Áfram mælast skjálftar í grennd við Grindavík og dagurinn hefur einkennst af smáskjálftavirkni er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Frá miðnætti hafa rúmlega 50 skjálftar verið staðsettir á svæðinu, flestir undir 2 að stærð.
Frá 21. janúar hafa yfir 1300 skjálftar verið staðsettir á svæðinu, og eru þeir flestir staðsettir í SV/NA stefnu um 2 km NA af Grindavík.
Nýjasta GPS úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið um 5 cm frá 20. janúar sl og sýna gervitunglamyndir sömu þróun.
Með landrisi má búast við áframhaldandi jarðskjálftavirkni.
Næsti fundur vísindaráðs Almannavarna verður haldinn fimmtudaginn 6. febrúar þar sem farið verður yfir stöðuna við Grindavík.
Sjá einnig: Jörð kraumar í „nafla alheimsins“