Þriðjudagur 14. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Sami reykkofi og pabbi og afi notuðu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðalsteinn Sigurðarson og Eyrún Harpa Eyfells Eyjólfsdóttir búa á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal á Fljótsdalshéraði með tíu mánaða gömlum syni sínum. Þau eru með stórt fjárbú, 420 kindur, og allt þeirra hangikjöt um jólin er af heimaslátruðu, taðreykt í gömlum reykkofa. Þau borða þó ekki hangikjöt á aðfangadagskvöld heldur svínakjöt sem þau keyra 90 kílómetra niður á Egilsstaði til að kaupa.

„Ég er fjórði ættliðurinn sem býr hérna á Vaðbrekku,“ segir Aðalsteinn spurður hvers vegna þau hafi ákveðið að setjast að fyrir austan. „Eyrún er af Reykjavíkursvæðinu en hún kann vel við þennan lífsstíl og okkur líður mjög vel hér. Við erum í 400 metra hæð yfir sjávarmáli, 75 kílómetra akstur í skóla og leikskóla, en það þykir nú bara eðlilegt í sveitinni svo við kvörtum ekki yfir því, enda ekki komið að því að senda drenginn þangað.“

„Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum.“

Aðalsteinn reykir allt sitt hangikjöt sjálfur, eins og bændur á Vaðbrekku hafa gert mann fram af manni, meira að segja í sama reykkofa og fyrri kynslóðir nýttu til reykinganna.„Þetta er sami kofinn og afi og pabbi reyktu í,“ segir Aðalsteinn.

„Ég veit ekki hvort langafi reykti sitt kjöt þar líka, þetta var nefnilega upphaflega hesthús. Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum, en við erum bara að þessu fyrir okkur sjálf og nánustu ættingja og vini. Þetta er bara hluti af því að vera sjálfbær.“

Ekkert jólastess

Jólahaldið á Vaðbrekku er fjörugt, systir Aðalsteins, faðir hans og jafnvel fleiri ættingjar og vinir halda jólin með litlu fjölskyldunni og dvelja þá gjarnan í nokkra daga á heimilinu.

„Fólki finnst gott að vera hérna um jólin,“ útskýrir Aðalsteinn. „Hér er ekkert stress og algjör rólegheit. Við borðum góðan mat, lesum og spjöllum og grípum gjarnan í spil. Þegar maður er kominn 400 metra yfir sjávarlínu gilda engar reglur um það hvað má gera á jólunum, við spilum þetta bara af fingrum fram.“

Hér er ekkert stress og algjör rólegheit.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir að reykingin á hangikjötinu sé snar þáttur í jólaundirbúningnum er það þó ekki á borðum á sjálft aðfangadagskvöld.

„Það hefur aldrei verið siður á mínu heimili að borða hangikjöt á aðfangadagskvöld,“ segir Aðalsteinn. „Þá er alltaf borðað svínakjöt. Það er reyndar aðkeypt ennþá en við erum svona að velta því fyrir okkur að fá okkur svín til að ala upp og reykja sjálf, sjáum til hvort það kemst í framkvæmd. Hangikjötið er borðað yfir allan veturinn, þótt það sé auðvitað mest yfir jólin. Á jóladag borðum við til dæmis alltaf kalt hangikjöt.“

Kaupstaðarlyktin heyrir sögunni til

- Auglýsing -

Vaðbrekka er í 90 kílómetra fjarlægð frá næsta kaupstað sem er Egilsstaðir og það þýðir auðvitað að fara þarf í kaupstaðarferð til að kaupa inn fyrir jólin, það er ekki hægt að stökkva út í búð í hasti ef eitthvað gleymist.

„Við erum nú vön því að versla fyrir heila viku í einu, þar sem við búum svona afskekkt,“ segir Aðalsteinn og þykir ekki mikið til spurningarinnar koma. „Það er hins vegar liðin tíð að það sé kaupstaðarlykt af fólki þegar það kemur úr slíkum ferðum. Ég hef til dæmis aldrei drukkið áfengi og þetta er almennt að breytast í sveitunum. Það er bara hluti af lífinu að skreppa í bæinn einu sinni í viku til að kaupa inn.“

Það er oft líka margt um manninn á Vaðbrekku á gamlárskvöld, enda auðveldara fyrir þau Aðalstein og Eyrúnu að bjóða fólki til sín en að fara eitthvert.

„Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur,“ segir Aðalsteinn og hlær. „Þannig að okkur finnst gott að bjóða fólki í heimsókn og leyfa því að upplifa rólegheitin á jólunum hjá okkur. Maður nýtur jólanna svo miklu betur í friðsældinni.“

Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur.

Myndir / Aðalsteinn Sigurðarson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -