RÚV segir frá þessu og vitnar í namibíska fréttamiðilinn New Era Live. Skipverjunum var sagt upp í desember 2018 og voru aðrir ráðnir tímabundið í þeirra störf. Hinir brottreknu fengu hins vegar ekki greiddan uppsagnarfrest og leituðu því til gerðardóms.
Gerðardómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ArticNam bæri að greiða skipverjunum 1,8 milljónir namibískra dollara fyrir lok júní. Skipverjarnir hafa ekki fengið krónu og ætla því að láta reyna á niðurstöðu gerðardómsins fyrir dómstólum.
Heinaste var kyrrsettur vegna rannsóknar yfirvalda í Namibíu á Samherjaskjölunum. Þegar kyrrsetningunni var aflétt var togarinn seldur til félagsins Tunacor Fisheries.
Samherjamenn eru ekki eingöngu sakaðir um að svíkja sjómenn sína. Meðeigendurnir að ArticNam eiga æi deilum við íslenska fyrirtækið og útiloka ekki málsókn á hendur Samherjamönnum. Virgillo De Sousa, talsmaður þeirra namibísku félaga sem eiga 51 prósent eignarhlut í ArcticNam, hefur sagt að þeir standi heilshugar með sjómönnunum.