Þriðjudagur 7. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Samherjamyndböndin breyta engu um múturannsókn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari gefur ekkert upp um gang rannsóknar á meintum mútum Samherja í Namibíu. Hann svarar því neitandi hvort Samherjamyndböndin hafi orðið til að stöðva eða hafa áhrif á rannsóknina. Þau fjalli einfaldlega um allt annað mál. 

„Hvers vegna í ósköpunum ættu þau að gera það? Þessi myndbönd koma lítið inn á það sem við erum að gera og fjalla myndböndin um allt annað mál,“ segir Ólafur Þór. Aðspurður segir héraðssaksóknarinn að múturannsóknin þokist áfram og að samstarf milli landa hafa gengið ágætlega.  „Við erum með fasta starfsmenn í þessu og dagurinn þeirra fer í þetta. Að öðru leyti koma rannsóknarhagsmunir í veg fyrir að ég geti tjáð mig nokkuð um hvernig gengur.“

Samherji er sakaður um að hafa á árunum 2014 til 2019 greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu rúman milljarð króna í mútur í þeim tilgangi að komast yfir eftirsóttan hrossamakrílkvóta. Fyrirtækið er sagt hafa hagnast þannig verulega á starfsemi sinni í landinu og síðan notfært sér þekkt skattaskjól til að koma hagnaðinum undan.  Rannsóknin hefur hins vegar dregist á langinn vegna lokunar landamæra í COVID-faraldrinum og hefur dómari í Namibíu samþykkt að fresta því til sumarloka að fastsetja dagsetningar fyrir réttarhöldin. Svo segir aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu, Ed Marondedze.Hann segir að unnið sé sleitulaust að rannsókninni. Marondedze hefur lýst því yfir að hann búist við handtökum á Íslandi vegna málsins en nú sitja sjö grunaðir Afríkumenn í namibísku fangelsi vegna málsins.

Maður er í vörn núna og verður að hugsa leikina

„Ég er mjög rólegur með þetta allt,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í samtali við Mannlíf um upplifun sína af ásökunum og rannsókn á meintum mútum fyrirtækisins til afrískra ráðamanna og venslamanna þeirra. Héraðssaksóknara hefur verið send réttarbeiðni frá Namibíumönnum vegna málsins. Í samtali við Mannlíf segist Ólafur Þór jafnframt hafa undir höndum töluvert gagnamagn sem verið sé að fara yfir.

Samherji hefur nú birt tvö heimatilbúin myndbönd þar sem reynt er að koma höggi á Helga Seljan fréttamann og RÚV. „Ég segi allt í lagi en maður liggur dálítið flatur í augnablikinu. Maður er í vörn núna og verður að hugsa leikina,“ sagði Þorsteinn Már, forstjóri útgerðarfyrirtækisins, aðspurður um líðan sína eftir storminn sem geisaði í kjölfar birtingar fyrirtæksins á fyrra heimatilbúna Samherjamyndbandinu þar sem Helgi var sakaður um fréttafölsun og RÚV sakað um óheilindi. Forstjórinn sagðist þá í vörn og segist í samtali við Mannlíf vera að hugsa næstu leiki.

Heimildir Mannlífs herma að herferð Samherja gegn Helga og RÚV hafi meðal annars verið unnin af Þorbirni Þórðarsyni, lögmanni og fyrrum fréttamanni Stöðvar 2, en hann er einn þeirra sem verið hefur fyrirtækinu innan handar síðustu misseri. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Mannlíf ekki tekist að ræða við Þorbjörn vegna málsins.

Þorbjörn Þórðarsson, lögmaður og fyrrum fréttamaður Stöðvar 2, hefur aðstoðað Samherja undanfarin misseri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -