjálfta í Sjálfstæðisflokknum vegna skipunar í ráðherraembætti. Við myndun núverandi ríkisstjórnar fyrir tæpu ári kom verulega á óvart að gengið væri fram hjá fyrsta þingmanni Suðurkjördæmis við úthlutun ráðherrastóla. Guðrúnu Hafsteinsdóttur hafði verið lofað ráðherratign þegar hún var fengin til að bjóða sig fram í efsta sæti á lista flokksins og losa flokkinn þannig við Pál Magnússon sem hafði verið í uppreisn gegn flokksforystunni vegna þess að gengið var fram hjá honum við ráðherraskipan í upphafi síðasta kjörtímabils.“

Ólafur Arnarson.

Hann bætir við að „Guðrún Hafsteinsdóttir notaði kjördæmavikuna um daginn vel. Hún heimsótti stuðningsmenn flokksins í kjördæminu en lét ógert að nýta vikuna til að ferðast til sólarlanda eins og sumir þingmenn og ráðherrar gerðu. Heyrst hefur að Guðrún hafi fengið eindregna hvatningu sjálfstæðismanna í kjördæminu um að sækja ráðherraembættið fast.“

Ólafur nefnir að „margir trúnaðarmenn flokksins í Suðurkjördæmi eru mjög ósáttir við ástandið. Suðurkjördæmi hafði síðast ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins árin 2013 til 2016. Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir sem kom fáu í verk á sínum ráðherraferli. Þess vegna tókst Páli Magnúsyni að fella hana í prófkjöri haustið 2016, en hann var þá nýgenginn í Sjálfstæðisflokkinn. Engu að síður bar hann sigurorð af Ragnheiði Elínu með svo afgerandi hætti að hún dró sig endanlega út úr stjórnmálum en Páll leiddi lista flokksins í fimm ár, án þess að komast að sem ráðherra.“

Þá bendir Ólafur á að „í aðdraganda síðustu kosninga lagði forysta Sjálfstæðisflokksins hart að Guðrúnu Hafsteinsdóttur að gefa kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Suðurkjördæmi. Hún var hikandi en lét slag standa þegar henni var heitið ráðherraembætti yrði flokkurinn áfram í ríkisstjórn. Áður hafði henni verið boðið annað sæti á lista Viðreisnar í kjördæminu en valdi að bjóða sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn þar sem rætur hennar liggja. Því kom það mikið á óvart þegar tilkynnt var að hún ætti að koma inn í ríkisstjórnina eftir 18 mánuði í síðasta lagi. Samkvæmt því gæti það dregist fram í byrjun júní á næsta ári.“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.

Hann færir í tal að „gefið hefur verið í skyn að hún taki þá við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarsyni. Þetta þykir mörgum galin hugmynd. Jón Gunnarsson hefur staðið í stórræðum í sínu ráðuneyti frá því að hann tók við embætti og hefur engan veginn lokið við mikilvæg verkefni sem hann vinnur nú að hörðum höndum. Bent er á að dómsmál séu ekki sérsvið Guðrúnar, en hún er aftur á móti sá þingmaður sem hefur yfirburðarreynslu og þekkingu á málefnum iðnaðar. Guðrún Hafsteinsdóttir hefur verið hluthafi og forsvarsmaður iðnfyrirtækis í Hveragerði í aldarfjórðung og gegnt hlutverki formanns Samtaka iðnaðarins í sex ár og að auki setið þar í stjórn enn fleiri ár. Í raun og veru er alveg út í hött að hún skuli ekki gegna embætti iðnaðar-, háskóla- og vísindaráðherra í núverandi vinstri stjórn, úr því að Sjálfstæðisflokkurinn er í þeirri ríkisstjórn, í ljósi þeirrar miklu reynslu og þekkingar sem Guðrún býr yfir.“

Að mati Ólafs er algerlega „rökrétt að Guðrún Hafsteinsdóttir leysi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur af hólmi sem iðnaðar-háskóla- og vísindaráðherra á nýju ári. Áslaug hefur enga reynslu eða þekkingu á því sviði og hefur ekki komið miklu í verk á þeim ellefu mánuðum sem liðnir eru frá því að hún tók við embættinu. Helst er til að tína áform hennar um að koma upp sjóði til að útdeila fjármunum til samstarfs háskóla landsins í stað þess að hafa forystu um sameiningu þeirra og fækkun úr sjö í tvo. Sjóðasukk hefur aldrei átt upp á pallborðið í Sjálfstæðisflokknum, alla vega ekki hjá kjósendum þess flokks. Nú heyrist að Áslaug Arna hugleiði að bjóða sig fram til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins á komandi landsfundi.“

- Auglýsing -

Ólafur segir væntanlegt framboð Áslaugar Örnu koma á „óvart og er ekki talið líklegt til árangurs fyrir hana; getur það verið hugsað til að styrkja stöðuna gagnvart ráðherrauppstillingu flokksins á komandi mánuðum?

Beri flokkurinn ekki gæfu til að nýta krafta Guðrúnar Hafsteinsdóttur þar sem hennar styrkur liggur og eftirláta Jóni Gunnarssyni erilsamt embætti dómsmálaráðherra er óvíst að von sé á góðu fyrir hann.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -