Katrín Baldursdóttir oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður ber það ekki með sér að hafa eitt sinn háð harða og grimmilega baráttu við dauðann.
„Ég hef öðlast gott og fallegt líf á undangengnum árum; ég er full af þakklæti og auðmýkt og nú er komið að mér að berjast fyrir aðra. Ég er með mikla réttlætiskennd og öðlast einhvern ofurkraft þegar kemur að baráttunni fyrir þá sem brotið er á dag frá degi með ofbeldi og kúgun.“
Ekki er annað hægt að segja en að Katrín hafi notið velgengni í lífinu, þrátt fyrir mikil veikindi og hræðilega lífsreynslu.
„Ég hef haft tækifæri til að stunda það nám sem mig hefur langað til og hef fengið að starfa við það sem mér finnst skemmtilegt og mér hefur alltaf gengið mjög vel í skóla; Þar var mitt athvarf; þar fékk ég alltaf mikla hvatningu og uppörvun, enda er ég búin að vera í skóla nánast allt mitt líf. Ekki til þess að verða rík, heldur til að njóta þeirra forréttinda að gera það sem mér finnst skemmtilegt,“ segir Katrín, sem lauk stúdentsprófi frá MH og fór eftir útskrift í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands,“ og bætir við:
„Ég er á því stjórnmálaáhugi minn sé í genunum, en afi minn, Óskar Jónsson frá Vík í Mýrdal, var þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Vestur-Skaftafellssýslu. Þá var pabbi minn, Baldur Óskarsson, atvinnupólitíkus og lengi framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins. Mamma mín, Hrafnhildur Guðmundsdóttir leikkona og hjúkrunarfræðingur, er líka mjög pólitísk og segja má að nánast öll umræðan á heimilinu hafi snúist um stjórnmál.“
Á fyrstu árum Katrínar ólst hún „reyndar upp hjá afa og ömmu hér í Reykjavík, en þar var líka mikið talað um þjóðmál.“
Eftir að hafa lokið námi sínu í stjórnmálafræði við H.Í. „fæddist sú hugmynd hjá mér að verða blaðamaður; ég upplifði sterka þörf til að verða fulltrúi fjórða valdsins gagnvart almenningi; að upplýsa fólk um hvernig þjóðfélagið virkar í raun og veru og hvernig kaupin gerast á eyrinni. Í framhaldi af því ákvað ég, ásamt vinkonu minni Jenný Axelsdóttur, að gefa út blað, sem ég held að hafi verið fyrsta fríblað á Íslandi. Það hét NÚ“
Katrín byrjaði á „fréttastofu RÚV í sumarafleysingum, og ári seinna í afleysingum á Þjóðviljanum sáluga.
Hún segir að peningar hafi aldrei skipt hana mig máli:
„Mér leiðast þeir, en þarf að sjálfsögðu að eiga í mig á á. Svo við Jenný seldum NÚ og ég réð mig til starfa sem blaðamaður á DV, og það var skemmtilegt.“
Þá hófst tuttugu ára ferill Katrínar „sem blaðamaður við hina ýmsu fjölmiðla, en ég hætti síðan sem fjölmiðlamaður í fullu starfi eftir að hafa unnið á Stöð 2 og Bylgjunni í fimm ár sem fréttamaður, þá var ég þrjátíu og níu ára gömul. Og það endaði illa; með algjöru skipsbroti. Ég bara hrundi, en í dag heitir það kulnun. Starfinu fylgdi mikil streita enda var sífellt verið að hagræða, reka fólk og krefjast meiri afkasta af hverjum og einum. Þarna hætti blaðamennska að vera fagið sem ég ætlaði að stunda og fannst svo eftirsóknarvert. Þetta var árið 1990 þegar nýfrjálshyggjan hafði rutt sér til rúms í íslenskt efnahagskerfi. Aðalatriði hjá eigendum var hagnaður og arður. Allt þetta manneskjulega hvarf og sem og möguleikinn til að stunda alvöru blaðamennsku og rannsóknir; það mátti ekki rugga bátnum eða hamla þeim ríku í að safna meiri auð.“
Auk þess var ég í mjög erfiðu hjónabandi – var haldinn fullkomnunaráráttu og var þessi „ofurkona“ sem þá var kallað. Einn daginn vaknaði ég svo kvíðinn að ég var stjörf; gat ekkert gert og alls ekki farið í vinnuna. Þá hafði ég hundsað ýmis líkamleg einkenni sem voru farin að láta á sér kræla og ég hafði lítið sem ekkert sofið í heila þrjá mánuði. Þarna var ég „gránduð“ eins og sagt er og gat ekki meir. Ég er svo kappsöm að ég fór allt of snemma að vinna aftur og það sáu allir að ég var enn þá veik.“
En „í samræmi við nýja mannfjandsamlega stefnu í starfsmannamálum, kallaði Páll Magnússon þáverandi fréttastjóri mig á teppið og rak mig; gaf mér ekki einu sinni möguleika á að fara í launalaust leyfi til að jafna mig. Samstarfsmönnum mínum fannst þetta ansi gróft að reka veika manneskju. Á þessum tíma vissi ég ekkert um réttindi mín og varð þess vegna af ýmsu sem ég hefði átt rétt á. Það var þá sem ég ákvað að ég myndi einhvern tíma í framtíðinni hella mér í réttindabaráttu fyrir launafólk í landinu.“
Segja má að allt hafi hrunið í lífi Katrínar á sama tíma.
„Vinnan fór, hjónabandið fór og heilsan fór. Ég átti tvö ung börn þegar þarna er komið við sögu, árið 1998. Það er nú ákveðið afrek að fara frá því að vera í þotuliðinu á Íslandi og í að vera atvinnulaus, fráskilinn, fátæk og fárveik með tvö börn. Allt á nokkrum mánuðum,” segir Katrín.
„Þarna kynnist ég því hvernig það er að vera fátæk og veik og jafnframt með sífelldan afkomuótta; það er hryllingur.“
Í dag er Katrín í Sósíalistaflokknum „til að berjast fyrir fólk sem þarf að upplifa sömu eða svipaða hluti og ég gerði á sínum tíma; ég hafði ekki efni á að senda börnin í tómstundir og reyndi að betla af ættfólki til að þetta myndi bitna sem minnst á börnunum. En auðvitað bitnaði allt þetta ástand á börnunum. Alls konar togstreita – vandræði – blankheit, og ég í mjög slæmu ástandi; var farin að drekka allt of mikið, því það var svo þægilegt að slökkva á vanlíðan með því að fá sér í glas.“
En Katrínu var ekki ætlað að bugast; hún reif sig upp og hóf nám í kennslufræði í H.Í. og það reyndist henni farsælt.
„Ég fékk gott starf sem kennslustjóri í nýrri braut, upplýsinga- og fjölmiðlabraut við Fjölbrautaskólann við Ármúla; þetta var geggjað og ég hannaði þessa braut með nemendum mínum, en þetta er kennsluaðferð sem heitir „Learning by doing“ og það var dálítið skemmtilegt að oft kunnu nemendurnir mikla meira en ég.“
En því miður fyrir Katrínu hætti hún ekki að halla sér að flöskunni, og svo þegar ekki fékkst fjármagn til að nemendur gætu lokið námi á brautinni, þá var fjandinn laus. Ég mátti alls ekki við þessu og missti alveg tökin; var orðinn bullandi alkóhólisti.“
Og ekki er öll sagan sögð: Aftur hrundi allt hjá Katrínu. Börnin fluttu frá henni, Baldur Eiríksson þá fimmtán ára fór til pabba síns og Lovísa Eiríksdóttir sem var sautján ára fór að búa sjálf.
„Ég sagði bara við þau að ég gæti ekki sinnt þeim. Og þau fóru og ég fór að drekka ofboðslega illa og missti bæði andlega og líkamlega heilsu. Þvældist á milli stofnana og meðferðarheimila í heil þrjú ár. Ég hef margoft Þurft að leggjast inn á Landsspítalann og fjórum sinnum með sjúkrabíl.“
Svartnættið varð algjört og Katrín sá enga aðra leið á þessu tímabili en þá að „taka eigið líf. Og það munaði nánast engu. En þá gerðist það stórundarlega, að það var eins og kippt væri í mig. Mér var ekki ætlað að fara þarna.“
Katrín var „orðinn svo veik þarna undir restina að fólk hélt að ég væri alveg farin. Undir það síðasta var ekkert eftir. Ég hríðskalf og gat varla hreyft mig; gat ekki skrifað; gat ekki hugsað; gat ekkert. Ég sat í einhverju herbergi á Landsspítalanum og horfði tómum augum á hvítan vegginn og hugsaði að þetta væri búið spil.
Eftir þetta hófst upprisan í lífi Katrínar. Hún hellti sér af krafti í AA og þurfti þá að horfast í augu við það sem hún hafði flúið allt sitt líf: Áföllin.
Ég varð fyrir kynferðisofbeldi aðeins fimm ára gömul og var mjög vansælt barn. Afi og amma dýrkuðu mig og vildu allt fyrir mig gera, og ég skildi ekki í æsku af hverju mér leið svona illa. Ég uppgötvaði ekki fyrr en upp úr þrítugu hvað hafði gerst. Þetta er svakalegt. Að beita börn kynferðislegu ofbeldi er einhver alvarlegasti glæpur sem hægt er að fremja. Það verður að gera stórátak í að vernda börn, konur og menn fyrir ofbeldi. Ég upplifði ofbeldi líka seinna á ævinni og ég sá það eftir á að ég kunni engin mörk. Síðan var sonur minn nánast dáinn í höndunum á mér aðeins tveggja ára gamall og ég hafði heldur ekki unnið úr því áfalli.“
Katrín skrifaði sig frá þessu með því að gefa út ljóðabók sem heitir „Þak hamingjunnar“ og fjallar um þessa erfiðu reynslu hennar og við tók þrotlaust uppbyggingarstarf hjá henni, í þremur tólf spora samtökum; sálgreiningu og líkamlegri uppbyggingu.
En svo fór Katrín „þangað sem ég vissi að ég myndi njóta mín. Aftur í Háskóla Íslands og lauk þar mastersgráðu í atvinnulífsfræðum. Ritgerðin mín fjallað um verkalýðshreyfinguna, nema hvað. BA ritgerðin mín í stjórnmálafræðinni fjallar um Stjórn hinna vinnandi stétta, sem var við völd 1934 til 1938, þannig að það er nokkuð ljóst hvar hjarta mitt slær.“
Katrín segist einfaldlega „vera gangandi kraftaverk. Þetta átti ekki að vera hægt. Ég er sátt í eigin skinni, lífsglöð og kát. Það hjálpar mér einnig hvað ég er hugrökk og til í að takast á við krefjandi verkefni. Ég er ákveðin en tekst nokkuð vel að vinna með fólki og læt aldrei karlrembur kveða mig í kútinn. Ég nýt mín í flokknum og er að vinna með frjóu, skemmtilegu og kláru fólki. Ég verð að minnast sérstaklega á Gunnar Smára Egilsson, því öðrum eins dugnaðarforki hef ég aldrei á ævinni kynnst, og hef ég þó starfað með þeim mörgum. Það verður fengur af honum á Alþingi.“
Katrín segir að hún muni gera allt sem í hennar valdi stendur til að láta „gott af mér leiða svo allir geti lifað mannsæmandi lífi. Það er ábyrg hagstjórn,“ segir Katrín sem hlakkar til kosningabaráttunnar sem fram undan er:
„Ég er bjartsýn á að okkur í Sósíalistanum gangi vel. Við sláum annan og mun manneskjulegri tón en aðrir flokkar og viljum rífa alþýðu Íslands til vegs og virðingar, eins og hún á skilið.“