Margt fólk kaupir sér árskort í líkamsrækt í upphafi árs og setur sér háleit heilsumarkmið. Um þetta skrifar Annas Jón Sigmundsson í nýjum pistli þar sem hann líkir árskorti í líkamsrækt við samning við kölska.
„Eru ekki örugglega allir búnir að setja sér áramótaheit sem hafa alltaf klikkað hingað til? Hvaða rugl er þetta alltaf í okkur að telja okkur trú um að við séum eitthvað að fara að breytast af því að búið er að hækka ártalið um einn staf. Og hvernig stendur á því að okkur gengur svona illa að ná þessum markmiðum okkar,“ skrifar Annas Jón Sigmundsson í pistil um áramótaheit og háleit markmið.
„Þegar ég var barn og unglingur var maður alltaf á fullu í allskonar íþróttum þar sem yfirleitt var um að ræða hópstarf með jafnöldrum sínum. Þá var ógeðslega gaman að stunda íþróttir og sérstaklega þegar maður var jafnvel að keppa með bestu vinum sínum,“ heldur hann áfram og undrar sig á því að fólk hættir gjarnan að stunda hópíþróttir þegar það verður fullorðið. Í staðin kaupir fólk sér líkamsræktarkort.
Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina.
„Og hvernig stendur á því að við hættum að æfa hópíþróttir með vinum okkar og veljum í staðinn að gera samning við kölska sjálfan því erfitt er að finna aðra samlíkingu yfir það helvíti sem árskort í líkamstækt eru. Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina. Svona skömm sem bitnar á þér andlega, líkamlega og fjárhagslega og gerir ekkert annað en að brjóta okkur niður,“ bætir hann við.
„Eftir að hafa sjálfur margoft lent á þessum stað með honum kölska vini mínum verð ég að segja að það eina sem hefur virkað fyrir mig undanfarin ár eru einhvers konar hópar sem hittast nokkrum sinnum í viku og stunda saman íþróttir. Þá er maður með fyrir fram ákveðin tíma sem á að hittast á og þegar þú mætir ekki hringir einhver í þig eða skilur eftir skammarorð á veggnum hjá þér á Facebook. Undanfarin áratug hef ég náð að festa mig í þremur mismunandi hópum.“
Pistil Annasar, sem má lesa í heild sinni hérna. Galdurinn að hans mati er að stunda hreyfingu með góðum hóp. „Farið og finnið ykkur einhvern hóp. Hringið í vini og vinkonur ykkar og fáið þau til að slást í för með ykkur. Hættið að reyna að gera þetta ein. Hópstarfið virkar miklu betur og er auk þess miklu skemmtilegra.“