Hátíðin Mýrarboltinn verður haldin í sextánda sinn nú um verslunarmannahelgina en hápunkturinn er að venju sjálf Mýrarboltakeppnin. Charlotta Rós Sigmundsdóttir, kokkur á Vagninum, er Drullusokkur Mýrarboltans 2019.
„Hugmyndin kviknaði árið 2004 eftir að tveir ungir menn fóru saman til Finnlands og spiluðu mýrarbolta og var í kjölfarið ákveðið að byrja með svona mót hér fyrir vestan,“ segir Charlotta þegar hún er spurð út í upphafið en í Finnlandi kallast keppnin HM í mýrarbolta.
„Hátíðin hefur þróast í gegnum árin frá því að vera bara keppnin yfir í þétta skemmtidagskrá samhliða mótinu sjálfu. Til ársins 2017 var hátíðin alltaf haldin á Ísafirði en þá færðum við mótið úr Tunguskógi til Bolungarvíkur til að auðvelda mótshald og skipulagningu. Með því þurfum við ekki að hafa umferðarstjórnun og sleppum við að útbúa þvottasvæði fyrir keppendur á staðnum þar sem Musteri vatns og vellíðunar, sundlaugin í Bolungarvík, er næsta hús við nýja mótssvæðið. Einnig er nú boðið upp á krakkamót þessa sömu helgi en íþróttafélagið Vestri mun standa fyrir barna- og unglingamóti á sunnudeginum. Allir aldurshópar, frá sex ára og upp úr, geta því tekið þátt í ár.“
Hitað upp með bjórjóga
Að auki verður margt um að vera á Mýrarboltanum í ár. Högni Egilsson verður með styrktartónleika í Hólskirkju í Bolungarvík klukkan 18 á föstudaginn og í kjölfarið hefst formleg dagskrá.
„Við ætlum að eiga skemmtilegar stundir í Einarshúsinu þar sem tónlistarfólk „djammar“ saman – böndin spila sitt efni til skiptis án formlegs skipulags. Við tókum þá stefnu að gefa ungu og efnilegu tónlistarfólki á Vestfjörðum tækifæri til að koma sér á framfæri ásamt því sem er þekktara og mynda þannig góð augnabilk og aukin tengsl. Mótsdaginn byrjum við á bjórjóga en það er mikilvægt að keppendur séu vel vaknaðir fyrir drulluna. Mótið sjálft hefst svo klukkan 13 á laugardeginum, veitingasala verður á svæðinu, varningur til sölu og lifandi tónlist. Ólýsanleg stemmning myndast alltaf í kringum mótið. Eftir mót verður Musteri vatns og vellíðunar með sundlaugarpartí þar sem DJ-græjurnar verða rifnar fram og gleðin heldur áfram. Svo eru að sjálfsögðu tónleikar og ball í félagsheimilinu á laugardag og sunnudag.“
Skemmtileg skyndiákvörðun
Charlotta hefur sjálf tekið þátt í Mýrarboltakeppninni og segir upplifunina ólýsanlega. „Já, heldur betur. Ég kom fyrst vestur um verslunarmannarhelgina 2017 til að vera hjá bróður mínum sem var nýfluttur til Bolungarvíkur. Ég lagði upp með að ef ég kæmi vestur myndi hann lofa að koma með mér í drulluna. Við fórum niður á Einarshús og skipaði Thelma, fyrrverandi Drullusokkur, mig fyrirliða Skrapliðs A á staðnum. Daginn eftir hittum við liðsfélaga okkar, þrjá vinahópa sem voru frá Dalvík, Akureyri og Reykjavík. Við náðum strax vel saman en það myndast einhvers konar tafarlaus vinátta hjá fólki á þessari hátíð. Við fórum í drulluna vopnuð „jager“ og teipi, til að týna ekki skónum okkar, og unnum mótið.
„Þá þarf sá sem fær bleika spjaldið að kyssa á bágtið á þeim leikmanni sem hann meiddi.“
Þetta ein sú skemmtilegasta skyndiákvörðun sem við systkinin höfum tekið saman. Stemningin var ómetanleg, mikið rökrætt um hver fengi bikarinn og góð vinátta myndaðist í kjölfarið,“ segir Charlotta sem svarar því aðspurð að sem betur fer hafi aldrei orðið alvarleg slys í keppninni.
„Sár á hné eða rispur á hendi, síðan þurfum við reglulega að skola drullu úr augum. Í Mýrarbolta eru dómarar með bleikt spjald sem þeir mega nota ef þeim finnst leikmenn ganga mjög harkalega fram. Þá þarf sá sem fær bleika spjaldið að kyssa á bágtið á þeim leikmanni sem hann meiddi.“
Umhverfisvæn útihátíð
Charlotta segir að aðstandendur Mýrarboltans séu að taka fyrstu skrefin að umhverfisvænni útihátíð.
„Við vinnum það með Bláa hernum með móttóið „minna rusl, minni drulla“ að leiðarljósi. Blái herinn hefur staðið fyrir strandhreinsunum og unnið mörg afrek í umhverfismálum á Íslandi. Birna Reynisdóttir hefur komið að skipulagi hátíðarnar til að leiðbeina okkur og öllum þeim fyrirtækjum sem koma að hátíðinni um hvernig hægt sé að huga betur að umhverfinu og minnka almennt óþarfa neyslu. Birna verður á hátíðinni, öll í drullu, skælbrosandi og mun fræða gesti og selja umhverfisvænan varning,“ segir Charlotta að lokum.
Myndir / Aðsendar