Fundi Almannavarna, sóttvarnalæknis og sérsambanda íþróttahreyfinga vegna COVID-19 kórónaveirunnar lauk nú undir kvöld.
Á fundinum kom fram að ekki verður sett á samkomubann eða takmarkanir á íþróttaviðburði eins og staðan er núna.
„Eins og þeir sögðu er það neyðarúrræði sem þeir grípa til ef útbreiðslan verður meiri þannig að eins og staðan er í dag eru allir íþróttaviðburðir á dagskrá og verða það áfram þannig til annað verður tilkynnt,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í viðtali við RÚV.
Staðan hvað íþróttaviðburði er þó metin frá degi til dags eins og aðrir viðburðir og staðan almennt í þjóðfélaginu tengt kórónaveirunni.
Segir Róbert sérsambönd íþróttahreyfingarinnar í góðu sambandi og hafa rætt hvað gera skuli ef samkomubann verður sett á. Sérsamböndin munu funda aftur á miðvikudag.
Framundan eru fjölmörg mót, bæði deildarkeppnir og alþjóðleg mót, sem samkomubann myndi hafa áhrif á.
„Fólk er áhyggjufullt í þjóðfélaginu, en það er ekkert tilefni til þess að grípa til einhverra takmarkana og því höldum við okkar striki óbreyttu, en við munum að sjálfssögðu fylgjast vel með og endurmeta stöðuna ef þess þarf.“
Horfa má á viðtalið við Róbert Geir á vef RÚV.