Norski Miðillinn DN greinir frá því að Samherji stefni á að hætta starfsemi sinni í Afríkuríkinu fyrr en áætlað var.
„Stefnt er að því að vera burt frá Namibíu einhvern tímann á næstu mánuðum,“ segir Geir Sviggum, hjá norsku lögmannsstofunni Wikborn Rein, sem hefur umsjón með innri rannsókn á viðskiptum Samherja í Namibíu. Starfandi forstjóri Samherja, Björgólfur Jóhannson, hefur áður sagt fyrirtækið ætla að hætta þar starfsemi, en af svörum Geirs má ráða að ferlinu verði flýtt.
Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Eins og kunnugt er greindu fjölmiðlar, þar á meðal RÚV og Stundin, frá því á dögunum að fyrirtækið, sem er umsvifamesta útgerðarfélag Íslands með um 111 milljarða króna eigið fé, stundaði stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu til þess að ná undir sig fiskveiðikvóta. Í umfjöllun miðlanna kom fram að það hafi á síðustu árum greitt á annan milljarð króna í mútur og í Stundinni var m.a. farið út í flókið net skattaskjólaviðskipta Samherja.
Í framhaldi réði stjórn Samherja fyrirgreinda lögmannsstofu, Wikborg Rein, til að rannsaka sín mál en í áðurnefndu samtali við DN segir Geir ennfremur að ekkert hafi komið upp í rannsókn stofunnar sem gefi til kynna að ásakanir um peningaþvætti eða spilling nái til starfsemi fyrirtækisins í öðrum löndum. Vinna stofunnar fram til þessa bendi til að þær einskorðist við starfsemina í Namibíu. Þá lætur Geir hafa eftir sér í viðtalinu að rekist lögmannsstofan á eitthvað gagnýnisvert þá verði tekið á því. Samherji vilji læra af málinu.