Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

RuPaul og ég: Hvernig dragdrottning breytti gæðastundum með dóttur minni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á meðan flestir kúra um þessar mundir uppi í sófa  við að horfa á Netflix-þætti á borð við Titans, The Witcher, Money Heist eða nýju Tiger King-þáttaröðina, vel ég mér allt öðruvísi sjónvarpsefni til að kúra yfir. Ég er fastur yfir raunveruleikaþáttum um dragdrottningar.

Ég og 11 ára dóttir mín duttum inn á RuPaul´s Drag Race fyrr á árinu og getum bara ekki hætt. Og skyldi engan undra. Þættirnir eru vissulega raunveruleikaþættir sem fylgja týpískri formúlu þar sem þátttakendur keppa um hylli dómara og svo heltist einn og einn úr lestinni, en þeir eru bara svo miklu meira en það.

Til að byrja með er þáttarstjórnandinn RuPaul drepfyndinn en hann gerir ekki einungis grín að sjálfum sér og þættinum heldur er hann orðheppinn með eindæmum. Óteljandi frasar hafa fæðst í þáttunum sem við feðginin notum óspart. Frasar á borð við „hallelu!“, „All Tea, all shade“ „Miss Vaaaanjie… Miss Vaaaaaaanjie… Miss Vaaaaaaaanjie“ og svo langlokan „If You Can’t Love Yourself, How The Hell Are You Going To Love Somebody Else? Can I Get An Amen?“

En húmorinn er ekki það eina sem gerir RuPaul´s Drag Race-þættina svo góða því þeir eru mun dýpri en þeir virðast vera og lúmsk samfélagsádeila kraumar rétt undir yfirborðinu. Fyrir utan það hversu góða innsýn þátturinn veitir manni í heim þessa skemmtilega listforms þá gerist það í hverri einustu seríu, sem verða bráðum 14 talsins, að samkynhneigðir karlmenn, sem keppa um að verða næsta súperstjarna dragheimsins, opna sig um erfiðleika sem litað hafa líf þeirra í „þjóðfélagi sem hatar þá,“ svo ég vitni í Bubba Morthens. Ég veit að amerískir raunveruleikaþættir ganga að miklu leyti út á grát og gnístran tanna en þátttakendur RuPaul gráta engum krókódílstárum. Þar liggur raunveruleg sorg undir, alvöru áföll, útskúfun og bæling á hvötum. Þetta eru ekki meðlimir Kardashian-fjölskyldunnar að snýta sér í 100 dollara seðla af því að könguló slapp inn í villuna þeirra. Nei, þetta eru oft strákar sem hafa verið útskúfaðir, stundum af fjölskyldunni, oft af samfélaginu en hafa fundið nýja fjölskyldu í dragheiminum.

RuPaul er stundum kallaður Mama Ru af þátttakendum því hann er vanur að taka utan um þá sem brotna saman og hjálpa þeim að komast yfir vanlíðanina og býður þá oft velkomna í fjölskyldu sína.

Þátturinn er tilvalinn fjölskylduþáttur þrátt fyrir að vera mjög tvíræður (krakkar fatta það ekki og við fullorðnu hlæjum inni í okkur) því hvað er betra ef maður vill ala upp fordómalaus og samúðarfull börn en að horfa á þátt um hæðir og lægðir dragdrottninga? Fátt að mínu mati.

- Auglýsing -

Dóttir mín, Valería Dögg, elskar þættina meira en ég. Hún er það mikill aðdáandi að vídeókvöldin okkar um helgar hafa breyst í RuPaul-kvöld og hún ætlar að nefna kettling sem hún á von á að fá í höfuðið á uppáhaldsdragdrottningunni sinni, Alaska. Alaska heitir reyndar fullu nafni Alaska Thunderfuck en kettlingurinn mun bara heita Alaska (en með amerískum hreimi). Ef hann reyndist fress myndi hann hljóta nafnið Bob the Dragqueen eftir öðru eftirlæti hennar.

RuPaul Andre Charles

Sumir hafa kannski tekið eftir því að ég nota persónufornafnið hans þegar ég tala um RuPaul en sjálfum er honum sama. „You can call me he. You can call me she. You can call me Regis and Kathie Lee; I don’t care!“

Til gamans má geta þess í lokin að samkvæmt þessari síðu er dragnafnið mitt Mrs. Backroll Beaverhousen.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -