Nýjar ásakanir eru komnar fram á Samherja, Að þessu sinni er fyrirtækið sakað um svik í Færeyjum. Íslendingar sem störfuðu í Namibíu voru ranglega skráðir á færeysk flutningaskip og nutu þannig skattalegs ávinnings. Þetta kom fram á RÚV í kvöld. Kveikur í samvinnu við færeyska sjónvarpið unnu að þessum uppljóstrunum.
Vitnað er í færeyskan skattasérfræðing sem telur Samherja hafa brotið bæði færeysk og namibísk lög með því að greiða Íslendingum sem störfuðu í Namibíu laun í Færeyjum og skrá þá ranglega í áhafni færeyskra flutningaskipa. Þessar ásakanir bætast við mútumál í Namibíu og víðfeðm svik þar.
Samherji er sagður hafa misnotað þetta með því að skrá íslenska sjómenn á færeysku fraktskipin, á sama tíma og þeir voru raunverulega við störf á fiskiskipum félagsins við strendur Namibíu. Sjómennirnir greiddu ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap af þeim sökum.
Færeyska Sjónvarpið reyndi að fá viðbrögð Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, en hann gaf ekki færi á sér. Aftur á móti upplýsti hann í dag að hann hefði kært Jóhannes Stefánsson uppljóstrara fyrir rangar sakargiftir. Taldi hann Jóhannes hafa ýjað að því að Samherjamenn hefðu átt aðild að því að eitra fyrir sér.