Við Íslendingar erum einstaklega hrifnæm þjóð. Við erum stöðugt að búa til hetjur og afreksfólk úr sáralitlum efnivið. Bersýnilegt dæmi um slíkt er þegar jólabókaflóðið skellur á þjóðinni. Þá standa helstur páfar úr heimi gagnrýnenda á öndinni yfir hverju meistaraverkinu á fætur öðru. Stjörnum er hellt yfir höfunda af öllu tagi og meintum meistaraverkum hampað í auglýsingum og af mistækum gagnrýnendum. Reyndin er sú að umrædd meistaraverk þola fæst dóm sögunnar og sogast á haf út þegar fjaran tekur við af flóðinu. Orðið sem eftir stendur er oflof.
Aðrar meintar hetjur í nútímanum eru svokallaðir áhrifavaldar sem hafa það eitt til brunns að bera að geta smælað framan í heiminn og hampað vörumerkjum með hjálp TikTok, Snapchat eða Instagram. Innihaldsleysið er nánast algjört og þegar snappið endar blasir tómleikinn við og ekkert stendur eftir.
Fátt er göfugra en slík fórn
En við eigum raunverulegar, gegnheilar hetjur. Mannlíf valdi Hetju ársins 2021 þar sem lagt var upp með að finna þá sem ekki eru endilega frægðarmenni. Meðal þeirra sem skoruðu hæst voru Helgi Seljan fréttamaður sem staðið hefur í eldlínunni vegna Samherjamálsins og mátt þola hatursherferð og jafnvel ofsóknir svonefndra skæruliða Samherja. Katrín Björk Guðjónsdóttir, sem tekur brosandi við hverjum degi þrátt fyrir að vera bundin hjólastól eftir að hafa fengið heilablóðfall tvisvar. Guðmundur Felix Grétarsson missti báðar hendur í slysi en barðist árum saman til að fá nýjar hendur. Dugnaður hans og lífsgleði við að venjast nýju höndunum hefur vakið þjóðarathygli og lýsir sannri hetjulund. Hanna Vilhjálmsdóttir vakti athygli fyrir að hafa kveikt þá elda sem ollu því að MeToo-bylgjan reis hátt. Rúna Sif Rafnsdóttir, sem bjargaði lífi átta mánaða drengs, Elds Elís, á ögurstundu þegar hún gaf honum hluta af lifur sem var honum lífsnauðsynleg. Allt þetta fólk verðskuldar að vera útnefnt sem hetjur ársins.
Niðurstaða lesenda Mannlífs og dómnefndar fjölmiðilsins var samdóma. Rúna Sif, sem bjargaði lífi lítils barns, verðskuldar þennan titil fyrir árið 2021. Fátt er göfugra en sú fórn sem hún færði til að bjarga lífi. Mannlíf er stolt af því vali lesenda sinna sem lýsir gildismati sem gengur þvert á innihaldsleysið sem gjarnan tröllríður samtímanum. Rúna Sif er sönn hetja.