Karlmaður á áttræðisaldri hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir að bera sig fyrir framan börn. Maðurinn hefur þrisvar sinnum áður verið dæmdur fyrir brot af svipuðum toga.
Karlmaðurinn er sagður hafa berað sig minnsta kosti fimm sinnum yfir árs tímabil. Karlmaðurinn var búsettur nálægt leiksvæði í Grafarvogi og beindust öll brotin gegn drengjum. Brot mannsins hafi haft mikil áhrif á börnin en sá yngsti var átta ára gamall.
Þrátt fyrir ítrekaðar heimsóknir lögreglu hélt sá ákærði áfram að bera sig. Leikvöllurinn við hús mannsins hafi verið kallaður „perraróló“.
Eitt skipti var lögregla vitni að manninum berum að neðan út í glugga. Maðurinn hafi afsakað sig við lögreglu og sagst vera haldinn sýniþörf.
Kemur fram í dómnum að börnin hafi glímt við kvíða og spennu í kjölfar brota mannsins. Þá hafi börnin mörg hver orðið svo hrædd að þau treystu sér ekki til þess að ganga framhjá leikvellinum.
Maðurinn var ekki talinn ósakhæfur og var gert að greiða hverju barni 250.000 krónur í skaðabætur.