„Það er mjög gott jafnvægi og mikill agi í íslenska liðinu,“ er haft eftir Eduard Koksharov, þjálfara rússneska landsliðsins í handknattleik á heimasíðu rússneska handknattleikssambandsins, fyrir leik Íslands og Rússlands á EM í dag.
Þjálfarinn segir að í íslenska liðinu séu aðeins tveir til þrír leikmenn sem eitthvað kveði að. „Hinir spila bara með, án þess að bæta miklu við.“
Á vefsíðunni er einnig rætt við gömlu kempuna Sergey Gorbok, sem er í landsliði Rússlands og lék undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hjá Rhein Neckar Löwen í Þýskalandi. Hann segir að sigur Íslands á Danmörku hafi ekki komið sér á óvart. „Þessi sigur er ávöxtur vinnu Guðmundar, sem hefur verið með liðið í tæp tvö ár. Hann þekkir Dani vel og gerði þá að Ólympíumeisturum. Ég var svo heppinn að vinna með honum hjá Löwen og veit að hann er mikill sérfræðingur,“ er haft eftir Gorbok.
Gorbok segir aðspurður að Aron Pálmarsson sé öflugasti leikmaður liðsins en nefnir líka Guðjón Val Sigurðsson og Alexander Petersson. „Það er erfitt að ímynda sér íslenska landsliðið án þessara manna, þó Alexander hafi ekki verið í hópnum í þrjú ár. Hann ákvað að gefa kost á sér á nýjan leik eftir að sonur hans var valinn í yngra landslið Íslands í fótbolta.“
Rússar töpuðu naumlega gegn Ungverjum í fyrsta leik sínum á EM. Tap gegn Íslandi í dag þýðir að þeir eru úr leik. Rússar munu því leggja allt í sölurnar.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands, hefur sagt í viðtölum fyrir leikinn að Rússar séu stórhættulegur andstæðingur. Þeir séu hávaxnir og geri miklar árásir á varnir andstæðinganna. Þeir tefla hins vegar fram ungu liði.
Leikurinn byrjar í dag klukkan 17.15