Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður og núverandi ráðgjafi Samherja, tók um samtal sitt við fyrrverandi starfsmann gjaldeyriseftirlits Seðlabankans. Það gerði hann án vitundar viðkomandi og skilaði síðan inn skýrslu til útgerðarfélagsins upp úr samtalinu.
Stundin greindi frá þessu. Þar kemur fram að Samherjaspæjarinn hafi fengið upplýsingar frá tveimur fyrrverandi starfsmönnum bankans varðandi rannsóknina á hendur Samherja á meintum gjaldeyrisbrotum fyrirtækisins. Þá vissi annar starfsmaðurinn, Jónas Helgason, sem þá var einn af helstu rannsakendum bankans og tók meðal annars þátt í húsleitum Seðlabankans hjá Samherja vorið 2012, ekki að Jón Óttar starfaði fyrir Samherja. Hann vissi ekki heldur að samtalið væri hljóðritað.
Jón Óttar, rannsakandi á vegum Samherja, hefur fengið rúmar 130 milljónir króna fyrir störf sín fyrir sjávarútvegsfyrirtækið. Hann hefur viðurkennt að hafa á þeim tíma sem hann þáði peninga frá Samherja áreitt Helga Seljan fréttamann sem stjórnendur Samherja hafa lýst sem höfuðóvini sínum vegna meintra lyga um fyrirtækið. Jón Óttar sat fyrir sjónvarpsmanninum og sendi honum smáskilaboð úr leyninúmeri.