Namibíska dagblaðið The Namibian greinir frá því að sexmenningarnir, sem voru handteknir vegna Samherjamálsins í gær, hafi verið leiddir fyrir dómara í morgun. Fór þó svo að málinu var frestað til morguns vegna umsóknar um lausn gegn tryggingu en mennirnir sex sem um ræðir eru allir grunaðir um spillingu, fjársvik og peningaþvætti í tenglsum við mál Samherja.
Á meðal þeirra eru hinir svokölluðu hákarlar Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu og Tamson ‘Fitty’ Hatuikulipi, tengdasonur hans, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor. Fyrir utan þá eru Pius ‘Taxa’ Mwatelulo, sem tengist James fjölskylduböndum og Ricardo Gustavo, samstarfsmaður James, ákærðir í málinu.
Spillingarlögregla landins hefur sagt í fjölmiðlum að hægt sé að halda mönnunum sex í varðhaldi í tvo sólarhringa og því mun morgundagurinn leiða í ljós hvort það verði framlengt.