Föstudagur 17. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Samskiptastjóri Carbfix: „Umhverfismál eru ofmetinn málaflokkur – Yfirborð sjávar er ekki að hækka“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í ársbyrjun 2022 var greint frá því að Carbfix, dótturfyrirtæki OR, hefði ráðið sér „samskiptastjóra,“ en í því embætti felst að sinna kynningarmálum og tala fyrir hönd fyrirtækisins í fjölmiðlum. Samskiptastjórinn hjá Carbfix heitir Ólafur Teitur Guðnason.

Ólafur Teitur hefur lengi verið virkur í samfélagsumræðunni og á árunum 2004-2007 skrifaði hann vikulega pistla í Viðskiptablaðið þar sem fréttaflutningur í íslenskum fjölmiðlum var skoðaður og greindur. Þessir pistlar hafa komið út í fjórum bókum sem heita einfaldlega: Fjölmiðlar 2004–2007. Undirtitillinn á forsíðu er sá sami á öllum bókunum fjórum: „Getur þú treyst þeim?“

Þegar pistlarnir eru skoðaðir liggur í augum uppi að svar Ólafs Teits sjálfs við þessari spurningu er nei, við getum engan veginn treyst fjölmiðlum. Rauði þráðurinn í þessum bókum er sá að íslenskir fjölmiðlar láti stýrast af áróðri og annarlegum hagsmunum tiltekinna hópa. Sú mynd sem er dregin upp af fjölmiðlafólki er í meginatriðum sú að það fólk sem starfi við að miðla fréttum á Íslandi séu ýmist auðtrúa, óvandvirkt, latt, heimskt, illa innrætt, eða allt ofantalið.

Það er svolítið ögrandi hjá Carbfix að ráða mann með slíkar skoðanir í starf sem felst aðallega í því að tala við fjölmiðlafólk, en auðvitað geta þannig aðgerðir verið jákvæðar ef þær verða til þess að halda blaðamönnum við efnið. Umhverfismál eru fyrirferðarmikil í fjölmiðlapistlum Ólafs Teits frá fyrstu árum aldarinnar og í skrifum sínum tekur hann sér ótvírætt stöðu með því sem í kallað hefur verið „afneitunariðnaðurinn“ (e. The Denial Industry).

Skrif af þessu tagi voru áberandi í heimspressunni á þessum árum og snerust í meginatriðum um að efast um allar rannsóknir sem bentu til þess að loftslagsbreytingar af mannavöldum væru skaðlegar umhverfinu. Að sama skapi var gengist upp í því að hampa þeim vísindamönnum sem drógu skaðsemi hnatthlýnunar í efa, jafnvel þeim sem byggðu skrif sín á hæpnum forsendum.

Olíufyrirtækin veittu umtalsverðum fjármunum til lobbýhópa og hugveitna sem tóku að sér að skrifa og miðla pistlum og greinum þar sem loftslagsvandanum var afneitað með öllum mögulegum ráðum. Málflutningur þessara afla einkenndist gjarnan af því sem er kallað „slippery slope“ í rökfræðinni. Þetta gekk út á að benda á þær fullyrðingar umhverfisverndarsinna sem virtust ónákvæmar eða ekki nægilega traustar og nota þær til marks um að allur þeirra málstaður væri byggður á sandi.

- Auglýsing -

Internetið var enn ungt á þessum árum og hugtök á borð við „falsfréttir“ og „upplýsingaóreiða“ ekki komin almennilega fram. Í þessum anda starfaði Ólafur Teitur á Viðskiptablaðinu og beitti íróníu óspart í skrifum sínum til þess að grafa undan öllum þeim fréttum sem honum þóttu einkennast af of mikilli samúð í garð umhverfisverndarsinna.

Umhverfisverndarsjónarmið voru að mati Ólafs Teits „málflutningur [sem] bylur alls staðar í sífellu,“ svo vitnað sé beint í orð hans frá því í desember 2004.

Í fjölmiðlapistlum Ólafs Teits eru dylgjur og útúrsnúningar meginregla. Pistlaskrifarinn hefur meiri tilhneigingu til að gefa hluti í skyn en að segja þá beint, en meðal þess sem hægt er að rifja upp þegar gripið er niður í fjölmiðlapistla Ólafs Teits er eftirfarandi:

- Auglýsing -

Yfirborð sjávar er sennilega ekki að hækka. Aðalskýringin á hitastigsbreytingum í andrúmsloftinu eru ekki gróðurhúsalofttegundir heldur mismunandi mikil virkni sólarinnar. Þetta eru því náttúrulegar sveiflur sem óþarfi er að hafa nokkrar áhyggjur af (Fjölmiðlar 2004, 263).

Sú hugmynd að loftslagsbreytingar ýti undir virkni og skaðsemi fellibylja er „fáránleg“ (Fjölmiðlar 2005, 211).

Það hversu mikil áhrif mannfólkið hefur á hlýnun jarðar er „umdeilt“ (Fjölmiðlar 2005, 228).

Umfjöllun fjölmiðla um bráðnun jökla einkennist oftast nær af „hræðsluáróðri öfgamanna.“ Fréttamenn eru ginkeyptir fyrir þessum áróðri og þess vegna er ýmislegt í fréttum sem reynist „tóm þvæla þegar betur er að gáð“ (Fjölmiðlar 2006, 93-94).

North-skýrslan („North Report“) kom út í júní 2006 og var afrakstur tólf vísindamanna af ólíkum sviðum. Skýrslan var rækilega ritrýnd og skipti sköpum við að opna á umræður um loftslagsbreytingar hjá íhaldssömum hópum í Bandaríkjunum en Sherwood Boehlert, formaður þingnefndarinnar sem bar ábyrgð á skýrslunni, var þingmaður Repúblíkana.

Niðurstöðurnar í skýrslunni voru á þá leið að hækkanir á hitastigi jarðar hefðu verið meiri á tuttugustu öld en nokkru sinni áður undanfarin tvöþúsund ár. Umsögn Ólafs Teits um þessar niðurstöður var að þær væru „hrein og klár ósannindi“ (Fjölmiðlar 2006, 220).

Árið 2006 gerðust þau tíðindi að Íslendingar voru farnir að losa meiri koltvísýring frá heimilum per einstakling heldur en allar hinar Norðurlandaþjóðirnar, og höfum við haldið toppsætinu allar götur síðan.

Þetta sama ár, 2006, skrifaði Ólafur Teitur í Viðskiptablaðið:

„Þvert á móti hefur stórlega dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi frá árinu 1990 – raunar meira en í flestum Evrópuríkjum“ (Fjölmiðlar 2006, 326).

Fjölmiðlamenn gefa sér yfirleitt gagnrýnislaust að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Staðreyndin er hins vegar sú að við vitum þetta ekki fyrir víst (Fjölmiðlar 2007, 65).

Fréttaflutningur um svifryksmengun í Reykjavík er stórlega ýktur og á skjön við öll tölfræðileg gögn um málið (Fjölmiðlar 2007, 66-71).

Umhverfismál eru stórlega ofmetinn málaflokkur. Kannanir sýna að fáir kjósendur telja þau vera mikilvægasta málefni næsta kjörtímabils. Ofuráhersla fjölmiðla á umhverfismál er þannig til marks um annarlega hagsmuni fjölmiðlamanna. Þetta kallar Ólafur Teitur „umhverfis-falsið“ (Fjölmiðlar 2007, 108-109).

Á meðal þeirra mála sem Ólafur Teitur skrifaði mest um árið 2007 var íbúakosning í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík. Meginstefið í þeim skrifum var að umfjöllun fjölmiðla, sérstaklega RÚV, hafi verið óvilhöll og ósanngjörn. Þetta hafi leitt til þess að Hafnfirðingar hafi að lokum kosið gegn stækkuninni.

Þessi skrif Ólafs Teits voru forsvarsmönnum Alcan svo þóknanleg að hann var ráðinn upplýsingafulltrúi fyrirtækisins árið 2008 og gegndi því starfi í tæpan áratug. Þetta var sama ár og alþjóðlega námuvinnslufyrirtækið RioTinto keypti Alcan, en það fyrirtæki á sér áratuga langa sögu af umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum víða um heiminn.

Það þarf sterk bein til að koma fram sem málsvari þess háttar fyrirtækis á opinberum vettvangi og forsvarsmenn fyrirtækisins hérlendis sáu í hendi sér að orðhákur eins og Ólafur Teitur væri kjörinn í hlutverkið.

Árið 2017 söðlaði Ólafur Teitur um og varð aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttir iðnaðarráðherra. Örfáum dögum eftir ráðninguna fundaði ráðherra með Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi þar sem línur voru lagðar fyrir komandi verkefni. Þegar Þórdís Kolbrún varð utanríkisráðherra árið 2021 voru málefni stóriðjunnar ekki lengur á hennar borði. Af því tilefni ákvað Ólafur Teitur að láta af störfum sem aðstoðarmaður hennar.

Um svipað leyti var tilkynnt að Rio Tinto og Carbfix hefðu tekið höndum saman um að fanga kolefni frá álverinu í Straumsvík. Fyrirhugað er að koma upp móttöku- og förgunastöð fyrir kolefni á lóð álversins þar sem mögulegt yrði að farga 3 milljónum tonna af kolefnum árlega. Ef þær áætlanir koma ekki til með að standast og afköstin verða minni mun stöðin engu að síður vera rós í hnappagatið hjá Rio Tinto og gæti orðið til þess að vinna mjög á móti losun álversins í Straumsvík.

Losun álversins er um 1,6 milljónir tonna á ári. Álverið mun eftir sem áður losa brennisteinstvíoxíð, blý, svifryk og ýmis flúorsambönd líkt og hingað til. Carbfix, fyrirtækið sem við héldum að væri fyrsta skrefið í að leysa loftslagsvandann, hefur ákveðið að láta sér nægja að vera bara stofustáss í Straumsvík.

Ólafur Teitur, sem starfar nú hjá Carbfix, er sem sagt kominn aftur heim.

Í mars 2023 hófst umræðan um möguleikann á nýrri íbúakosningu í Hafnarfirði vegna framkvæmdanna sem standa fyrir dyrum í Straumsvík. Oddviti VG í Hafnarfirði benti á að verkefni Carbfix væri sambærilegt við stækkun álversins og þau rök sem hefðu gilt fyrir íbúakosningu árið 2007 hlytu því að vera enn í gildi. Ólafur Teitur svaraði þessu í Morgunútvarpinu á Rás tvö og taldi varhugavert að fara út í íbúakosningu vegna málsins:

„Langflestir Hafnfirðingar myndu taka undir það, sem muna eftir því, hvort sem þeir voru fylgjandi eða á móti stækkun álversins, að það var gríðarlega erfitt fyrir bæinn og skildi íbúa eftir í sárum, því þetta voru hatrömm átök, við skulum við bara segja það.“

Ólafur Teitur talaði fyrir stækkun í Straumsvík í nafni stóriðjunnar árið 2007. Sami Ólafur Teitur talar fyrir stækkun í Straumsvík árið 2023, en nú í nafni umhverfisverndar.

Röksemdir Ólafs Teits gegn lýðræðislegri kosningu er varðar skipulag bæjarins gætu í sjálfu sér gilt gegn kosningum almennt: Til hvers að vera að leggja það á fjölskyldur að kjósa alla þessa ólíku flokka? Hvernig haldið þið að fólki líði að þurfa að sitja við kvöldmatarborðið þar sem pabbinn kaus kannski Framsókn, mamman VG og dóttirin Samfylkinguna? Viljið þið virkilega sundra heilu fjölskyldunum með hatrömmum átökum?

Lykilspurningin sem eftir stendur varðar viðhorf Ólafs Teits til loftslagsmála. Maðurinn sem hafði atvinnu af því að draga úr loftslagsvandanum, efast um hann og skjóta málstað umhverfisverndarsinna í kaf með skrifum sínum, starfar nú sem málsvari fyrirtækis sem er stofnað utan um það verkefni að draga úr losun koltvísýrings.

Er Ólafur Teitur búinn að skipta svona rækilega um skoðun á þessum málaflokki?

Ef svarið er nei, finnst þeim hjá Carbfix þá ekkert undarlegt að láta þannig mann tala sínu máli á opinberum vettvangi?

Eða hvað?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -