Guðmundur Franklín Jónsson, forsetaframbjóðandi, fer þess á leit við íslenskan almenning að hann leggi pening í kosningabaráttu sína og sakar Elizu Reid um óheilindi með því að ýta framboði eiginmannsins áfram í gegnum starf sitt hjá Íslandsstofu.
„Það væri rosalega gott ef einhverjir sæu sér aflögu fært að leggja til einhverjar krónur, það hjálpar,“ sagði Guðmundur Franklín Jónsson í beinni á Facebook-síðu rétt í þessu. Forsetaframbjóðandinn er á hringferð um landið að kynna framboð sitt og var skammt frá Akranesi þegar hann biðlaði til almennings um að leggja fé í kosningabaráttu sína. Peningana segist Guðmundur ætla að nota í gerð auglýsinga fyrir framboð sitt.
Guðmundur líkti kosningabaráttu þeirra Guðna Th. Jóhannessonar forseta við baráttuna á milli Davíðs og Golíats. „Guðni er vel fjármagnaður, með fimm kosningamaskínur á bakvið sig, telst okkur. Hann segist ekki ætla að eyða peningum í framboð sitt sem er ekki alveg rétt. Það kostar að fara á milli staða, til dæmis.“
Þá sakaði Guðmundur Elizu Reid forsetafrú um að misnota sér aðstöðu sína. „Guðni leikur í auglýsingu hjá Íslandsstofu. Konan hans er að auglýsa landið hjá Íslandsstofu. Þessar auglýsingar er verið að birta í sjónvarpinu mjög oft þannig að hann er að fá fríar auglýsingar. Þetta eru þau að gera og þessu þurfum við að svara með því að gera auglýsingar,“ bendir hann á og bætir við að af þeim sökum væri yndislegt ef íslenskur almenningur gæti lagt fé í kosningabaráttu hans.