Laugardagur 4. janúar, 2025
-5.2 C
Reykjavik

Sá yðar sem siðlaus er …

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Davíð Þór Jónsson

Ég minnist þess ekki að lykilhugtök úr guðfræði hafi áður verið jafnáberandi í þjóðfélagsumræðunni og þau eru nú. Orð á borð við „iðrun“, „fyrirgefning“ og „synd(leysi)“ fara hátt þessa dagana. Auðvitað hefur hver og einn rétt til að skilja þau á sinn hátt og það er fagnaðarefni að almenningur hugleiði þau. En þá er kannski ekki heldur úr vegi að impra aðeins á guðfræðilegu samhengi þess hvernig þau standa í trúararfinum.

Það að vilja halda misgjörðum til streitu og láta gerendur sæta ábyrgð hefur verið úthrópað sem ókristileg langrækni og heift. Sú túlkun byggir á mjög yfirborðskenndum skilningi á fyrirgefningunni. Þegar dæmisögur Jesú eru skoðaðar kemur nefnilega í ljós að fyrirgefningin er alltaf þrælskilyrt við játningu, iðrun og yfirbót. Án þessa getur ekki verið um neina fyrirgefningu að ræða. Ósannsögli, yfirklór og fullyrðingar um að aðrir hafi gerst sekir um miklu svakalegri hluti eru ekki líkleg til að afla viðkomandi fyrirgefningar. Þegar svo ber við er miklu líklegra að dæmisagan endi á tali um „ystu myrkur“ heldur en fyrirgefningu og sátt.

Sömuleiðis var setningin „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini“ notuð til að verja menn gagnrýni. Þessi orð lætur Jesús falla til að verja forsmáða, valdalausa og varnarlausa konu fyrir grjótkasti vel stæðra karla úr stétt góðborgara. Að heyra þessum orðum, sem sögð voru í þágu undirokaðra og réttlausra sem enga hönd gátu borið fyrir höfuð sér, beitt til að verja rétt vel stæðra karla úr stétt góðborgara til að kasta grjóti í þá sem minna mega sín, hlýtur að nísta þá inn að beini, sem gert hafa Krist að leiðtoga lífs síns og kynnt sér að einhverju leyti hvað í því felst. Þetta er næstum því jafnósvífið og að snúa Faðirvorinu upp á andskotann.

Áhugavert er að skoða hvað í hugtakinu „syndleysi“ felst í huga þess sem svona talar. Er sá syndlaus sem ekki hæðist að fötluðu baráttufólki og gerir grín að fötlun þess? Er sá syndlaus sem ekki hjólar kerfisbundið með níði og svívirðingum í hvern þjóðfélagshópinn af öðrum, koll af kolli, sem þurft hefur að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis vel stæðum körlum úr stétt góðborgara gagnvart stofnunum samfélagsins? Er sá syndlaus sem ekki stærir sig af mútuþægni í opinberu embætti, hvort sem hann segir satt eða ósatt? Er sá syndlaus sem gengst við orðum sínum í stað þess að eigna þau umhverfishljóðum; stólaískri og reiðhjólabremsum?

Sé þetta skilgreiningin á „syndleysi“ og sá hluti þjóðarinnar, sem hún á við um, yrði nú við þeirri áskorun mælandans að kasta grjóti í hann er hætt við að grjóthrúgan, sem græfi hann, myndi skyggja á Esjuna.

- Auglýsing -

Það er nefnilega þannig að þótt enginn sé syndlaus þá er fólk upp til hópa ekki siðlaust.

Höfundur er sóknarprestur í Laugarneskirkju.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -