Lögregla handtók í gærkvöldi karlmann sem hafði ruðst inn í húsnæði í Hlíðunum. Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og óskaði íbúinn eftir því að honum yrði vísað út en fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu. Sökum ástands var maðurinn látinn gista á Hverfisgötunni. Skömmu áður barst lögreglu tilkynning um að brotist hafi verið inn í bíl í sama hverfi. Brotin rúða var á bílnum og rótað hafði verið í bifreiðinni en ekki liggur fyrir hverju var stolið.
Fyrr um kvöldið handtók löregla mann í Hafnarfirði. Er maðurinn grunaður um hótanir og fleira en sá var í mjög annarlegu ástandi. Gisti hann bak við lás og slá. Síðar um kvöldið handtók lögregla annan mann í Hafnarfirði. Sá var ofurölvi og neitaði að gefa upp nafn og kennitölu. Sökum ástands var hann einnig látinn gista í fangaklefa. Starfsfólk verslunar í Kópavogi gómaði þjóf í gærkvöldi. Vettvangsskýrsla var skrifuð er lögregla mætti á vettvang. Þá var enn einn maður í annarlegu ástandi handtekinn í Árbæ. Maðurinn er grunaður um innbrot og var því látinn gista, ásamt hinum, í fangaklefa.