Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Sáluhjálparinn og grínarinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bræðurnir Pétur Jóhann Sigfússon og Steinn Jónsson hafa valið sér ólíkan starfsvettvang en þó má segja að þeir vinni báðir við það sama; að hjálpa fólki að takast á við lífið. Steinn er móttökuráðgjafi hjá Píeta-samtökunum, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur og eftirlifendur, og Pétur Jóhann léttir fólki lífið með gríni, eins og allir þekkja. Þeir segjast vera nánir og Pétur Jóhann segir Stein vera sáluhjálpara að upplagi en Steinn hins vegar þarf ekki annað en sjá andlitið á bróður sínum til að komast í betra skap.

Pétur Jóhann er sex árum eldri en Steinn og segist hafa reynt að passa hann þegar þeir voru yngri. „Ég gerði heiðarlegar tilraunir til þess að passa hann,“ segir hann. „En það var það mikill aldursmunur á okkur að mér fannst hann eiginlega meira fyrir en eitthvað annað á þessum árum. En þegar við urðum eldri náðum við að tengjast.“
„Nú ertu að sykurhúða æskuna allrosalega,“ grípur Steinn fram í. „Já, ég ætla nú ekkert að fara of djúpt í saumana á þessu,“ svarar Pétur Jóhann og svo bresta þeir báðir í skellihlátur. Það er greinilegt að þeir eru vanir orðahnippingum og hafa báðir jafngaman af.

Milli heims og helju

Bræðurnir hafa farið ólíkar leiðir í lífinu, Steinn vann sem þjónustustjóri gæslusviðs Securitas í fjórtán ár og notaði allar frístundir til að aka um á mótorhjóli en Pétur hellti sér ungur út í grínið. „Áhugamál okkar eru eins ólík og hugsast getur,“ viðurkennir Steinn. „En á síðustu árum höfum við sameinast í stangveiði sem við höfum báðir áhuga á.“

Í júlí 2015 lenti Steinn í alvarlegu mótorhjólaslysi sem varð til þess að líf hans gjörbreyttist. Hann lá milli heims og helju í fimm daga með tuttugu bein í líkamanum brotin og slitna vöðva og sinar.

„Það stóð um tíma til að aflima mig, en ég er nú með alla limi enn þá,“ segir hann.

„Ég er líka svo þrjóskur að eðlisfari að ég var farinn að vinna aftur hjá Securitas í október 2015 þótt ég væri á hækjum. En það kom í bakið á mér seinna og ég þurfti að minnka vinnuna niður í fimmtíu prósent.“

Steinn hafði alltaf átt sér þann draum að fara erlendis og hjálpa fólki sem ætti í erfiðleikum og eftir slysið fór hann að velta því alvarlega fyrir sér að láta þann draum rætast. Hann hóf nám í Ráðgjafaskólanum í fyrra og skipti í framhaldi af því algjörlega um starfsvettvang.

- Auglýsing -

„Ég sá auglýsingu frá Kára Eyþórssyni sem rekur Ráðgjafaskólann, hringdi í hann og hann benti mér á að það væri hægt að hjálpa alveg nóg hérna heima. Það var eiginlega það sem gerði það að verkum að ég fór í skólann og fór í framhaldinu að vinna hjá Píeta-samtökunum.“

Málefni sem stendur okkur nærri

Meðal þeirrar þjónustu sem Píeta-samtökin bjóða upp á eru fimmtán ókeypis meðferðartímar hjá þverfaglegu teymi, sem í eru félagsfræðingur, sálfræðingur og geðhjúkrunarfræðingur fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum og fimm ókeypis sálfræðitímar fyrir aðstandendur þeirra. Það þarf að hringja í síma samtakanna og panta tíma og eitt af hlutverkum Steins er að svara símtölum frá fólki og meta hvort þjónustan sem Píeta-samtökin bjóða upp á henti viðkomandi manneskju. Í framhaldinu tekur hann svo á móti þeim sem samtökin aðstoða og tengir þá við sérfæðingana sem sjá um meðferðina.

En hvað um persónulega reynslu, hafa þeir bræður einhvern tíma glímt við slíka erfiðleika eða hugsanir um sjálfsvíg?

„Nei, en þetta stendur okkur nærri,“ segir Steinn. „Það hafa tveir úr ættinni bundið enda á eigið líf og svo átti ég mjög góðan vin sem gerði slíkt hið sama.“

- Auglýsing -

En þú Pétur? Hefur þú alltaf verið svona ofurhress?

„Ég held ég sé nú bara eins og allflestir með það,“ svarar Pétur Jóhann. „Maður er mishress, en vinnunnar minnar vegna þá verð ég oftast að vera bara ofurhress, alla vega út á við. Það er heldur ekkert erfitt fyrir mig. Ég nýt þeirra forréttinda að vera í kringum skemmtilegt fólk alla daga í öllu sem ég er að gera. En ég segi samt eins og Steini bróðir að þetta stendur manni nærri. Ég og konan mín eigum tvær stelpur sem eru nýkomnar af unglingsskeiðinu og maður hefur séð ýmislegt og fengið að kynnast ýmsu í gegnum þær. Þannig að þetta málefni stendur manni nærri.“

Þakklætið næring

Steinn valdi sér þetta starf vegna löngunar til að hjálpa fólki til betra lífs, var einhver svipuð ástæða fyrir því að þú valdir grínið?

„Í upphafi var það nú ekki drifkrafturinn, nei,“ viðurkennir Pétur Jóhann. „Ég fann bara að þetta var eitthvað sem ég varð að prófa og byrjaði í uppistandi. Ég var sannfærður um að ég hefði eitthvað fram að færa á þessum vettvangi. Það eru náttúrlega mörg ár liðin síðan og ég búinn að gera svo margt að núna eru aðrir hlutir farnir að næra mann í þessu og þá ekki síst að finna það að fólk nýtur þess að fylgjast með því sem maður er að gera. Það er töluvert mikil næring í því fyrir mig. Fólk er að stoppa mann á förnum vegi og þakka fyrir eitthvað sem maður hefur gert og það finnst mér rosalega mikils virði.“

Þú hlýtur líka að upplifa það í þínu starfi, Steinn, að fólki finnist það standa í þakkarskuld við þig fyrir að hafa hjálpað því.

„Já heldur betur. Ég lít þannig á það að ef við náum að bjarga einum þá sé það sigur. En við munum ábyggilega koma til með að bjarga fleirum.“

Bræður standa þétt saman.

Úr myrkrinu í ljósið

Aðfaranótt laugardagsins 12. maí standa Píeta-samtökin fyrir sinni árlegu göngu „Úr myrkrinu í ljósið“ og ég bið Stein að útskýra í stuttu máli hver hugmyndin að baki henni sé.

„Það er lagt af stað klukkan fjögur um nóttina og gengnir fimm kílómetrar. Þetta er náttúrlega rosalega táknræn ganga,“ útskýrir hann. „Lagt af stað í myrkri og gengið inn í ljósið. Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðunar og sjálfsvígshugsana. Það er líka mikið af aðstandendum fólks sem fallið hefur fyrir eigin hendi sem ganga með okkur.“

Fer alltaf að hlæja

Ég spyr þá bræður hvort þeir ætli að ganga í ár og það ætlar Steinn að sjálfsögðu að gera en Pétur Jóhann spyr auðvitað strax hvað þetta sé langt sem þurfi að ganga. Það skapar léttan grínskets milli þeirra bræðra og þegar þeir hætta að fíflast spyr ég Stein hvað honum finnist um bróður sinn sem grínara.

„Það eru tveir menn sem ég á erfitt með að hlæja ekki að bara um leið og sé á þeim andlitin,“ segir Steinn. „Það eru Pétur og Jón Gnarr. Þegar ég sé andlitið á Pétri, hvort sem er í virðulegu matarboði eða einhvers staðar annars staðar þá fer ég bara að hlæja.“

Grínið í genunum

Ég spyr Pétur Jóhann hvort hann haldi að Steinn hefði getað átt framtíð fyrir sér sem grínari en hann þvertekur fyrir það í fyrstu.

„Nei, nei, nei,“ segir hann og skellihlær en söðlar svo um. „Jú, án efa hefði hann getað það. Þetta er í genunum okkar allra bræðranna. Ég vil meina að við séum allir fyndnir, hver á sinn hátt, en einhverra hluta vegna virðist ég hafa haft meiri löngun til að takast á við þetta. Það var ekki nóg fyrir mig að fá hlátur í góðra vina hópi. Það virðist hins vegar vera nóg fyrir bræður mína. Þeir geta komið öllum til að hlæja í fjölskylduboðum og litlum partíum en ég þarf að fá eitthvað meira.“

„Ég er örugglega félagsfælnari en Pétur,“ útskýrir Steinn. „Það spilar kannski eitthvað inn í. En þó að það væri ekki raunin þá finn ég bara engan áhuga á þessum geira.“

Við sláum botninn í spjallið með því að ég spyr Pétur Jóhann hvað honum finnist um starfið sem Steinn er að vinna.

„Mér finnst það alveg magnað,“ segir hann. „Ég dáist að honum. Eins og hann kom inn á áðan þá lenti hann í þessu mótorhjólaslysi og söðlar í rauninni alveg um. Ég held hann eigi eftir að blómstra í þessu starfi. Þetta liggur mjög vel fyrir honum og það er mjög gott að tala við hann. Það hefur alltaf verið hans sterkasta hlið, finnst mér. Þegar maður situr og talar við hann er maður oft búinn að segja honum sín eigin svörtustu leyndarmál, án þess að ætla sér það. Það er honum meðfætt að vera sálfræðingur. Ef ég er í einhverri krísu í huganum þá hringi ég bara í Steina bróður og hann reddar öllu.“

Sími Píeta-samtakanna er opinn frá 9-16 alla virka daga og Steinn hvetur alla þá sem glíma við sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir til að nýta sér þetta bjargræði sér að kostnaðarlausu.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -