Lögreglu barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi að grýta hús í Hlíðunum í gærkvöldi. Maðurinn vildi ekki viðurkenna að hafa kastað grjóti í fyrstu en gekkst svo við uppátækinu. Síðar um kvöldið í sama hverfi hafði lögregla afskipti af manni sem vildi ekki yfirgefa hótel. Að lokum var lítið annað í stöðunni en að handtaka manninn sem var í annarlegu ástandi.
Kom til átaka milli húsráðanda og óvelkomins aðila og var lögregla kölluð til. Þar hafði ókunnugur aðili gengið inn á heimili og neitað að fara. Maðurinn var drukkinn og réðst á húsráðanda þegar hann reyndi að vísa honum út sem varð til þess að hann hlaut skurð á enni. Var hann fluttur á bráðadeild með sjúkrabíl en gerandinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa. Í Breiðholti varð uppi fótur og fit á veitingastað þegar ölvaður maður réðst á öryggisvörð. Lögregla handtók manninn og lét hann gista bak við lás og slá. Þá sinnti lögregla öðrum minniháttar málum og umferðareftirliti.